03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í D-deild Alþingistíðinda. (3445)

147. mál, eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af þessari fsp. vil ég leyfa mér að taka fram eftirfarandi:

Eftir því, sem ég hef komizt næst, eru meira en 20 ár síðan ákveðið var, að hver ráðh. skyldi hafa bifreið til afnota fyrir sig og ráðuneytið. Upphaflega átti ríkissjóður ævinlega þessar bifreiðar, en á árinu 1941 var sú ákvörðun tekin á ráðherrafundi, að í stað þess að stjórnarráðið keypti og ætti bifreiðar til afnota fyrir ráðh., þá skyldi hver ráðh. eiga þess kost að kaupa sjálfur bifreið hjá bifreiðaeinkasölunni, sem þá starfaði, enda fengi hann þá bifreiðina tollalaust, en þeir ráðh., sem ekki gerðu þetta, skyldu hins vegar hafa bifreið frá ríkinu til afnota eins og áður hafði tíðkazt. Þegar þessi nýja regla var upp tekin 1941, áttu sæti í ríkisstjórn fulltrúar frá þremur stærstu stjórnmálaflokkum landsins. Löggjöf hefur hins vegar ekki verið sett um bifreiðaeign eða bifreiðarekstur stjórnarráðsins fremur en annarra stofnana ríkisins. Hafa ráðuneytin því að sjálfsögðu orðið að gera margháttaðar ákvarðanir og setja ýmsar reglur um bifreiðaeign og bifreiðaafnot, bæði stofnana og einstaklinga, í þágu ríkisins, stundum um greiðslur fyrir afnot af eigin bifreiðum manna í þjónustu ríkisins o. s. frv. Þetta hefur allt orðið að gera án þess, að sérstök lagaákvæði eða lagaheimildir hafi legið fyrir. Síðan ofannefnd regla var upp tekin hafa átt sæti í ríkisstj. ráðh. úr öllum flokkum þingsins nema einum, sem stofnaður var á síðasta ári. Það mun allan tímann hafa verið vitað af hv. alþm., hver háttur hér hefur verið á hafður. Einnig hefur yfirskoðunarmönnum ríkisreikninga vafalaust verið kunnugt um þessa reglu.

Um síðari hlutann af fsp. vil ég segja þetta: Þegar fyrrv. ríkisstj. var mynduð, óskuðu tveir af ráðh. að gera samning um það, að þeir notuðu við embættið eigin bifreiðar, sem þeir áttu, þegar þeir gerðust ráðh., og þá, að þær yrðu notaðar í þágu stjórnarráðsins án endurgjalds, enda fengju þeir þá síðar rétt til þess að flytja inn bifreiðar samkv. framangreindri reglu. En hinir ráðh. allir tóku þá til afnota bifreiðar, sem ríkið átti. Þetta var talið eðlilegt og sanngjarnt, og var frá þessu gengið þá. Í október og desember s.l. var í samræmi við þetta samkomulag tollstjóranum í Reykjavík tilkynnt, að þeir Björn Ólafsson og Hermann Jónasson ættu að fá innfluttar bifreiðar samkv. reglunni frá 1941.

Ég get ekki neitað því, að mér finnst nokkuð brosleg þessi rekistefna út af bifreiðanotkun ráðh. Það er alveg fullvíst, að enginn ráðh. á Íslandi mundi geta leyst af hendi það, sem af honum er krafizt, án þess að hafa bifreið til afnota. Ráðherralaun hér á landi eru þannig, að það kæmi ekki til mála, að nokkur ráðh. gæti staðizt greiðslu ferðakostnaðar síns af þeim launum. Ef ráðh. ættu að bera ferðakostnað sinn sjálfir, gætu engir nema vel efnaðir menn verið ráðherrar á Íslandi. Hér við bætist svo, að ráðuneytin þurfa að notfæra sér bifreiðar þessar og vinnu bifreiðarstjóranna með margvíslegu móti. Þegar það er svo athugað, að tæplega er til svo smávægilegt fyrirtæki á Íslandi, að það telji sér ekki nauðsynlegt að hafa afnot af bifreið, þá verður þetta nöldur út af bifreiðakostnaði ráðuneytanna blátt áfram hjákátlegt.