24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3476)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði misskilið orð hans. Hann sagði, að hann hefði átt við rannsókn að því er snertir framkvæmd till. sjálfrar, en ekki, að nokkuð væri vel borgið hag togaraútgerðarinnar, og leiðréttist það hér með.

Það, sem ég spurði hæstv. ráðh. að í lok ræðu minnar, var það, hvort ekki mætti vænta skýrslu hæstv. ríkisstj. um ástand togaraútgerðarinnar. Ég ætlaðist alls ekki til, að hún tæki gilda þá skýrslu, sem fyrir liggur af hálfu togaraeigenda sjálfra, heldur spurði ég, hvort af tilefni þessarar skýrslu mætti ekki vænta skýrslu frá hæstv. ríkisstj. til Alþ. um hennar mat á ástandi togaraútgerðarinnar. Þessi skýrsla, sem nú liggur fyrir, mun vera samin af trúnaðarmönnum togaraeigenda, þrautkunnugum mönnum í togaraútgerðinni, og meðan ekki eru aðrar upplýsingar fyrir hendi, hlýtur almenningur að telja, ekki sízt þegar þess er gætt, að svo mætir menn eru höfundar skýrslunnar, að hún muni hafa við rök að styðjast.

Hæstv. ráðh. sagði, að það þyrfti ýmislegt að athuga í sambandi við þessa skýrslu togaraeigenda, og ég er honum alveg sammála um það. Hvað er mikið vextir, segir hann, og hvað er mikil fyrning? Það er sjálfsagt að kynna sér það, enda ber skýrslan það án efa með sér; ég efa það ekki. Það er fleira, sem ástæða er til að athuga. Hvað er olíuverðið, og hvað mikið af olíuverðinu er gróði þeirra, sem selja hana? Það er fullkomið tilefni til athugunar. Hvað fá togararnir fyrir þann fisk, sem lagður er hér upp í frystihúsin, og hvað fá hraðfrystihúsin fyrir vöruna fullunna? Þetta er líka að sjálfsögðu til athugunar í sambandi við þessa skýrslu, og er að sjálfsögðu verkefni hæstv. ríkisstj. að athuga einmitt þessa liði um leið.

En það, sem ég vildi vekja athygli hæstv. ráðh. á, var það, að eftir að liggur fyrir þessi skýrsla togaraeigenda, sem segir berum orðum: Verði ekki einhverjar ráðstafanir gerðar. hlýtur þessi útgerð að stöðvast — þá hlýtur almenningur í landinu að vænta þess, að ríkisstj. láti eitthvað til sín heyra. Og Alþingi hlýtur að vænta þess, áður en það lýkur störfum, að eitthvað heyrist frá hæstv. ríkisstj. um þessi mál, hvort hún ætlar að sitja þegjandi undir þessari yfirlýsingu togaraútgerðarmanna og láta reka að því, að þeir framkvæmi það, sem þar er sagt, eða hvort hún ætlar að rannsaka, hvort skýrslan er rétt eða röng og hvort raunverulega er aðgerðar þörf til þess að koma í veg fyrir, að bátaflotinn stöðvist. Þetta var meiningin með minni fsp. áðan, og vænti ég, að hæstv. ráðh. sé það nú ljóst.

Ég sagði ekki í minni fyrri ræðu hér, að ekki hefði nein athugun farið fram á bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu og hag útgerðarinnar og hraðfrystihúsanna í því sambandi. Það veit ég að hefur verið gert. Hins vegar hefur ekki legið fyrir Alþingi, eins og ég áðan sagði, heildaruppgjör á því, hversu miklu þessi fjárhæð nemur og enn síður hvernig hún hefur skipzt á milli milliliðanna, vinnslustöðva og hraðfrystihúsa, útgerðarinnar og sjómannanna, sem er einn meginþátturinn í þessu máli og er sjálfsagt að upplýst sé. Enn fremur ítreka ég það, sem ég áðan sagði, að mér er ekki kunnugt um, að nokkur opinber endurskoðun hafi nokkru sinni farið fram á þessum reikningsskilum. Það var það, sem ég innti hæstv. ráðh. eftir. Og skiptir það þó á þessu tímabili hundruðum milljóna, sem þarna er um að ræða, síðan bátagjaldeyrisfyrirkomulagið var tekið upp.