07.10.1953
Efri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

17. mál, Háskóli Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en þá varð það samkomulag innan ríkisstj. að hlutast til um, að frv. næði ekki fram að ganga, heldur taka það til frekari athugunar og að öllu óbreyttu greiða fyrir, að málið fengi framgang á þessu þingi. Nú hefur menntmrn. enn athugað málið og er eindregið þeirrar skoðunar, að það sé þörf á að samþykkja frv., en það er um það að bæta við einum kennara eða prófessor í lagadeild háskólans. Þetta er rík nauðsyn vegna þess, hversu störfin hafa aukizt í lagadeildinni frá því, sem áður var.

Kennarafjöldi í lagadeild sjálfri er nú hinn sami og hann var þegar háskólinn tók til starfa í fyrstu. Nemendafjöldi hefur margfaldazt, og próf eru nú orðin mun flóknari og umsvifameiri en áður var. Þess vegna er miklu meiri vinna í sambandi við þau. En einnig vegna þess, að kennslunni er nú skipt með öðrum hætti en áður var, þá hleðst meira starf á hvern kennara, þannig að í raun og veru má segja, að starf hvers kennara nú sé varðandi kennslu margfalt við það, sem var í fyrstu. Hitt dregur raunar á móti, að fyrstu kennarar lagadeildarinnar, sem voru allt ágætir menn, höfðu mjög miklum störfum að gegna sem brautryðjendur í því að gera sér grein fyrir, hver væru íslenzk lög um ýmis efni, og draga saman a.m.k. frumdrætti að kennslubókum í sínum greinum, og einn þeirra, Einar prófessor Arnórsson, skrifaði kennslubækur í öllum þeim umfangsmiklu greinum, sem hann lengst af kenndi, og vann þar með starf, sem er ómetanlegt fyrir íslenzka lögfræði í heild og auðvitað gerir starf eftirkomenda hans miklu auðveldara en það ella hefði verið. Við þetta er þó það að athuga, að löggjöf nú er að ýmsu leyti orðin flóknari en hún var á árunum kringum 1910, alltaf bætast ný lög við, sem þessir menn verða að fylgjast með, og enn vantar mikið á, sem skiljanlegt er, að búið sé að koma kennslubókamáli deildarinnar í viðhlítandi horf. Það er því mikið starf að vinna við þessa deild, bæði við rannsóknir og við bókaskriftir, auk kennslunnar. Það má einnig geta þess, að tekin er upp kennsla í viðskiptafræði, og eru tveir sérstakir kennarar við það, sem má segja að séu lögfræðikennslunni sjálfri óviðkomandi, en lögfræðikennararnir hafa orðið í sambandi við viðskiptadeildina — en svo má kalla þann hluta lagadeildarinnar — að taka á sig nokkuð aukið starf. Það er því næstum því óskiljanlegt, að lagadeildin skuli hafa orðið að una við það að fá ekki fleiri kennara, einkum þegar á það er litið, að allar aðrar deildir hafa mjög aukið við sig mannafla frá því sem var, þegar háskólinn var settur á stofn.

Við vitum, að norrænudeildin, heimspekideild, hefur margfaldazt, læknadeild hefur mjög bætt við sig starfskröftum, og er ég ekki að telja það eftir, hvorugt. Guðfræðideildin hefur einnig fengið aukningu, og mætti þó kannske ætla, þó að ekki sé lítið gert úr þeim fræðum, sem þar eru stunduð, að þar væri um svo gamalkunnugt efni að ræða frá rannsóknum víða um lönd, að kennsla í þeirri deild ætti að vera öllu auðveldari en í sumum öðrum, þar sem um sjálfstæðar íslenzkar rannsóknir, eins og t.d. í lögfræði, er þar ekki að ræða í sama mæli. Það eru hreinleg alþjóðleg vísindi. Og auk þess eru í guðfræðideildinni auðvitað miklu færri menn heldur en í lagadeild. Þrátt fyrir það sá Alþ. fyrir nokkrum árum ástæðu til að fjölga kennurum í guðfræðideild. Ég benti á í því sambandi og raunar við umr. um fjölgun í öðrum deildum, að lagadeildin væri sett til hliðar.

Deildin sjálf óskaði lengi vel ekki eftir aukningu á starfsafla. Nú orðið hafa kennararnir, — sem allt eru frábærir menn í sínum greinum, þeir menn, sem þar eru nú, miklir starfsmenn og samvizkusamir, — ekki treyst sér lengur til að komast yfir þau efni, sem þeim er ætlað, og telja sig því nauðbeygða til að leggja áherzlu á að fá þarna fjölgað kennurum. Ég tel, að það sé brýn nauðsyn að verða við þessari ósk, og legg þess vegna eindregið til, að frv. nái samþykki. Ég vonast til, að frv. verði samþ. við 1. umr., og legg til, að því verði vísað til hv. menntmn.