24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (3475)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Forsrh. (Ólafur Thors):

Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, vil ég byrja með að leiðrétta það, að ég hafi sagt, að hag togaraútvegsmanna eða togaraútgerðarinnar væri eftir atvikum borgið. Ég var að tala um upplýsingarnar um afkomuna, og mátti vel greina á milli þess. Ég tel, að liggi fyrir upplýsingar um afkomuna, sem er hægt að ganga úr skugga um hvort eru réttar eða rangar. En ég vil raunar taka það fram, að ég hef ekki hér gefið neina viðurkenningu fyrir því, að þær upplýsingar, sem fyrir liggja á þessu stigi málsins, séu réttar. Ég skal ekkert vera að vefengja þær upplýsingar fyrir fram. Ég ætla ekki heldur fyrir fram að undirstrika eða undirskrifa, að þær skýrslur, sem togaraútgerðarmenn á einum fundi hafa gefið ríkisstj., séu tæmandi. Við eigum eftir að yfirheyra þessa menn, ef á að koma til opinberra aðgerða, um það, hvernig stendur á því tapi, sem þeir tilgreina. Hvað er t. d. mikið reiknað í fyrningar, hvað er vaxtabagginn hár, er þetta tilbúinn reikningur eða er hann raunverulegur, hvað er tryggingargjaldið mikið o. s. frv.? Ég hef sjálfur séð margar slíkar greinargerðir.

Það þarf að rannsaka þær, og þær eru ekki rannsakaðar af ríkisstj.

Varðandi bátaútveginn, þar sem hv. þm. segir að engin rannsókn hafi farið fram, höfum við árlega haft nefnd, sem ég hef skýrt frá hér í þinginu, skipaða færustu embættismönnum þjóðarinnar, sem mánuðum saman hafa lagt mikið verk í að framkvæma þær rannsóknir.

Mig undrar ekkert, þótt hv. 4. þm. Reykv. telji hér nokkurn meinbug á, ef Alþingi hafi ekki fengið neinar upplýsingar um neinar rannsóknir í þessum efnum. En ég get ekki gert að því, þó að það hendi hann eins og fleiri góða menn, þ. á m. mig, að vera ekki alltaf viðstaddur á Alþingi. En hér á Alþingi hafa verið gefnar upplýsingar um það tvennt, sem hann taldi mest ámælisvert að upplýsingar skorti um. Annað er um það, að rannsókn hefur raunverulega farið fram árlega á hag bátaútvegsins og einnig á greiðslugetu frystihúsanna, sem eru annar aðilinn í árlegum samningum í þessum efnum, framkvæmd af hæfustu mönnum, sem stjórnin á á að skipa, undir forustu skrifstofustjórans í atvinnumálaráðuneytinu, Gunnlaugs Briems. í nefndinni eru auk þess fiskimálastjóri landsins, ýmsir aðrir þekktir skrifstofustjórar úr stjórnarráðinu, bæði fjmrn. og viðskmrn., og fleiri mætir menn, sem eru settir til þess fyrir hönd ríkisstj. að gagnrýna þá reikninga, sem fram eru lagðir, í því skyni, að ekki séu veitt ónauðsynleg fríðindi þessum aðilum til handa.

Þá er það líka misskilningur, ef hv. þm. heldur, að það hafi engar upplýsingar verið gefnar um bátagjaldeyrinn hér. Hér hefur á Alþingi og það á þessu þingi verið borin fram fsp. um það, hverju bátagjaldeyririnn nemi, og því hefur verið svarað. Þetta eru þau tvö aðalatriði, það eru þeir tveir hornsteinar, sem voru lagðir til grundvallar þeirri ádeilu, sem hv. þm. hafði í frammi á ríkisstj. af þessu tilefni. Og báðir eru þeir að því leyti til holsteinar, að það má lítið á þá styðja, til þess að þeir falli saman.

Ég vænti þess, að hv. þm. ætlist ekki til þess, að ríkisstj. biðji Alþingi að eiga hér setu eingöngu vegna þess, að vænta megi einhverra frekari skýrslna frá togaraútgerðinni. Ég veit ekki, hvað þeim skýrslum líður eða hvernig þeirri starfsemi vindur fram. Og það er auðvitað að mæta því eins og öðru, þegar það liggur fyrir. Það er nú svona um sjávarútveginn. Ég er sjálfur togaraútgerðarmaður, og ég hef oft séð skiptast á skin og skúrir í þeirri útgerð, og það getur vel svo farið enn.

Ég get ekki sjálfur á þessu stigi málsins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gefið neina yfirlýsingu um það, hvað hún hefur í hyggju að gera til að ráða bót á örðugleikum togaraútgerðarinnar, einfaldlega af því, að togaraútgerðin hefur sjálf ekki gert næga grein fyrir og fært fram tölulegar sannanir fyrir því, hver sé þörf varðandi hennar rekstur.

Ég hygg það hafi ekki verið annað í ræðu hv. þm., sem er ástæða til að gera athugasemdir við.