18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (3419)

220. mál, vinnudeilur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu fsp. um framkvæmd á þeim samningum, sem gerðir voru milli þriggja aðila í desember í fyrra, milli alþýðusamtakanna, milli samtaka vinnuveitenda og ríkisstjórnar Íslands sem þriðja aðila. Hæstv. núverandi viðskmrh. hefur svarað því, að verðlagsyfirvöldin viti ekki annað en að staðið hafi verið við þessa samninga. En það er alveg áreiðanlega rétt, að það hefur því miður ekki verið staðið við þessa samninga eins og skyldi, og vanefndirnar eru sérstaklega af hendi hæstv. ríkisstj., þ. e. a. s. af hendi hæstv. fyrrv. ríkisstj., og síðna núverandi hæstv. ríkisstj. hefur setzt að völdum, hefur ekki verið gerð leiðrétting á þessu.

Það var minnzt á brot hæstv. ríkisstj. á sínum hluta samkomulagsins að því er snertir mjólkurverð í Vestmannaeyjum af hv. 9. landsk. hér áðan. Það er í hverju orði sannleikur. Þarna hefur ríkisstj. reynzt svo smá, að hún hefur gert sig að svikara við gert samkomulag við verkalýðssamtökin í landinu fyrir nokkra tugi aura á lítra í einum einasta kaupstað landsins. Ég tel, að ríkisstj. Íslands eigi að meta æru sína hærra verði en svo, að þetta geti átt sér stað.

Verkalýðssamtökin í Vestmannaeyjum hafa reynt að ná rétti sínum út af þessu broti hæstv. ríkisstj., en ekki tekizt það enn. Það hefur verið gengið á fund ríkisstj., svo að hún veit og hefur vitað í marga mánuði um þessi brot, en ekki fengið þeim kippt í lag. Það, sem stendur í veginum fyrir því, að hægt sé að fá dóm félagsdóms um þessi samningsrof, er það, að vinnulöggjöfin kveður svo á, að félagsdómur skuli taka til úrskurðar og dóms þau mál, sem stafi af brotum af hendi atvinnurekenda eða verkalýðssamtaka á gerðum stéttarfélagasamningum. En hér er um ríkisstj. að ræða, og segja lögfræðingar, að það falli þess vegna út fyrir ramma félagsdóms að dæma í slíkum brotamálum. Í slíku skálkaskjóli getur ríkisstj. Íslands ekki setið, og hún getur ekki vænzt þess að fá að sitja í slíku skjóli, ef hana skortir sómatilfinningu til þess að finna það sjálf. Það er vitanlega ekkert annað fyrir hendi í þessu máli en að höfða sakamál gegn ríkisstj. Íslands, höfða almennt mál gegn ríkisstj. Íslands, ef félagsdómur telur sig ekki geta dæmt í málinu, nema því aðeins að núverandi hæstv. ríkisstj. geri þarna ráðstafanir til að bæta það, sem brotið hefur verið, og bæta mönnum það upp í Vestmannaeyjum, sem gengið hefur verið á þeirra hlut á liðnu ári. Það er nokkurn veginn reiknanlegt dæmi, og þetta ber að bæta, a. m. k. ber núverandi hæstv. ríkisstj. að gera gangskör að því þegar í stað, að mjólkurverð í Vestmannaeyjum verði kr. 2.70, eins og um var samið, því að það er alveg fast undirstöðuatriði í samningsgerðinni, að verð á mjólk og nokkrum öðrum vörutegundum skuli á ábyrgð ríkisstj. vera ákveðið að krónutölu miðað við verðeiningu. Það er því ekkert hægt að deila um, hvort þarna sé um samningsrof að ræða eða ekki.

Ég hef haft nokkur afskipti af þessu máli, og ég harma það, að Alþýðusamband Íslands skuli ekki vera búið að fara í málaferli við ríkisstj., úr því að ekki telst hægt að láta félagsdóm dæma það. En það, sem fyrst og fremst ber að herða að hæstv. ríkisstj. um, er það, að hún viðurkenni það, sem þarna hefur gerzt, og láti leiðrétta það, láti færa verðið niður í kr. 2.70 og borga til baka úr ríkissjóði með einhvers konar verðjöfnun, það sem einstaklingar í Vestmannaeyjum hafa orðið að borga meira fyrir hvern lítra mjólkur en þeim bar samkv. samkomulaginu. Það er alveg sama og að svíkja þá um kaup að ætla þeim að borga mjólkina hærra verði en um var samið, og það bitnar fyrst og fremst á barnafjölskyldunum í einum einasta kaupstað landsins.

Ég læt mér ekki detta í hug, að hv. 4. landsk. (GJóh) hafi farið með rangt mál, þegar hann upplýsti áðan, að það hefði verið hækkað verð á kaffi og sykri og fleiri vörutegundum, sem áttu að vera undir ákveðnu verði samkv. loforði ríkisstj., yfir sumarmánuðina s. l. sumar, en það vantar þarna upplýsingar um, hvort þetta hefur verið kært, hvort það hefur verið leitað leiðréttingar á þessu gagnvart hæstv. ríkisstj. eða hvort það hefur verið gerð tilraun til að leita til dómstólanna um þetta, því að þarna er líka augljóslega um brot að ræða af hendi hæstv. ríkisstj.