03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (3444)

147. mál, eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Hin síðari ár hefur sú spurning gerzt æ áleitnari í huga sívaxandi fjölda landsmanna, hvort þær ríkisstjórnir, sem með völd hafa farið hverju sinni, færu alltaf og í einu og öllu að réttum landslögum, og þó sérstaklega, hvort ýmis tiltæki þeirra gætu í raun og sannleika átt stoð í einhverjum lögum. Nagandi grunsemdir um, að svo væri ekki, hafa þjakað landsfólkið því meir, sem skuggalegri verk hafa verið unnin af þessum ríkisstjórnum, almenningi til óþurftar og sjálfri tilveru íslenzkrar þjóðar til tjóns.

Ég skal nefna tvö dæmi í þessu sambandi, þar sem ólöglært alþýðufólk efaðist mjög um, að ríkisstj. sú, sem með völd fór, hefði farið að réttum landslögum. Hið fyrra var bátagjaldeyrisálagið svonefnda, sem nokkrir vissu þegar í upphafi og enn fleiri vita nú að átti enga stoð í lögum, en var þar að auki brot á alþjóðasamþykktum, enda voru íslenzkum veittar átölur þungar fyrir tiltækið frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Síðara dæmið er það, sem frægt er orðið, að það hefur verið staðfest við eina elztu og víðfrægustu menntastofnun veraldar. Parísarháskóla, af einum nafntogaðasta þjóðréttarfræðingi veraldar, próf. Rousseau, með viðurkenningu doktorsritgerðar, að stjórnskipunarlög hafi ómótmælanlega verið þverbrotin og sjálfstæði landsins stórlega skert með samþykkt og undirritun herverndarsamningsins hinn 5. maí 1951.

Í þessum tveim tilfellum, sem ég hef nefnt, er lýðum ljóst, að um hrein lögbrot var að ræða af hálfu viðkomandi ríkisstj., og getur engum heilvita manni blandazt hugur um, að svo sé né heldur hve alvarlegs eðlis þau eru. Það má öllum ljóst vera, hvert stefnir um réttarfar almennt hér á landi og virðingu almennings fyrir landslögum, ef sjálfir löggjafar þjóðarinnar eða æðstu verðir laga og réttar halda ekki lögin í heiðri. Engir mega síður falla í freistni í þeim efnum en slíkir menn, ef halda á uppi tilhlýðilegri og nauðsynlegri virðingu siðaðrar þjóðar fyrir lögum og réttarfari. Engum ber ríkari skylda til að ganga á undan með góðu eftirdæmi í þeim efnum en æðstu vörðum laga og réttar.

En því miður horfir uggvænlega í þessum sökum á Íslandi í dag. Nagandi grunur um, að íslenzkar ríkisstjórnir fari ekki alltaf að réttum landslögum, þjakar margan heiðarlegan hugsandi manninn. Af því tilefni og til þess að hið rétta komi í ljós hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn í tveim liðum til hæstv. ríkisstj., sem prentuð er á þskj. 378, út af einu minni háttar tilfelli í þessu sambandi, þar sem vafi getur leikið á því, hvort ákveðnar stjórnarathafnir hafi haft stoð í lögum eða verið beint lagabrot. En þó að þær stjórnarathafnir, sem spurt er um, séu ekki jafnalvarlegs eðlis í sjálfum sér og þau dæmi, sem ég nefndi áðan, er það engu þýðingarminna, hvort farið hefur verið hér að settum lögum eða ekki.

Fsp., sem prentuð er á þskj. 378, eins og áður er sagt, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „1) Samkvæmt hvaða lagaheimild hafa samtals 10 ráðh. úr fjórum stjórnmálaflokkum fengið eftirgefin aðflutningsgjöld af bifreiðum síðasta áratug, sbr. upplýsingar í grein eftir Hermann Jónasson alþm. í dagblaðinu Tímanum hinn 26. janúar s.l.?

2) Hvernig hljóðaði bréfið, sem fjmrh. skrifaði tollstjóranum í Reykjavík 17. des. 1953 um tollafgreiðslu á bifreið fyrir Hermann Jónasson alþm., og við hvaða lagaheimild var stuðzt í sambandi við fyrirmælin um þá tollafgreiðslu?“

Um aðrar ástæður en þær, sem þegar eru greindar, til þess að ég ber þessa fsp. fram, get ég verið fáorður.

Um fyrri liðinn skal þetta tekið fram: Hinn 26. jan. s.l. ritar formaður Framsfl., hv. þm. Str., grein í dagblaðið Tímann, þar sem hann upplýsir, að a. m. k. 10 ráðh. úr fjórum stjórnmálaflokkum hafi fengið eftirgefin aðflutningsgjöld af bifreiðum, sem þeir hafa flutt inn fyrir sjálfa sig s.l. áratug. Þessar upplýsingar formanns Framsfl. urðu til þess, að ýmsir fóru að velta því fyrir sér, hvort þessi eftirgjöf á aðflutningsgjöldum ætti stoð í lögum eða ekki. Það vakti athygli, að formaður Framsfl., sem er lögfræðingur, vitnaði ekki í nein lög í umræddri blaðagrein, heldur talaði um samþykkt og venju. Hinir lögfróðustu menn, sem ég hef leitað upplýsinga hjá í þessu máli, hafa ekki getað gefið mér önnur svör en þau, að heimild væri í lögum til að veita lömuðu fólki og bækluðu eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum, en að þeirra áliti væri ekki unnt að koma ráðh. síðustu 10 ára undir þá skilgreiningu, enda þótt nærri lægi í ákveðnum skilningi.

Um síðari lið fsp. er það að segja, að hinn 17. des. s.l. ákvað fjmrh. að veita einum alþm., þ. e. a. s. hv. þm. Str., eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreið. Þegar ég spurðist fyrir um það mál í fjmrn., var mér neitað um þær upplýsingar, sem ég óskaði að fá, sem einstakt mun vera um meðferð opinberra mála. En mér var bent á, að ég gæti fengið þessar upplýsingar með því að leggja fram fsp. á Alþ. Það geri ég nú hér með, þó að það sé með öllu óviðunandi, ef taka á upp þá reglu, að þingmenn þurfa að leggja fram fsp. á Alþ., ef þá fýsir að fá upplýsingar um einhver atriði í meðferð opinberra mála.