03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (3447)

147. mál, eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Eins og ég tók fram áðan í máli mínu, spurðist ég fyrir um ákveðna lagaheimild til ákveðinnar stjórnarathafnar. Við þeirri fsp, hef ég ekkert svar fengið. Það hefur ekki verið vitnað í neina lagaheimild af þeim tveim ræðumönnum, sem hér hafa talað, heldur talað vítt og breitt um reglur eða venju eða samþykkt á stjórnarfundi o. s. frv. Þetta er sitt hvað. Ég mun í samræmi við fsp. mína vísa í nokkur lög.

1) Samkv. lögum nr. 62 1939, um tollskrá o. fl., 1. gr., 75. kafla, nr. 1 ber að greiða aðflutningsgjöld af fólksbifreiðum.

2) Samkv. lagafyrirmælum um söluskatt ber að greiða söluskatt af innfluttum fólksbifreiðum.

3) 1. málsgr. 40. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.“

Ég ætlaðist til þess, þegar ég lagði þessa fsp. fram, að svarið yrði þannig: ótvíræð tilvitnun í lagaheimild, eins og ég hef nú vitnað til. Það er augljóst hverju mannsbarni, sem komið er yfir fermingaraldur a. m. k., að enginn, hvorki einstaklingur í þessu þjóðfélagi, ríkisstj. né nokkur annar aðili, getur gert samþykkt (ekki heldur á ráðherrafundi 1941), sem gengur í bága við ótvíræð fyrirmæli sjálfrar stjórnarskrárinnar. Svar hæstv. fjmrh. verð ég því og hlýt eins og aðrir að skilja svo, að það sé ekki til lagaheimild fyrir þeirri stjórnarathöfn að veita ráðherrum eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum.

Bollaleggingar eins og þær, sem hv. þm. Str. var hér með, eru algerlega út í hött, beinlínis út í loftið. Hann taldi til skuldar hjá ríkissjóði fyrir að hafa ekki haft bifreiðarstjóra, meðan hann var ráðherra, rétt eins og það væri skylda, embættisskylda ráðherra, jafnvel lagaboð, að hafa einkabifreiðarstjóra. Þessu er engan veginn þannig farið. Það er engin lagaheimild fyrir því, að ráðh. hafi einkabifreiðarstjóra. Og þó að hæstv. fjmrh. sé að tala hér um nöldur út af bifreiðakostnaði ráðherranna, þá er það þessu máli algerlega óviðkomandi. Það getur vel verið, að honum leiðist, að það sé talað um þessi mál. Það er í sjálfu sér leiðinlegt að tala um þennan bifreiðakostnað ríkisstjórnarinnar. En það er því máli alveg óviðkomandi, hvort lög hafa verið brotin eða ekki brotin.

Hv. þm. Str. hóf mál sitt á því að segja, að það væru ekki til nein lög um það, að embættismenn eigi að hafa bifreið, og ekki heldur um bifreiðarstyrki. Það voru ekki þessi lög eða lagaheimild um þetta efni, sem um var spurt. Það er þessu máli algerlega óviðkomandi í sjálfu sér, hvort þessi lög eru til eða ekki til. Það var spurt um lagaheimild til að veita ákveðnum mönnum eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum, sem fluttar eru til landsins. Það er allt annað mál en hvort það eru lög fyrir því, að embættismaður megi hafa bifreið eða bifreið ekki. Eitt lagabrot er engan veginn afsakað á neinn hátt eða skýrt með því, að lög séu að einhverju öðru leyti og í einhverju öðru sambandi brotin líka.

Ég býst við, að hæstv. fjmrh. skilji það, þar sem honum eru skattalög kunnari en önnur lög, að því er ég geri ráð fyrir, að það getur ekki skapazt nein löghefð með því að svíkja undan skatti. Það er vitanlegt, að menn svíkja undan skatti, telja ekki fram sínar tekjur og hafa ekki gert það árum saman sumir hverjir. En með því skapa þeir enga löghefð, þannig að þessi venja þeirra öðlist meira gildi en skattalögin sjálf. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. skilur, þó að hann kannske skilji ekki hitt eða vilji ekki skilja, að nákvæmlega það sama gildir um önnur lög, að þó að ríkisstj. geri einhverja samþykkt, sem gengur í bága við ótvíræð lög, meira að segja stjórnarskrána, þá missir ekki stjórnarskráin gildi sitt, og þessar samþykktir ríkisstj. öðlast ekki lagagildi.