10.02.1954
Sameinað þing: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (3433)

131. mál, álagningar á nauðsynjavörur

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Í upphafi var það meining mín með flutningi þessarar fyrirspurnar, að hún kæmi fram áður en þingi væri frestað fyrir jól, en hún mun hafa verið of seint fram komin til þess. Ég álít þó, að fsp. missi ekki gildi sitt um að fá svör við henni frá ríkisstj. og að sérstök framsaga fyrir fyrirspurninni sem slíkri sé ekki nauðsynleg. Eins og hún liggur fyrir á þskj. 331, þá er augljóst, hverju ég vænti að fá svarað, og er þá um að ræða þann samning, sem um getur í fsp. og verkalýðsfélögin gerðu við vinnuveitendur með íhlutun ríkisstj. 19. des. 1952, um hvað ríkisstj. hafi gert til að tryggja framhald þeirra loforða, sem hún gaf við þessa samningsgerð, á móti því, að verkalýðsfélögin hafa nú framlengt sína samninga.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, að það sé óþarft að fara um þetta mörgum orðum í framsögu, en vænti þess, að hæstv. ríkisstj. leysi greiðlega úr þessari spurningu, þannig að þau verkalýðsfélög, sem framlengt hafa samninga sína með það í huga, að ríkisstj. framlengi einnig sín loforð og tryggi að þau loforð yrðu haldin, fái vissu sína um, á hvern hátt þessir hlutir hafi verið tryggðir af hálfu ríkisstjórnarinnar.