31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í D-deild Alþingistíðinda. (3485)

180. mál, togaraútgerðin

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör, sem hann gaf, þó að ég verði hins vegar að viðurkenna það, að ég og hv. alþm. hafa nú ekki grætt mjög mikið á þeim svörum. Þar komu ekki fram miklar upplýsingar um það, hverja stefnu hæstv. ríkisstj. ætlar að taka í þessu vandamáli, en þó vissar bendingar, sem ástæða er til að vekja athygli á.

Hæstv. forsrh. talaði um það, að enn vanti fyllri skýrslur um hag togaraútgerðarinnar, og það kann vel að vera. Annars heyrðist mér nú á honum hér fyrir viku, þegar talað var um skýrslugerð og rannsókn á hag undirstöðuatvinnuveganna, að það mál væri í sæmilegu lagi og engin sérstök ástæða til þess að gera frekari ráðstafanir í því efni. En ég held, að þó að einhverjar slíkar skýrslur vanti, þá liggi það alveg ljóst fyrir, að flotinn er að stöðvast, m. a. og ekki sízt vegna manneklu, vegna þess að togaraútgerðirnar telja sig ekki geta — og geta vafalaust ekki greitt togarasjómönnum hærra kaup eða bætt kjör þeirra frá því, sem nú er, að öllu óbreyttu, en á því er að sjálfsögðu brýn og knýjandi nauðsyn. Sú staðreynd, að vanir togarasjómenn ganga unnvörpum í land, verður til þess, eins og ég gat um áðan, að hagur útgerðarinnar versnar enn við það, að ekki fást nema óvanir menn á skipin, svo að þarna er útgerðin komin í algeran vitahring, sem hún virðist ekki komast úr, nema hagur hennar verði bættur á einhvern hátt.

Hæstv. forsrh. tók lítið undir það, að hægt væri að bæta hag útgerðarinnar með því að lækka ýmsan rekstrarkostnað og minnka þann gróða, sem ég tel — og margir aðrir — að hafi verið af útgerðinni tekinn á margan hátt. Hann talaði jafnvel fremur um hinn möguleikann, að fella gengið almennt, taldi hæpna leið og raunar ófæra að fara út í einhvers konar togaragjaldeyri, enda er það alveg rétt, en almenn gengisfelling held ég að komi ekki heldur til mála. Um það mun allur almenningur í landinu a. m. k. á einu máli.

Það, sem ég held að verði að ganga úr skugga um og það sem fyrst, hafi það ekki verið gert þegar, sem því miður mun ekki hafa verið, er þetta: Hvers vegna er það, sem togararnir bera sig ekki? Það er þó vitað, að þeir afla geysilega mikils verðmætis, a. m. k. þegar hægt er að gera þá út með fullum og góðum mannskap, og það er einnig vitað, að fjöldi aðila hefur grætt stórlega á því að verzla með og meðhöndla á allan hátt framleiðsluna og þau verðmæti, sem fyrir hana eru keypt. Það þarf að rannsaka, hvað olíufélögin hagnast. Hæstv. forsrh. sagði að vísu, að togaraeigendur ættu hlut í einu olíufélaginu og það væri því þeirra sjálfra að segja til um það, hvort þeir væru féflettir á þeim vettvangi. En hann upplýsti þó jafnframt, að þeir hefðu ekki meiri hluta í því félagi, svo að ég veit ekki, hvort þetta er algerlega í þeirra höndum. Það þarf einnig að athuga um vátryggingargjöld, sem eru mikil á hvern togara. Er ekkert hægt að lækka á þeim lið? Hvað hagnast lánsstofnanir, sem leggja til rekstrarfé togaranna, að vísu oft af skornum skammti? Hvað græða þau skipafélög, sem annast flutninga á fiskinum? Hafa þau ekki hagnað, sem er óeðlilegur, á sama tíma og togararnir stórtapa? Hvað græða þeir, sem selja útgerðinni salt og veiðarfæri o. s. frv. Og þá ekki sízt, hvað græða þeir, sem kaupa togarafiskinn og verka hann og selja á erlendum markaði? Ég vil aðeins minnast á það, þó að tími minn sé nú þrotinn, að togarafiskur er nú keyptur á 85 aura kg og karfi er keyptur á sama verði. Það var fyrir nokkrum mánuðum allmikil deila uppi um karfaverðið. Þá var karfinn hækkaður úr 65 aurum í 85 aura, og mér er tjáð, að nú sé verulega sótzt eftir karfanum, en þó vita það allir kunnugir, að úr karfa fást ekki nema 25% flök, en úr þorski 35% flök. Það virðist því, með samanburði við karfaverðið, mjög auðvelt að hækka þorskverðið a. m. k. um 10–15 aura.