01.10.1953
Sameinað þing: 1. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

Minning látinna manna

Aldursforseti (JörB):

Hæstv. forseti, háttvirtir

alþingismenn. Á undanförnum áratugum hefur það verið venja, að aldursforseti minntist í þingbyrjun þeirra alþingismanna og fyrrverandi þingmanna, sem látizt hafa frá því er næsta þingi á undan sleit. Að þessu sinni er hér um að ræða þrjá fyrrverandi alþingismenn og að öllu leyti þjóðkunna menn, sem dáið hafa milli þinga, allir hér í Reykjavík, þá Ólaf Thorlacius lækni, sem andaðist 28. febrúar, Jón Auðun Jónsson, sem andaðist 6. júní, og séra Kristin Daníelsson, sem lézt 10. júlí, og vil ég nú minnast þessara látnu merkismanna nokkrum orðum.

Ólafur Thorlacius fæddist í Saurbæ í Eyjafirði 11. marz 1869 og var því nær 84 ára, er hann lézt. Foreldrar hans voru þau hjónin séra Jón Thorlacius prestur í Saurbæ Einarssonar Thorlacius, er þar var einnig prestur, Hallgrímssonar og Rannveig Tómasdóttir bónda á Steinsstöðum í Öxnadal Ásmundssonar, en hún var systurdóttir Jónasar skálds Hallgrímssonar. Barn að aldri missti Ólafur föður sinn og fluttist með móður sinni að Melgerði í Eyjafirði og síðar að Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann gekk fyrst í Möðruvallaskóla og lauk burtfararprófi þar 14 ára að aldri, 1883, og síðan í lærða skólann í Reykjavík og varð stúdent 1889, hóf síðan nám í læknisfræði í Kaupmannahöfn, en hvarf heim og settist í læknaskólann hér og lauk þar embættisprófi 1896. Samsumars var hann um skeið staðgöngumaður héraðslæknisins í Keflavík, var síðan um eins árs skeið við framhaldsnám í sængurkvennastofnuninni og fleiri sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn. Haustið 1897 var hann skipaður aukalæknir í Suður-Múlasýslu og árið 1900 héraðslæknir í Berufjarðarhéraði, og gegndi hann því embætti til 1928, er hann fékk lausn og fluttist til Reykjavíkur. Var hann eftir komu sína hingað skipaður eftirlitsmaður með berklahælum og berklavörnum, en þrem árum síðar ráðinn lyfsölustjóri og eftirlitsmaður lyfjabúða, og hafði hann þau störf á hendi til ársins 1939.

Á læknisárum sínum eystra sat hann fyrsta veturinn á Djúpavogi, en reisti síðan bú á Búlandsnesi og bjó þar góðu búi um 30 ára skeið eða þar til hann fluttist úr héraðinn.

Ólafur naut mikilla vinsælda og hylli í héraði sínu, ekki eingöngu sem ötull læknir, heldur og fyrir mannkosta sakir. Hann var fjölþættum gáfum gæddur, og menntun hans og áhugi tók langt út fyrir sérgrein hans. Hann lét snemma til sin taka í þjóðmálum og framfaramálum héraðsins og þótti ráðholíur og tillögugóður. Í 20 ár átti hann sæti í hreppsnefnd Geithellnahrepps og var oddviti hennar í 15 ár. Auk þess var hann skattanefndarmaður um alllangt skeið á síðari árum sínum eystra og sýslunefndarmaður í 4 ár. Kosinn var hann fyrri þingmaður Sunnmýlinga fyrir 50 árum, 1903, og sat á þrem þingum, 1903, 1905 og 1907. Honum var létt um mál, bæði í viðræðum og á mannfundum, var gamansamur, fyndinn og manna skemmtilegastur.

Það er almælt, að Ólafur Thorlacius hafi verið framarlega í hópi þeirra menntamanna í sveitum landsins, sem deila kjörum við alþýðuna, vekja hana til dáða og menningar og láta þannig margt gott af sér leiða.

Jón Auðun Jónsson skorti rúman mánuð á 75 ára aldur, er hann féll frá. Fæddur var hann að Garðsstöðum í Ögurþingum við Ísafjarðardjúp 17. júlí 1878, sonur Jóns bónda þar Einarssonar, sem þar bjó einnig, Magnússonar og konu hans, Sigríðar Jónsdóttur bónda á Eyri í Ísafirði Auðunarsonar. Hann ólst upp með foreldrum sínum á Garðsstöðum, en þar var myndarheimili, og stundaði jöfnum höndum landbúnaðarstörf og sjósókn. Á uppvaxtarárum sínum hlaut hann góða heimilisfræðslu, en naut ekki að öðru leyti skólanáms. Mátti hann því heita að mestu leyti sjálfmenntaður maður. Af eigin rammleik aflaði hann sér með áhuga og dugnaði allviðtækrar menntunar, sem gerði hann hlutgengan til margvíslegra og vandasamra starfa, enda þótti hann snemma glöggskyggn og vel viti borinn. Að föður sínum látnum tók hann við búi á Garðsstöðum vorið 1900, 21 árs að aldri, og bjó þar í fjögur ár. Skipaður var hann hreppstjóri í Ögurhreppi 1901 og gegndi þeirri sýslan í þrjú ár, eða þar til hann fluttist úr hreppnum. Sýnir skipun hans í það starf óvenjulegt traust á jafnungunt manni að árum og hann var þá. Frá Garðsstöðum fluttist hann til Ísafjarðar og átti þar heima í 33 ár var fyrst yfirfiskmatsmaður á Vesturlandi 1904–1909 og jafnframt bókari við útibú Landsbankans á Ísafirði 1905–1914, síðan útibússtjóri til 1923, þá útgerðarmaður og framkvæmdastjóri, bæjarstjóri um skeið og loks skattstjóri í nokkur ár, eða þar til hann tók við starfi hér í Reykjavík hjá Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda árið 1947, en á fundum þess hafði hann áður verið fulltrúi Vestfirðinga í mörg ár. Fjölmörg önnur trúnaðarstörf hafði hann á hendi, var ræðismaður Norðmanna á Ísafirði, átti alllengi sæti í bæjarstjórn Ísafjarðar, var í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum 1933 og formaður yfirfasteignamatsnefndar. Hann var þingmaður Ísafjarðarkaupstaðar 1920–1923 og þingmaður Norður-Ísfirðinga 1924–1933 og 1934–1937. Alls átti hann sæti á 19 þingum, þar af 15 þingum í neðri deild, en sat á fjórum hinum síðustu í efri deild.

Jón Auðunn var alla ævi óvenjulegur atorku- og athafnamaður, og var orð á því gert, hve vinnusamur hann var og verksígjarn. Hann kunni góð skil á atvinnuháttum þjóðarinnar, bæði til sjávar og sveita. Framar öllu lét hann sig þó miklu skipta þá þætti atvinnulífsins, er lutu að útgerð og meðferð og sölu sjávarafurða, en allt frá æskuárum hafði hann með fjölþættum störfum sínum aflað sér viðtækrar reynslu og þekkingar á þeim málum. Á málfundum var hann óáleitinn og orðprúður, en rökvis. Hverjum manni var hann ljúfari og mannþýðari í viðmóti og samvinnu, góðviljaður og greiðvikinn, enda varð honum vel til vina. Þessir eðliskostir Jóns Auðuns, samfara góðri greind og hagsýni, gerðu hann að einkar nýtum manni, sem hófst af sjálfum sér til mikilvægra starfa í þjóðfélaginu.

Séra Kristinn Daníelsson varð langelztur þessara þriggja fyrrverandi þingmanna, er látizt hafa á þessu ári, og einn af fimm mönnum, sem sæti hafa átt á Alþingi á tímabilinu frá 1845, er komizt hafa yfir nírætt. Elztur varð Páll Melsted sagnfræðingur, 97 ára, þá Bjarni Thorsteinsson amtmaður, 95 ára, þá Björn í Grafarholti, 94 ára, þá Kristinn Daníelsson, 92 ára, og loks Jón Þórðarson í Eyvindarmúla, á 91. ári.

Kristinn Daníelsson fæddist 18. febr. 1861 á Hrafnagili í Eyjafirði, sonur séra Daníels, síðar prófasts á Hólmum í Reyðarfirði, Halldórssonar prófasts á Melstað Ámundasonar og konu hans, Jakobínu Soffíu Magnúsdóttur Thorarensens bónda á Stóra-Eyrarlandi Þórarinssonar. Hann brautskráðist úr lærða skólanum í Reykjavík vorið 1882 og úr prestaskólanum í september 1884. Í sama mánuði var honum veitt Sandaprestakall í Dýrafirði, og var hann þar prestur í 19 ár, til 1903, en þá var honum veitt Útskálaprestakall, og gegndi hann því embætti til 1916, er honum var veitt lausn, og var jafnframt prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi nokkur síðustu árin. Þegar hann lét af prestsembætti fluttist hann til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður í Landsbankanum, hafði á hendi endurskoðunarstörf innan bankans, alls í 14 ár, til 1930, en þá lét hann af því starfi fyrir aldurs sakir.

Snemma vaknaði áhugi séra Kristins á þjóðmálum og félagsmálum, og lét hann þar til sín taka á mörgum sviðum, var gerhugull á kjarna hvers máls og sparaði ekki vinnu né fyrirhöfn til þess að kynna sér sem bezt hvert það viðfangsefni, sem hann lagði að hug og hönd. .Á hann hlóðust á langri ævi margvísleg trúnaðarstörf. Hann var þingmaður Vestur-Ísfirðinga 1909–1911 og 2. þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1913.–1919. Alls sat hann á 10 þingum og var forseti sameinaðs Alþingis 1914–1917. Af öðrum trúnaðarstörfum má nefna, að hann var amtráðsmaður í Vesturamtinu í 6 ár, sýslunefndarmaður, bæði vestra og hér syðra, í nærfellt 30 ár samtals, yfirskoðunarmaður landsreikninganna 3918–1921 og gjaldkeri í stjórn Kvennaskólans í Reykjavík 1927–1843. Á síðari hluta ævinnar hneigðist hann mjög að sálarrannsóknum og spíritisma, beitti sér með fleiri mönnum fyrir stofnun Sálarrannsóknafélags Íslands, var forseti þess og ritstjóri Morguns 1938–1939 og ritaði fjölmargar greinar í það tímarit.

Í söfnuðum sínum og hvarvetna þar, sem Kristinn Daníelsson starfaði, var hann mikils metinn fyrir vitsmuni og drengskap, festu í lund og skoðunum. Þó að hann væri ekki flugmælskur maður, olli því virðuleiki hans, alvara og heilindi í hverju máli, að eftir honum var tekið og á hann hlustað. Hann gat verið þungur á bárunni og ófús að láta hlut sinn, ef á milli bar um skoðanir, sem hann hafði myndað sér í mikilvægum málum, en gott mun þó flestum hafa þótt með honum að vinna. Í sjálfstæðismálum þjóðarinnar var hann framarlega í flokki þeirra manna, sem beinasta leið vildu fara og hafa sem fæsta áfanga. Sálarkröftum sínum hélt hann óskertum fram á síðustu ár og fylgdist vel með öllum þjóðmálum og öðrum þeim málum, sem hann hafði áhuga á. Séra Kristinn Daníelsson mun jafnan vera talinn í röð hinna merkari manna samtíðar sinnar í íslenzkri prestastétt.

Ég vil biðja þingheim að votta minningu þessara þriggja mikilhæfu manna virðingu sína með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum. — Síðan gekk forseti Íslands út úr þingsalnum:]

Varamenn taka þingsæti. Aldursforseti (JörB): Mér hafa borizt hér tvö bréf:

„Reykjavík, 1. okt. 1953.

Með því að Lúðvík Jósefsson, 11. landsk. þm., dvelur erlendis og er ekki væntanlegur til landsins fyrr en um miðjan þennan mánuð, leyfi ég mér, með skírskotun til 3. mgr. 144. gr. laga nr. 80 1942, um kosningar til Alþingis, að óska eftir því, að varamaður, Ásmundur Sigurðsson, taki sæti hans á Alþingi, meðan hann verður fjarvistum.

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt. F.h. Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins,

Einar Olgeirsson.“

Þá hefur borizt hér annað bréf:

„Reykjavík, 29. sept. 1953.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins leyfir sér hér með að tilkynna hæstvirtum forseta sameinaðs Alþingis, að Jóhann Hafstein alþingismaður er nú staddur í Bandaríkjunum sem fulltrúi Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og mun því væntanlega ekki geta setið á fundi á Alþingi fyrr en seinast í októbermánuði.

Þess er því óskað, að 1. varaþingmaður Sjálfstfl. í Reykjavík, frú Kristín Sigurðardóttir, taki sæti á Alþingi, meðan Jóhann Hafstein er fjarverandi.

Virðingarfyllst,

f.h. miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins,

Magnús Jónsson.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Þeir varaþingmenn, sem getið er um í þessum bréfum, munu vera mættir hér.

Aldursforseti kvaddi sér til aðstoðar sem fundarskrifara þá Magnús Jónsson, 2. þm. Eyf., og Skúla Guðmundsson, þm. V-Húnv.