31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í D-deild Alþingistíðinda. (3489)

180. mál, togaraútgerðin

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé nú vissara fyrir okkur að búast ekki við miklu frumkvæði frá togaraútgerðarmönnum um að bjarga togaraútgerðinni og landinu í sambandi við þessi mál. Þeir hafa aldrei bjargað í þessum málum. Það mesta, sem hefur verið gert í því að reyna að tryggja rekstur togaraútgerðarinnar og búa landið almennilega út hvað þau tæki snertir, var vegna frumkvæðis frá ríkisstj. á sínum tíma, nýsköpunarstjórninni gömlu, en ekki frá togaraútgerðarmönnum sjálfum. Og hvað snertir hugsanlegt frumkvæði þeirra í sambandi við olíumálið, þá er ég nú hræddur um, að við verðum að gera okkur ljóst, að það væri nú náttúrulega ekki sérstaklega efnilegt út af fyrir sig, að togaraútgerðarmennirnir, skulum við segja, stofnuðu eitt olíufélagið til við fengjum fjórða settið af olíutönkunum hérna á Íslandi og kannske þriðja settið af olíuflutningaskipum, ef ríkisstj. ætlar að halda áfram uppteknum hætti. Ég held, að þetta verði nú ekki bezta fyrirkomulagið á okkar þjóðarbúskap, að haga okkur þannig. Ég held, að það væri nær, að ríkisstj. tæki einkasölu á olíunni og seldi útgerðarmönnum með kostnaðarverði.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. virtist bera fyrir brjósti, að það yrði nú sagt eitthvað ljótt um hann og hann vændur um ýmiss konar slæman tilgang, ef hann færi nú að bera hér fram till. um stórlækkaða vexti, sem sérstaklega kæmu togaraútgerðinni til góða, vil ég minna hæstv. ráðh. á, að það hafa áður verið bornar fram till. hér á Alþ. um stórlækkaða vexti, sem alveg sérstaklega kæmu togaraútgerðinni til góða, till. um 2% vexti á öllum stofnlánum til útgerðarinnar og það til 20 ára, till., sem m. a. gerðu ekki aðeins einstökum togaraútgerðarmönnum, heldur líka mörgum bæjarútgerðarfélögum kleift að afla sér þeirra togara, sem útvegur landsins og afkoma fyrst og fremst byggist á. Ég held, að flytja ætti till. um að ákveða vextina af afurðalánum til — þess fisks, sem togararnir afla, það væri hægt að taka bátana með, ef maður vill, — að ákveða þá 1%, 1% vexti af öllum afurðalánum, og láta seðlabankann nota sitt fé til þess að lána á þennan hátt. Seðlabankinn hefur vaxtalausa alla seðlaveltuna frá ríkissjóði, og það er fyrirkomulag, sem tíðkast m. a. á Norðurlöndum, að afurðalán séu ekki meiri en þetta. Ég skal fullvissa hæstv. forsrh. um, ef hann væri hræddur við að bera fram slíka till., sem er nú ekki annars hans vani að vera hræddur, þá skyldi ég með mestu ánægju flytja þá till. með honum. Og þó að það yrði einhver andstaða hérna í þinginu, þá höfum við, ef við höfum þá flokka, sem við erum formenn fyrir, á bak við okkur, meiri hluta hér í þinginu til að setja þetta í gegn. Og 1% vextir á afurðalánunum í staðinn fyrir 5% og seinna meir 7%, eins og núna eru, þýðir 200–300 þús. kr. fyrir hverja togaraútgerð hér á Íslandi í sparnað.

Það er svo sem ekkert spursmál um það, að við getum leyst þessi mál og leyst þau fljótt, en hitt vil ég mega vona, að ekki komi til, að í apríl geri Alþ. ekkert í togaramálunum, í maílok verði síðna togararnir bundnir og í haust í október, þegar Alþ. kemur aftur saman, þá liggi kannske fyrir einhverjar till. um að fara að ræða þetta. Það vil ég vona, að komi ekki til, og eins og ég hef sagt, þá vonast ég til þess, að það verði tækifæri til þess að ræða þessi þýðingarmestu atvinnumál þjóðfélagsins öðruvísi en í fyrirspurnatíma hér á Alþ. á næstunni.