10.02.1954
Sameinað þing: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (3439)

131. mál, álagningar á nauðsynjavörur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það, sem ég sagði áðan, var það, að í örfáum tilfellum og ef til vill engum hafi álagningargrundvellinum verið breytt. Ég sagði ekkert um það, hvort ég hafi talið það vítavert eða ekki. Það hefði ekki verið gert nema að ráði verðgæzlustjóra og verðlagsyfirvaldanna og af illri nauðsyn, ef svo hefði verið, mér er ekki kunnugt um það, en mér er kunnugt um, að þær álagningarreglur, sem samið var um í des. 1952, hafa verið haldnar, og það er aðalatriðið, og þýðir ekkert fyrir þennan hv. þingmann að vera að mynda hér einhverja hliðarbraut, til þess að hlaupa út á í þessum umræðum. Aðalatriðið er, að álagningin hefur ekki breytzt frá því, sem samið var um 1952.