25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3422)

220. mál, vinnudeilur

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þegar umr. var frestað um þessa fsp., sem nú er hér aftur á dagskrá, fyrir viku eða nálægt því, þá stóð svo á, að hæstv. viðskmrh. (IngJ) hafði hér flutt töluvert þungorða ræðu, sem hann beindi m. a. til mín, og í þeirri ræðu spurði hann mig tveggja spurninga. Hann spurði mig, hvers vegna ég hefði ekki borið fram þá fsp., sem hér væri til umræðu, úr því að mér væri svo mikið áhugamál að ræða þetta, og í öðru lagi, hvort ég hefði sofið á því máli, sem umræðurnar snerust nú aðallega um, þ. e. a. s. um verðlagsmál á mjólk í Vestmannaeyjum. Ég vil ekki láta hjá liða að svara þessum spurningum.

Í fyrsta lagi gerði ég ekki þessa fsp. vegna þess, að ég reynist reyndar vera öllu betur að mér í þessu máli en ráðh. og hef þess vegna ekki um mikið að spyrja í því efni. Hann hélt því hér fram í sinni fyrstu ræðu um málið, að ríkisstj. hefði hvarvetna staðið við þau loforð, sem gefin voru í sambandi við verðlag, ekki einasta á mjólk, heldur á ýmsum fleiri vörutegundum í sambandi við lausn vinnudeilunnar í desembermánuði í fyrravetur. Ég kunni ekki við það að sitja undir slíkum upplýsingum án þess að gefa ráðherranum þær upplýsingar, að í öllum atriðum væri þetta loforð ríkisstj. brotið í því byggðarlagi, þar sem ég á búsetu, en alvarlegust væru brotin í sambandi við verðlag á mjólk, þar sem ríkisstj. hafði lofað því, að mjólkin skyldi seld á kr. 2.71 lítrinn, en raunin orðið sú, að mjólkin er seld á kr. 3.00 til 3.16 lítrinn; allt meginmagn þeirrar mjólkur, sem seld er í Vestmannaeyjum.

Um hitt, þá aðdróttun ráðh., að ég hafi sofið á málinu, vil ég aðeins svara því, að það eru nú til ýmiss konar fleiri hugsanlegar leiðir til þess að fá þetta leiðrétt heldur en að fara með það í fyrirspurnatíma í Alþingi. Ég hef upplýst það, að mér og hv. þm. Vestmanneyinga kom saman um það að flytja málið ekki sérstaklega inn í þingið fyrr en séð yrði, hver yrði afstaða framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem nú hefur þetta mál á dagskrá sinni og tekur það væntanlega fyrir á fundi, sem það heldur núna einhvern alveg næstu daga. Að þeim fundi loknum gæti ráðh., ef til vill, átt von á því, að ekki einasta ég, heldur einnig samflokksmaður hans, þm. Vestm., hefði eitthvert orð um þetta mál að segja í þinginu, þó að það verði væntanlega þá ekki neinar fyrirspurnir sérstaklega.

En þó að hæstv. viðskmrh. hafi haldið því fram í sinni fyrstu ræðu, að ríkisstj. stæði hvarvetna við sín loforð, þá var hann nú reyndar runninn ofan af því, a. m. k. að nokkru leyti, í sinni síðari ræðu um málið, og var hann þá kominn inn á allt aðra braut. Hann var sem sé kominn inn á þá braut, að ríkisstj. hefði aldrei lofað þessu tiltekna verði á mjólk í Vestmannaeyjum. Ég vil nú til leiðréttingar á þessari missögn ráðherrans leyfa mér að vitna hér í þau plögg, sem urðu til þess, að vinnudeilan varð leyst í Vestmannaeyjum. Hún leystist þar reyndar degi síðar en hér í Rvík og víðast hvar annars staðar, og það var einmitt vegna ákvæðanna um verðlag á mjólk. Ég efast ekki um það, að hæstv. viðskmrh. sé það ekki einasta kunnugt, heldur viðurkenni hann það líka, að við lausn þessarar deilu kom Gunnlaugur Briem, starfsmaður stjórnarráðsins, fram fyrir hönd ríkisstj. og flutti hennar boðskap til þeirra aðila, sem að öðru sömdu um lausn þessarar deilu. Á fundi í Verkalýðsfélagi Vestmannaeyja, sem hafði lausn deilunnar til meðferðar, lágu fyrir upplýsingar Gunnlaugs Briems um, hver kjör ríkisstj. byði til lausnar deilunni. Voru upplýsingarnar í símskeyti og vottuðu hans staðfestingu á því, að verðlag á mjólk skyldi lækka úr kr. 3.25 í kr. 2.71. Nú er það að vísu alveg rétt, sem ráðh. hélt fram, að mjólk hefði verið dýrari í Vestmannaeyjum en annars staðar fyrir þetta verkfall. Hún var dýrari en kr. 3.25. En Verkalýðsfélag Vestmannaeyja samdi alls ekki upp á þetta, heldur gerði það sína fyrirspurn um það, hvort mjólkin ætti einnig að lækka í Vestmannaeyjum niður í kr. 2.71, þó að hún hafi þar áður verið dýrari en tiltekið var í hinu upphaflega skeyti. Fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Jón Sigurðsson, sem mun vera framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, gaf hins vegar þær upplýsingar símleiðis, að hann hefði fengið loforð ríkisstj. fyrir því, að verðið ætti alls staðar, þ. á m. í Vestmannaeyjum, að vera kr. 2.71 á lítra, og sendi daginn eftir skeyti, sem ég hef hér afrit af og hljóðar á þessa leið:

„Hef fengið yfirlýsingu sáttanefndarmannsins Gunnlaugs Briems stjórnarráðsfulltrúa, að niðurgreidd verði öll mjólk, sem seld er mjólkurbúð, og verðið það sama hvar sem er á landinu, kr. 2.71 lítri.“

Skeytið er undirritað af Jóni Sigurðssyni. Það liggur þess vegna alveg hreint fyrir, að verkamenn í Vestmannaeyjum sömdu um þetta mjólkurverð. Það er þess vegna aðeins spurningin: Er það ríkisstj. sjálf, sem brýtur þetta? Hefur Gunnlaugur Briem farið hér með staðlausa stafi og lofað öðru fyrir hönd ríkisstj. en hann hafði umboð til? Eða þá í þriðja lagi: Hefur fulltrúi Alþýðusambands Íslands ekki fengið þær staðfestingar hjá stjórnarráðinu eða stjórnarráðsfulltrúa, sem hann sendir til Vestmannaeyja sem staðfestingu? Ef hæstv. viðskmrh. getur fært sönnur á það, að stjórnarráðsfulltrúinn hafi gert það, sem hann hafði ekki umboð til, eða að fulltrúi Alþýðusambandsins fari með rangt mál, getur komið til greina að sýkna ríkisstj. af því að hafa brotið sinn samning. En á meðan slíkt liggur ekki fyrir, þá hef ég það fyrir satt, að ríkisstj. hafi brotið gerða samninga og að henni beri að leiðrétta það.