14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Afgreiðsla þessa máls í hv. Alþ. virðist ætla að verða með dálítið spaugilegum hætti. Þegar málið fyrst var lagt fyrir, var það kynnt sem allsherjar frelsisskrá fyrir íslenzka verzlun. Fram á það var að vísu sýnt þegar við 1. umr. málsins, hversu fjarri færi, að svo væri. Engu að síður reyndu fulltrúar hæstv. ríkisstj. að halda sér fast við það hér í þessari deild, að frv. væri mikilvæg frelsisskrá. En þegar það komst upp í Ed., þá virtist allur vindur úr fulltrúum hæstv. ríkisstj., því að þar bar einn af voldugustu stuðningsmönnum hennar fram brtt. við 1. gr. frv., þar sem það er sagt alveg skýrum stöfum, að frv. sé engin frelsisskrá fyrir íslenzka verzlun. Nú er það orðin fyrsta setning þessa frv., að stefna skuli að því að gera allan innflutning til landsins frjálsan. Manni skildist satt að segja, þegar þetta frv. fyrst var lagt fyrir, að með þessu frv. væri allur innflutningur til landsins gefinn frjáls. En nú hefur hv. Ed. rekið þetta rækilega ofan í hæstv. viðskmrh., og ætti þá ekki að þurfa aðra til þess.

En það er eitt annað, sem ég vildi benda á í sambandi við frv. eins og það er nú orðið, og það er hið eina, sem ég vildi leggja til málsins á þessu síðasta stigi þess.

Frv. hefst nú með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Stefna skal að því að gera allan innflutning til landsins frjálsan. Meðan gjaldeyristekjur þjóðarinnar nægja ekki til þess, að svo megi verða, ákveður ríkisstj. hverju sinni með reglugerð, hvaða innflutningur til landsins skuli vera frjáls.“

Nú er spurningin: Hvaða ástæður geta legið til þess, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar nægi ekki til þess, að innflutningurinn geti orðið algerlega frjáls? Um þetta skulum við fletta upp í biblíu hv. stjórnarflokka í efnahagsmálum, en það er hin hagfræðilega álitsgerð þeirra dr. Benjamíns Eiríkssonar og Ólafs prófessors Björnssonar, sú, er þeir sömdu í sambandi við gengislækkunina, en þar segir svo á bls. 20, með leyfi hæstv. forseta: „Ef atvinnulífið, fjármálin og peningamálin eru á heilbrigðum grundvelli, er engin ástæða til, að gjaldeyrisskort geti borið að höndum.“ Svo mörg eru þau orð. Samkvæmt þessari álitsgerð, sem fram til þessa hefur verið biblía stjórnarflokkanna í efnahagsmálum og grundvöllur að þeirri stefnu, sem þeir hafa fylgt, þá er eina ástæða til þess, að um gjaldeyrisskort geti verið að ræða, sú, að atvinnulífið, fjármálin og peningamálin séu á óheilbrigðum grundvelli. Og hvað er nú búið að setja hér í sjálft lagafrv. hæstv. ríkisstj.? Það er: Meðan gjaldeyristekjur þjóðarinnar nægja ekki til þess að gera innflutninginn frjálsan, skal hann vera takmarkaður. Hvað segja sérfræðingar stjórnarinnar? Hvenær nægja gjaldeyristekjurnar ekki? Jú, þegar stefnan er óheilbrigð. Hér er m.ö.o. í sjálfu frv. hæstv. ríkisstj. verið að gera ráð fyrir því, að stefnan verði áfram eins og hingað til óheilbrigð, því að meðan hún treystir sér ekki til þess að hafa verzlunina frjálsa, þá er, samkvæmt hennar eigin efnahagsbiblíu, ástæðan sú, að stefnan innanlands er ekki heilbrigð í fjármálum og efnahagsmálum. Við höfum alltaf vitað þetta, andstæðingar hæstv. ríkisstj., að stefna hennar í efnahagsmálum hefur ekki verið heilbrigð. Hins vegar er það mjög skemmtilegt að fá það staðfest í lagaformi frá hinu háa Alþ. fyrir forgöngu hv. stjórnarflokka, að gert er ráð fyrir því, að svo muni verða enn um alilangt skeið, að stefna stjórnarflokkanna í efnahagsmálum verði ekki heilbrigð. Við höfðum að vísu ekki við öðru búizt, en við höfðum ekki gert ráð fyrir hinu, að stjórnarfi. mundu játa getuleysi sitt í efnahagsmálunum svo greinilega sem hér á sér stað í 1. gr. frv.