25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3424)

220. mál, vinnudeilur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það vill nú svo til, að ég hef hérna samninginn fyrir framan mig, þann samning, sem hv. 3. landsk. var að vitna í hér áðan.

Það hefur mest verið rætt um Vestmannaeyjamjólkina. Og það er ekki vegna þess, að ég unni ekki Vestmanneyingum alls góðs, þótt ég segi hér það, sem rétt er, að Vestmanneyingar hafa ekki undir þeim kringumstæðum, sem þeir nú hafa, neina kröfu á ríkisstj. um að fá mjólkina á kr. 2.71, og skal ég færa rök að því.

Það er, eins og kunnugt er, langt síðan og hefur kannske alltaf verið, að verðlag á mjólk í Vestmannaeyjum hefur verið mun hærra en t. d. hér í Reykjavík. Og síðan mjólkurlögin komust í gildi hafa Vestmanneyingar beinlínis sótt um leyfi til þess að selja mjólkina dýrari en annars staðar er. Ég er hérna með bréf í höndunum, sem bæjarstjórn Vestmannaeyja skrifaði framleiðsluráði landbúnaðarins 1948, og framleiðsluráð vitnar í þetta bréf, og vil ég leyfa mér að lesa hér upp skýringar framleiðsluráðs á því, með leyfi hæstv. forseta:

„Reykjavík, 20. nóv.

Í sambandi við umræður þær, sem að undanförnu hafa farið fram á Alþingi og víðar um mjólkurmálin í Vestmannaeyjum, og samkv. ósk herra Gunnlaugs Briems skrifstofustjóra viljum við taka fram eftirfarandi:“

Gunnlaugur Briem óskaði eftir þessu bréfi frá framleiðsluráði eftir að hafa átt viðtal við framleiðsluráð, því að ég sneri mér til Gunnlaugs Briems, sem var í sáttanefndinni og þessum málum kunnugastur, til þess að fá enn fyllri upplýsingar frá hans hendi um þetta mál, ef ske kynni, að ég hefði nú ekki haft algerlega á réttu að standa hér s. l. miðvikudag. — Bréf framleiðsluráðsins er þá svo:

„1) Um nokkurra ára skeið hafa ýmsir örðugleikar komið fram í sambandi við framkvæmd mjólkursölunnar í Vestmannaeyjum. Orsök þeirra er aðallega sú, að eyjarnar eru ekki sjálfum sér nógar hvað snertir framleiðslu nýmjólkur- og að framleiðslukostnaður mjólkurinnar þar er meiri en annars staðar á landinu. Sama er að segja um aðflutning viðbótarmjólkur úr landi. Þeir flutningar eru ávallt dýrir og erfiðir.

2) Af þessum sökum óskaði bæjarstjórn Vestmannaeyja eftir því í byrjun júlímánaðar 1948, að mjólkurverð yrði ákveðið 60 aurum hærra í Vestmannaeyjum en annars staðar á landinu. Við þessum óskum varð framleiðsluráð, enda hafði það til þess heimild í 27. gr. framleiðsluráðslaganna. Var mjólkurverð þá ákveðið í Vestmannaeyjum kr. 2.50 hver lítri í staðinn fyrir kr. 1.90 annars staðar á landinu. Þessi verðmismunur hækkaði nokkuð, þegar frá leið, með hækkandi mjólkurverði. Í nóvembermánuði 1952 var útsöluverð mjólkurinnar kr. 4.00 í Vestmannaeyjum, þegar það var kr. 3.25 annars staðar á landinu.

3) Þegar verkfallinu létti í desembermánuði 1952, ákvað ríkisstj. að auka niðurgreiðslur á mjólk úr 42 aurum í 86 aura á lítra. Með því að láta Vestmannaeyjamjólkina verða aðnjótandi niðurgreiðslnanna lækkuðu framleiðendur í Eyjum mjólkurverðið í kr. 3.14 eða um 86 aura. Mjólk frá mjólkurbúi bæjarins var hins vegar lækkuð niður í kr. 2.70, en mjólk, sem verzlun Helga Benediktssonar seldi og keypt var frá mjólkursamsölunni í Reykjavík, var þá seld á kr. 3.00. Þessa mjólk selur samsalan Helga Benediktssyni á kr. 2.50 fob. Reykjavík. Mjólkin er því núna seld kr. 0.84 til kr. 1.30 ódýrari en hún var áður vegna niðurgreiðslna ríkisins.

Eins og sakir standa, eru Vestmanneyingar ekki á neinu ákveðnu mjólkursölusvæði. Þetta þýðir það, að þangað mega öll mjólkursamlög selja mjólk og mjólkurvörur, án þess þó að nokkurt eitt þeirra beri ábyrgð á sjálfri mjólkurdreifingunni í Vestmannaeyjum. Næsti fundur framleiðsluráðs, sem haldinn verður í byrjun desember, mun hins vegar taka ákvörðun um það, hvort svo verður framvegis eða hvort Vestmannaeyjar verði úrskurðaðar sem sérstakt sölusvæði eða heyri t. d. til Reykjavíkurbæ.“

Ef það verður ákveðið, að Vestmannaeyjar heyri til Reykjavíkursvæðinu, þá er ekkert um það að villast, að eftir það muni Vestmanneyingar fá mjólkina á sama verði og hún er seld hér í Reykjavík. Á meðan það er ekki ákveðið, að Vestmannaeyjar fylgi Reykjavíkursvæðinu, og þær hafa ekki komizt í þau samtök, sem gilda um mjólkursölu, þá hafa þeir ekki neina kröfu á þessu, eins og fram kemur hér. En þrátt fyrir þetta hefur verðmismunurinn í Vestmannaeyjum minnkað um 84 aura til kr. 1.30 frá því í desember 1952, miðað við það, sem mjólkurverðið var áður í Vestmannaeyjum og gilti hér. Þetta hefur gerzt þrátt fyrir það, þótt ekki væri skylt að gera verðmuninn minni. Og eins og segir hér í bréfinu, þá var ákveðið að auka niðurgreiðsluna úr 42 aurum í 86 aura. Og það hefur ekki aðeins verið gert í Vestmannaeyjum að auka niðurgreiðsluna um þetta, heldur hefur það raunverulega í framkvæmd orðið miklu meira, þótt mjólkin í Vestmannaeyjum sé samt sem áður nokkru dýrari í dag en hún er hér í Reykjavík.

Hv. 9. landsk. vitnaði í Gunnlaug Briem áðan og las upp skeyti frá Jóni Sigurðssyni, þar sem Jón Sigurðsson vitnar í Gunnlaug Briem, að hann hafi yfirlýsingu um það í höndunum, að seld mjólk í mjólkurbúð skuli vera framvegis í Vestmannaeyjum á sama verði og hún er seld í Reykjavík. Hér er áreiðanlega ruglað nokkuð saman og um misskilning að ræða, því að það. sem Gunnlaugur Briem hefur meint með þessu, er mjólk, sem væri seld úr mjólkurbúð, löggildri mjólkurbúð, sem væri í samtökum mjólkurframleiðenda á viðurkenndu mjólkursölusvæði Reykjavíkur, — og að þessi skilningur hlýtur að hafa verið í skeytinu, staðfestist hér með bréfi, sem ég hef frá Gunnlaugi Briem, og með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa það upp:

„Þegar rætt var um verðlækkun þá á nauðsynjavöru, sem ríkisstj. beitti sér fyrir með niðurgreiðslum úr ríkissjóði í samningaumleitunum atvinnurekenda og vinnuþega í s. l. desembermánuði, þá var jafnan miðað við verðlagið á þessum vörum í Reykjavík. Og orðalag samkomulagsins ber þetta með sér, þar sem segir, að verð á nýmjólk lækki úr kr. 3.25 í kr. 2.71. en mjólkurverðið í Reykjavik var þá kr. 3.25 á þessum tíma.“

Af hverju er ekki tekið fram í samningunum, að mjólkin, þar sem hún er hærri en kr. 3.25, skuli einnig lækka niður í kr. 2.71? T. d. mun hún hafa verið 4 kr. í Vestmannaeyjum. Af hverju er ekki tekið fram í samningunum, að þar sem mjólkin í Vestmannaeyjum sé 4 kr., þá skuli niðurgreiðslan vera þeim mun hærri á þeim stað? Það segir ekki, vegna þess að það var ekki til þess ætlazt. — Og enn heldur Gunnlaugur Briem áfram:

„Vísitala framfærslukostnaðar hefur ávallt verið miðuð við verðlag í Reykjavík. Íbúar annarra kaupstaða og kauptúna hafa hér ekki borið skarðan hlut frá borði. Enda þótt einstaka vörutegundir væru seldar með lægra verði í Reykjavík en annars staðar á landinu, þá voru aðrar vörur og þjónusta seldar — þar hærra verði. Sérstaklega hefur húsaleiga verið hærri í Reykjavík en utan hennar. Niðurgreiðslan þurfti að sjálfsögðu að vera fyrir fram ákveðin á hinum einstöku vörutegundum, og verður það ekki dregið í efa, að það væri rétt framkvæmd á samkomulaginu að greiða mjólkurverðið í Vestmannaeyjum niður um sömu upphæð og gert er í Reykjavík, enda þótt vitað væri, að mjólkin væri seld þar lægra verði en í Vestmannaeyjum. Mjólkurframleiðendur gátu að sjálfsögðu ekki sjálfir skammtað sér niðurgreiðslu úr ríkissjóði að eigin geðþótta með því að ákveða sjálfir söluverð mjólkurinnar og senda síðna hlutaðeigandi ráðuneyti reikning fyrir hækkunina.“

Þetta segir Gunnlaugur Briem, sem var í samninganefndinni, og ég ætla, að hv. 9. landsk. og hv. 3. landsk. leyfi sér ekki að draga í efa, að það, sem Gunnlaugur Briem segir í þessum efnum, sé rétt. Samningurinn er líka hérna hjá mér, og þar segir í 1. tölulið a: „Verð á lítra nýmjólkur lækki úr kr. 3.25 í kr. 2.71.“ — Úr 3.25, þar sem hún er 3.25. En það segir ekki í samningnum, að þar sem mjólkin er hærri, þar skuli hún einnig lækka niður í kr. 2.71, vegna þess að það er ákveðið, að niðurgreiðslan skuli hækkuð úr 42 aurum í 86 aura. Það er ákveðið, hvað niðurgreiðslan skuli vera mikil. Og hvernig stendur svo á því, að Hannibal Valdimarsson og Karl Guðjónsson. þótt hann vilji styðja Vestmanneyinga, eru að reyna að belgja sig hér upp og túlka þennan samning algerlega skakkt til þess að reyna að vekja glundroða og óánægju með það samkomulag, sem náðist í desember og hefur verið haldið af öllum aðilum? Hvers vegna er verið að reyna að básúna þetta og gera þetta að einhverju stórmáli? Er ekki nóg um sundrungina hér, þó að það sé ekki gert að ástæðulausu? Og við Karl Guðjónsson, hv. 9. landsk., vil ég segja þetta: Það er rétt stefnt hjá honum að reyna nú að vinna að því, að framleiðsluráðið taki Vestmannaeyjar inn í mjólkursölusvæði Reykjavíkur. Takist það, þá fá Vestmanneyingar mjólkina á sama verði og aðrir landsmenn. Og ég verð nú að segja það, að Vestmanneyingar eiga allt gott skilið; þeir ættu það sannarlega skilið, að — þetta mætti komast í framkvæmd. En það hefst ekki með því að vera að herma svik upp á ríkisstj. í framkvæmd þessa máls. Það hefst aðeins með því að taka þetta mál raunhæfum og réttum tökum, og mér skilst, að hv. þm., Karl Guðjónsson, 9. landsk., sé kominn á þá skoðun, að það sé nú bezta leiðin og að sleppa stóryrðunum um svikin og vanefndir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til þess að vera að fjölyrða meira um þetta. Ég ætla, að þetta sé nóg. Ég get vitanlega ekki gert við því, þótt þessir hv. þm. leyfi sér að koma hér upp aftur og fullyrða eitthvað út í bláinn, sem ekki stenzt. Það geta þeir náttúrlega gert, ef þeir halda, að — þeir vinni málinu eitthvert gagn með því. En þeir gera það þá á móti betri vitund, því að samningurinn er hér, og hann er alveg ótvíræður hvað mjólkina snertir, og skoðun nefndarmanna er hér einnig á blaðinu. (BergS: En hin atriðin?) Hv. þm., Bergur Sigurbjörnsson, spyr hér um hin atriðin. Nú, ég hélt að það hefði verið alveg útrætt um þau. Ég hélt, að hv. þm., Bergur Sigurbjörnsson, hefði fengið þær upplýsingar hér á miðvikudaginn var, að það væri alveg nægjanlegt, þar sem ég vitnaði í verðgæzlustjóra og að hann taldi, að verðgæzlunni væri þannig hagað, að það væri auðvelt að komast eftir því, ef um einhverjar vanefndir væri að ræða á því samkomulagi, sem gert var í desembermánuði. s. l. Og verðgæzlustjóri sagði við mig, að hann hefði enga ástæðu til þess að ætla eftir hina nánu eftirgrennslan verðgæzlunnar, að um nokkrar vanefndir væri að ræða. Ég veit ekki, hvort þetta er nóg fyrir hv. þm., Berg Sigurbjörnsson, en þetta er áreiðanlega nóg fyrir flesta aðra, sem vilja heyra þetta og ekki hafa einhverja sérstaka löngun til þess að spinna lopann og ræða þetta mál eitthvað meira í auglýsingaskyni. Það getur vel verið, ef vantar t. d. efni í Frjálsa þjóð, að það sé heppilegt að fá umr. eitthvað lengdar, jafnvel þótt menn telji nú, að það sé lítið á þeim að græða. En ef það væri nauðsynlegt fyrir hv. þm., þá tel ég það nú ekkert eftir að hlusta á hann.