10.02.1954
Sameinað þing: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (3435)

131. mál, álagningar á nauðsynjavörur

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. þau svör, sem hann lagði hér fram. En eftir sem áður finnst mér, að spurningunni sé ekki að fullu svarað, en það er, á hvern hátt ríkisstj. hefur tryggt framlengingu þessara loforða. Hæstv. ráðh. svaraði því til, að það hefði verið tryggt, en ekki á hvern hátt þessi trygging væri, að loforðin yrðu haldin. Ég verð þó að álíta, að það sé með svipuðu móti og ríkisstj. gerði í upphafi, en tel þó mjög mikilsvert, að þetta hefur verið upplýst, að það eigi að halda áfram, vegna þess að margir báru á það brigður, og ég vænti þess, að ríkisstj. sjái sér fært að standa í einu og öllu við þær skuldbindingar, sem þó hefur orðið ágreiningur hér á hv. Alþ. um að hún hafi gert, t. d. um mjólkurverð í Vestmannaeyjum.