25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3426)

220. mál, vinnudeilur

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Það er rétt, ég hef kvatt mér hljóðs til að bera af mér sakir. Ég skal vera mjög stuttorður. Þó get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, að í svörum sínum hér um fsp. mína um þessi mál hefur hæstv. viðskmrh. teygt lopann út af mjólkurverðinu í Vestmannaeyjum, sem er í sjálfu sér smáatriði og aukaatriði í sambandi við vanefndir ríkisstj. á öllum þessum samningi. Sakirnar, sem ég ætlaði hins vegar að bera af mér, eru þær, að þegar þetta mál var á dagskrá hér síðast, þ. e. á miðvikudaginn var, þá lýsti hæstv. viðskmrh. því hér yfir með mörgum orðum, að ég hefði haldið því fram, að sökin á vanefndum ríkisstj. á þessum málum væri hjá opinberum embættismanni, þ. e. a. s. verðgæzlustjóra. Þetta er rangt. Ég tók fram, að verðgæzlustjóri hefði ekki haft nokkra möguleika til þess að fylgjast með þessum samningum og rækja þá skyldu, sem hann hefði átt að rækja í sambandi við það, vegna þess að ríkisstj. láðist að setja honum reglugerð um verðlagningu þeirra vara, sem ákveðið var að skyldu lækka með samningnum um verkföllin í desember 1952. Ríkisstjórninni láðist að setja honum þessa reglugerð til þess að fara eftir. Og ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskmrh., hvernig stóð á því, að þessi reglugerð um það, hvernig þessar vörur skyldu verðlagðar, svo að verðið lækkaði samkv. samningnum, var ekki sett. Hvernig stendur á því, að verðgæzlustjóri hefur ekki getað staðfest einn einasta verðlagsútreikning í sambandi við þessar umræddu vörur í samningnum alla tíð síðna? Hvernig stendur á því, að hann hefur ekki getað staðfest þessa útreikninga, heldur hefur orðið að kvitta fyrir móttöku á verðlagsútreikningunum? Ég vona, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að svara þessari spurningu, ef hann heldur, að allt sé með felldu í þessu sambandi.

Þá vil ég líka taka það fram að gefnu tilefni, að hæstv. ráðh. sagði, að það væri um meiri háttar grín að ræða, ef ég spyrði um hluti, eins og ég lýsti yfir, sem ég vissi fyrir fram svarið við. Það hefur komið í ljós berlega hvað eftir annað, að þetta er nauðsynlegt fyrir þm. Það er nauðsynlegt fyrir þm. að vita svarið fyrir fram, vegna þess að ráðherrar hafa verið staðnir að því að gefa hér rangar upplýsingar. Þessu til sönnunar vil ég nefna hér enn eitt dæmi, þó aðeins mjög lauslega, sem fram hefur komið hér og kom s. l. miðvikudag í umr. um verðlagsmál. Þar leyfði hæstv. viðskmrh. sér að geta um það til staðfestingar því, hvað álagning hefði lítið hækkað síðan hún var gefin frjáls, að inn hefði verið fluttur slatti af vefnaðarvöru fyrir 1800 krónur og álagning hefði verið aðeins kr. 1.60 hærri á þennan slatta en ef hún hefði verið undir verðlagsákvæðum. Þetta er fullkomlega rangt í öllum atriðum. Þessi vörusending hefur aldrei verið flutt til landsins. Upplýsingarnar, sem ráðh. hafði í höndunum, var tilbúið talnadæmi, sett upp til að sýna mismunandi álagningaraðferðir og hvernig vörurnar hækkuðu eftir því, hvaða aðferð væri notuð. Það má vel vera, að hæstv. ráðh. hafi misskilið þessar upplýsingar, sem hann hafði, og þess vegna farið rangt með, en þá ber honum skylda til að leiðrétta það hér. Ef hann hins vegar leiðréttir það ekki, þá hefur hann farið vísvitandi rangt með, og þá verður það aldrei nógsamlega vítt, að ráðh. skuli leyfa sér hér úr ræðustóll á hinu háa Alþ. að fara vísvitandi með rangar og falsaðar upplýsingar.