31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í D-deild Alþingistíðinda. (3484)

180. mál, togaraútgerðin

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þessi fsp., sem hv. 8. þm. Reykv. ber fram, er í tveimur liðum:

„Hefur ríkisstj. hafizt handa um að leysa þau vandkvæði, sem steðja að togaraútgerð landsmanna og eru í þann veginn að stöðva þann atvinnurekstur?“

Þetta er fyrri stafliðurinn. Við því er því að svara, sem ég raunar gat um í sambandi við aðra fsp. s. l. miðvikudag, að enn liggja ekki fyrir þær upplýsingar frá útgerðarmönnunum sjálfum, sem hægt sé að byggja á og leggja til grundvallar fyrir þeirri rannsókn, sem nauður mun reka til að framkvæma í þessum efnum. Enn þá hefur ríkisstj. ekki borizt skýrsla um afkomu nema eins einasta togara. Sú afkoma var að vísu mjög bágborin, en mér finnst ekki óeðlilegt að ætla, að sá togari, sem varð fyrir valinu, sé ekki meðal þeirra, sem bezta hafa haft afkomuna. En sem sagt, skýrslur frá hendi útgerðarinnar, sem eru þó nauðsynlegur grundvöllur fyrir stjórnina til að byggja á framhaldsrannsóknir og stjórnin hefur óskað eftir að fá, liggja ekki fyrir enn þá.

Annar liður fsp. hljóðar svo:

„Hverjar opinberar ráðstafanir telur ríkisstj. koma til greina til að bæta kjör togarasjómanna, rétta hlut útgerðarinnar og koma í veg fyrir algera stöðvun togaraflotans?“

Ég geri ráð fyrir, að hv. fyrirspyrjandi geti samsinnt því með mér, að það sé varla eðlilegt, að ríkisstj. sé reiðubúin að gefa svör við því, hvaða ráðstafana hún hyggur að heilladrýgst sé að grípa til, fyrr en stj. er orðið ljóst með sönnunargögnum, sem hún tekur gild, um hvaða vanda er að ræða. Eins og ég sagði hér við umr. um svipað mál nýverið, þá er ég sjálfur gamall útgerðarmaður. Ég veit mjög vel, að þar skiptast á skin og skúrir. Það gengur stundum illa mánuðum saman, kannske árum saman. En fram á þennan dag hefur togaraútgerðin þó baslað hjálparlaust og oft orðið að bera þunga bagga.

Ég get samsinnt því, að það er eðlilegt, sem hv. flm. sagði, að Alþ. telji sig eiga rétt á að vita, hvaða leiðir stj. vilji fara í þessu máli eins og í öðrum málum, en ég veit líka, að hv. þm. fellst á það, að þess er vart að vænta, að stj. geti tilkynnt Alþ., hverjar leiðir hún telur heilladrýgstar, fyrr en hún hefur sjálf gert sér grein fyrir, hverjar þær eru. Og það er tæplega þess að vænta, að stj. geti gert sér grein fyrir því, fyrr en hún hefur fengið þær upplýsingar, sem hún hefur beðið um frá útgerðinni.

Ég býst við, að allir þeir, sem nú eiga sæti í ríkisstj., séu sammála um það, — og ég segi það að gefnu tilefni frá hv. fyrirspyrjanda, að það komi ekki til mála að veita togaraútgerðinni sömu fríðindi og bátaútvegurinn hefur orðið aðnjótandi, nema fyrir lægju allt önnur og meiri gögn en nú liggja fyrir, og við skulum ekki vera að ganga í grafgötur um það, að sams konar fríðindi til handa togaraútgerðinni og bátar njóta nú eru gengisfelling. Ef 70–80% af útflutningsvöru landsmanna er komið inn á bátagjaldeyrinn, er miklu einfaldara að fella krónuna. Það er áreiðanlega óhætt að treysta því, að ríkisstj. mun óska eftir miklu nákvæmari gögnum en hún hefur átt aðstöðu til að afla sér á þessu stigi málsins, áður en horfið væri að slíkum ráðum. Því má alveg treysta. Auk þess segi ég fyrir mitt leyti sem sjútvmrh., að mér finnst að enda þótt sönnur væru færðar á það, að togaraútgerðin hefði um visst mánaðabil verið rekin með halla, þá getur sú staðreynd ekki skoðazt sem óyggjandi grundvöllur undir kröfu um gengisfellingu eða bátagjaldeyri þessum útvegi til handa.

Ég vil svo segja það eins og er, að ég hef ekki sömu tröllatrú og ýmsir á, að hægt, sé að bjarga útgerðinni með því að lækka olíuverðið. Ég veit, að útgerðarmenn eiga sjálfir hlut í sumum af þessum olíufyrirtækjum og hafa aðstöðu til þess að rannsaka þar öll gögn, og þeir geta þá sjálfum sér um kennt, ef þeir láta okra á sér. Ég veit, að togaraútgerðarmönnum bauðst að eiga meira en helming í einu slíku fyrirtæki, ef þeir hefðu kært sig um það.

Ég efast ekkert um, að það megi færa saman einhverja kostnaðarliði útgerðarinnar. Það ætla ég útgerðarmönnum að hafa vit á að gera sjálfir og bera þá fram sínar óskir við ríkisstj., ef þeir telja sig ekki einfæra um það.

Ríkisstj. hefur rætt það í sinn hóp, hvaða leiðir hún ætti að fara til þess að fá framkvæmda þá rannsókn, sem hún telur að verði að fara fram í þessum efnum, a. m. k. ef ekki breytist fljótlega til batnaðar hagur togaraútgerðarinnar, og eins og ég sagði hér í Alþingi nýverið, þá finnst okkur gæti verið um tvennt að ræða í þeim efnum: annars vegar að fela rannsóknina þeim sömu mönnum sem rannsakað hafa hag bátaútgerðarinnar og frystihúsanna, það eru skrifstofustjórarnir í atvmrn., fjmrn., viðskmrn., fiskimálastjóri, dr. Oddur Guðjónsson og Benjamín Eiríksson bankastjóri, — eða, sem líka gæti komið til greina, að ríkisstj. legði til, að þingið kysi nefnd í þessum efnum. Það er til athugunar hvort tveggja, og verður hnigið að öðru hvoru ráðinu.

Ég endurtek svo að lokum, að skilyrði þess, að slík rannsókn geti leitt á ekki allt of löngum tíma til skynsamlegrar niðurstöðu, er, að fyrir liggi þær skýrslur, sem ríkisstj. hefur krafizt af útgerðinni og útgerðin léð máls á að láta ríkisstj. í té.