07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í D-deild Alþingistíðinda. (3496)

190. mál, bátasmíðar og innflutningur fiskibáta

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið við fsp. mínum. Hins vegar verð ég að láta í ljós, að mér finnst að verulegu leyti svör hans hafa byggzt á þeim misskilningi, að fyrirspurnirnar væru fram komnar sem einhver sérstök árás á ríkisstj., og því miður gætir þess alloft í ummælum hæstv. ráðh. hér, að þeir leggja sig ekki fyrst og fremst fram um að svara efnislega því, sem um er spurt. heldur taka fsp. eins og árásir, sem þurfi að hrinda.

Það er alger misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ég eða minn flokkur höfum fjandskapazt við það, að fiskiskipafloti landsmanna hafi verið aukinn. Við höfum deilt um þjóðhagsleg vandamál og möguleikana í sambandi við að smíða skip í landinu og flytja þau inn. En, ég vil taka það greinilega fram, að þegar svo er komið, að fiskiskipaflotinn fer rýrnandi og skipasmíðar fara ekki fram nema mjög litlar í landinu, þá er hvorki ég né minn flokkur á móti því, að flutt séu inn skip. Og þegar það er upplýst, að í það byggðarlag, sem er mín heimbyggð, hafi farið mest af þeim skipum, sem innflutt hafa verið, og aflað þar mikilla gjaldeyristekna, þá er það reyndar ekkert fram yfir það, sem ég áður vissi, hefði ég talíð það ákaflega illa farið, ef engin aukning hefði fengizt á fiskiskipaflotanum þar. Ég tel þess vegna eftir atvikum alls ekki hafa verið fráleitt að leyfa innflutning fiskiskipa á s. l. ári og tel það reyndar ekki enn, og fsp. er alls ekki gerð til ríkisstj. af þeim ástæðum.

Sú er ástæða fyrir því, að síðari liður fyrirspurnarinnar er fram kominn, að ýmsir menn í minni heimbyggð hafa mikinn áhuga á því að fá sér ný fiskiskip og hafa m. a. beðið mig um að grennslast eftir því, hvort það muni nokkuð þýða að sækja til ríkisstj. um innflutning á slíkum skipum.

Ég vil svo ítreka það, að æskilegast væri, ef ríkisstj. gæti sem hraðast undirbúið það, að skipasmíðar færu fram að sem mestu leyti í landinu sjálfu, og alveg skilyrðislaust að svo miklu leyti, að hægt væri að halda gangandi skipasmíðastöðvum allt árið, þannig að þær væru hvenær sem væri reiðubúnar til viðgerða á flota landsmanna, og sömuleiðis væri það ósk mín, að ríkisstj. sæi sér fært að standa ekki í vegi fyrir eðlilegri þróun og aukningu fiskiskipaflotans í landinu og gripi þá til innflutnings á skipum, eftir því sem til kynni að þurfa, að því leyti sem innlendar skipasmíðastöðvar gætu ekki annað eðlilegri aukningu flotans.