31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (3490)

180. mál, togaraútgerðin

Haraldur Guðmundsson:

Ekki er það nú rétt hjá hæstv. atvmrh., að ég hafi tekið trú á nýja guði, Morgunblaðið og samtök útgerðarmanna. Hitt virðist mér aftur á móti, ef maður heldur sér að biblíusögunum, að framferði hans nú minni átakanlega á einn mætan mann, Pétur, sem þýðir bjarg eða hella, sem afneitaði meistara sínum; en skömmu síðar gekk hann út og grét beisklega. Og ég gæti trúað því, að líkt færi nú fyrir þessum heiðursmanni, þegar hann afneitar sínum gömlu og nýjum guðum á þennan hátt. Hann minnti á það, að hann væri gamall Kveldúlfskarl, hann sæi nú ekkert eftir útgerðarmönnum að sanna mál sitt o. s. frv., o. s. frv., og skal ég ekkert úr því telja. En það, sem ég átti við, svo maður hverfi að alvörunni, með því að lesa hér upp úr þessum þykka doðrant, Morgunblaðinu, sem ég var með, er það, að það er alveg greinilegt, að samtök togaraeigenda í landinu, studd af aðalmálgagni hæstv. ráðh., hóta fullkominni stöðvun á grundvallaratvinnurekstri þjóðarinnar. Það, sem ég las upp úr blaðinu, þýðir ekkert annað en það, að verði ekki annaðhvort lækkaður gjaldeyririnn beint eða óbeint eða aðrar leiðir fundnar, eins og það er orðað, þá verður togaraútgerðin stöðvuð. Þetta segja útgerðarmenn sjálfir í sínu erindi, og þetta áréttar blað ráðh. í þeim leiðara, sem ég las upp hér áðan, og við slíkri hótun getur enginn skellt skolleyrunum, sem gerir sér grein fyrir því, hversu mikið er hér í húfi, því að á þessum undirstöðuatvinnuvegi byggist mikill hluti af öðrum atvinnuvegum þjóðarinnar. Þar við bætist svo það, að hæstv. ríkisstj. liggur undir rökstuddum grun um að ætla sér, þegar þingi er lokið, að reyna að afstýra stöðvun t. d. með gjaldeyrisfríðindum á einn veg eða annan til útgerðarmanna. Ég segi, að hún liggi undir rökstuddum grun í þessu efni, vegna þess sem hún hefur áður gert í hliðstæðu máli fyrir útgerðina, eða að öðrum kosti, eins og síðasti ræðumaður hér sagði, að láta málið liggja, hnútinn harðna, öngþveitið magnast, þangað til þing kemur saman í haust.

Því er það, sem ég hefði vænzt ákveðinna yfirlýsinga af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu efni nú og aðgerða áður en þingi lýkur.