24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í D-deild Alþingistíðinda. (3474)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var einn þeirra, sem greiddu þáltill. þeirri, sem er tilefni þessara umr., atkv. á sínum tíma. Ég gerði það af því, að ég taldi hina mestu nauðsyn, að fram færi allsherjarrannsókn á greiðslugetu atvinnuveganna og jafnframt á afkomumöguleikum launþega í landinu, sem ynnu við þessa atvinnuvegi, því að þetta tvennt heyrir saman. Ég var ekki mjög bjartsýnn um árangur af samþykkt þessarar till. en mér datt þó ekki í hug, að fyrirspurn um framkvæmd á þessu atriði mundi vera svarað þann veg af hæstv. forsrh. sem raun er nú á orðin, sem sé engin viðleitni hefði verið höfð í frammi til allsherjarrannsóknar á þessu efni, því að það sagði hæstv. ráðh. skýrum orðum. Ég veit vel, að þetta er vandasamt og erfitt verk. Það tel ég víst, að hv. tillögumönnum hafi einnig verið ljóst, þegar þeir lögðu till. fram, og hæstv. ríkisstj. ekki síður, þegar hún tók við till.

Það eina, sem hæstv. ráðh. upplýsir í þessu efni. er það, að fyrir vélbátaútveginum sé séð með bátagjaldeyrisálagi, sem sé hagað með tillíti til nauðsynja útgerðarinnar á hverjum tíma. Ég vil ekki beinlínis vefengja, að þetta sé rétt, en ég verð að segja, að mér finnst undarlegt, að eftir því sem ég bezt veit hefur engin endurskoðun farið fram á tekjum eða útgjöldum í sambandi við þetta. Það hefur engin skýrsla legið fyrir Alþingi um það, hversu miklu bátagjaldeyrisálagið nemi. Það hefur engin skýrsla verið lögð fyrir Alþingi um það, hversu þessum greiðslum sé skipt, hvernig þær renni til milliliðanna eða hraðfrystihúsanna. hvað renni til útgerðarmannanna og hvað renni til sjómannanna sjálfra. Það er furðulegt, að um slíka upphæð, sem með álagi verzlunarinnar nemur áreiðanlega miklu á annað hundrað millj. kr., skuli engar skýrslur vera gefnar Alþingi, aðeins vísað til þess, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, að fyrir bátaútveginum sé séð á þennan hátt.

Að því er landbúnaðinn snertir er vísað til meðalbúsins samkv. 6 manna nefndinni frægu, og það eru allar upplýsingarnar, sem gefnar eru.

Að því er togarana snertir hef ég veigrað mér við að láta nokkra rannsókn fara fram. segir hæstv. ráðh., því að með því er kallað á kröfur á hendur ríkisstjórninni, ef ég skildi hann rétt. Nú skilst mér, að þessi veigrun hæstv. ráðh. hafi ekki borið tilætlaðan árangur, því að eftir því sem blöðin segja frá nú, þá liggja fyrir bein tilmæli, að ég ekki segi kröfur, af hendi togaraeigenda til aðgerða af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Ráðherrann orðaði það svo, að fram til ársloka 1952 muni togaraútgerðin í heild hafa gengið sæmilega; á árinu 1953 og þar til núna mjög afleitlega. Nú liggja fyrir skýrslur um þetta efni frá sambandi togaraeigenda með ákveðnum kröfum og till. til ríkisstj., sem ganga í þá átt að láta annaðhvort svo eða svo mikið af þeirra afurðum falla undir bátagjaldeyrisskipulagið eða beinlínis að gera gengislækkun.

Það, að ég kvaddi mér hljóðs nú, stafaði af ummælum hæstv. ráðh. Hans næstsíðustu orð voru þau, að eftir atvikum líti hann svo á, að þessum málum væri nú nokkuð borgið. Mér finnst að athugaðri skýrslu botnvörpuskipaeigendanna, að þetta sé mjög einkennilega til orða tekið, því að eftir því sem í henni segir, — og hæstv. ráðh. vill á engan hátt vefengja hana, skildist mér, — þá fer því fjarri, að togaraútgerðinni geti á nokkurn hátt talizt borgið; þvert á móti, ef þessar lýsingar eru réttar, virðist mér horfa til algerrar stöðvunar á togaraflotanum.

Nú er fullyrt, að ætlun hæstv. ríkisstj. sé að ljúka þessu þingi fyrir páska, þ. e. a. s. eftir tvær eða þrjár vikur, og ég vildi leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál, hvort þess sé að vænta, að skýrsla ríkisstj. um þetta efni, ekki togaraeigenda, hún hefur verið flutt, heldur skýrsla ríkisstj. um þetta efni verði lögð fyrir Alþingi og því frá því skýrt, á hvern hátt ríkisstj. hyggst að koma í veg fyrir, að togaraflotinn stöðvist, með þeim afleiðingum, sem augljóst er að slíkt hefði í för með sér. Mér finnst, eins og málin standa nú, mjög óskynsamlegt og óþingræðislegt af hæstv. ríkisstj. að láta þingið fara heim, án þess að það fái vitneskju um, hverjar eru fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í þessu efni.

Hæstv. fyrrverandi ríkisstj., sem var að efniviði sama og núverandi ríkisstj., var til þess stofnuð að bjarga atvinnuvegum landsins og fyrst og fremst sjávarútveginum og hefur unnið að því, að eigin dómi, kappsamlega allan þennan tíma og á þann hátt, sem mönnum er kunnugt um. Nú er þessum aðalatvinnuvegi Íslendinga, togaraútveginum, svo komið sem lýst hefur verið af togaraeigendum sjálfum og ekki vefengt af hæstv. forsrh. Ætlast hæstv. ráðh. til þess, að þingið láti sér nægja, að hann segi: Þessum málum er eftir atvikum nokkuð borgið; ég mun ekki kalla á kröfur á hendur ríkissjóði með því að fyrirskipa rannsókn, — og láti svo þingið fara heim? Og hvað ættum við svo að gera, ef áframhaldið verður það, sem lýst er í skýrslu togaraeigenda, sem opinberlega hefur verið birt?