10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

221. mál, sementsverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör, sem hann gaf; þau eru að vísu miklu fátæklegri en æskilegt væri, og ég hafði nú vissulega vænzt þess, að hæstv. ríkisstj. teldi sér fært að skýra eitthvað frekar frá því, hvernig þessi mál standa, en það má vera, að stjórnin hafi sínar ástæður til þess að láta ekkert uppi um þau mál. Þó hefði ég nú talið, að þetta mikilsverða mál snerti svo mjög alla landsmenn, að Alþingi ætti nokkurn rétt á því að fá að fylgjast með, ef einhver sérstök snurða hefði hlaupið á þann þráð, eins og hæstv. forsrh. komst að orði, þ. e., ef eitthvað sérstakt stæði í veginum fyrir því, að hægt yrði að afla láns til fyrirtækisins og hefjast handa um framkvæmdir nú á næstunni. Það er vissulega mikið alvöruefni, ef ekki greiðist úr þessu máli bráðlega, og við verðum að treysta því, að ríkisstj. láti einskis ófreistað til að leysa þann vanda, sem kann að hafa að höndum borið í sambandi við lánsútvegun, og við verðum einnig að treysta því, að hún muni, þegar er hún telur sér fært, skýra Alþingi frá, hvernig þessi mál standa, ekki sízt ef miklar horfur væru nú á því, að lán fengist ekki til þessara framkvæmda. Ég tel, að Alþingi eigi fullan rétt á að fá að vita um það og einnig hvað sérstaklega hafi komið í veg fyrir það, að tekizt hafi að útvega lán til þessa nauðsynjaverks.