02.10.1953
Sameinað þing: 1. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (3505)

Rannsókn kjörbréfa

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er ekki til þess að gera athugasemd við framsöguræður hv. frsm., sem nú hafa lokið máli sínu, að ég tek hér til máls, en í 2. kjördeild, sem ég átti sæti í, hreyfði ég því, að utankjörstaðakjörgögn, sem notuð voru við alþingiskosningarnar í s.l. júnímánuði, virtust hafa verið af ólöglegri gerð. Ég gerði í kjördeildinni nokkra grein fyrir þessu og hafði atkvæðaseðil meðferðis, sem nokkrir kjördeildarmenn litu á, og er það allra mál, sem sjá þessi kjörgögn, að þau fullnægi ekki lögum.

Kosningalögin segja um kjörgögn þau, sem nota á við utankjörstaðaatkvæðagreiðslu, að dómsmrn. láti í té þá kjörseðla ásamt fylgibréfum og umslögum, sem þar til heyra og nota eigi við atkvgr. utan kjörstaða. Og um gerð kjörgagnanna, sem nota á utan kjörstaða,segir svo í 45. gr. kosningalaganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjörseðill, fylgibréf og stofn skulu vera samföst á einu kjörblaði, en aðgreind með riflinum. Kjörblöð skulu vera úr haldgóðum pappír með mismunandi lit við hverjar kosningar og svo þykkum, að skrift verði ekki greind í gegnum hann, þó að borið sé upp við birtu. Stofn og fylgibréf sama kjörblaðs skulu auðkennd sömu tölu og öll kjörblöð, sem notuð eru við hverjar almennar kosningar um land allt, tölusett áframhaldandi tölum.“

Ég efa það ekki, að kjörgögnin eru eins um allt land, þau sem notuð voru við utankjörstaðaatkvgr., og svo framarlega sem þau ekki uppfylla þetta ákvæði, að vera af svo þykkum og haldgóðum pappír, að ekki sjáist í gegnum þau, þó að borið sé upp við birtu, þá eru þau ótvírætt ólögleg. Það mun ekki hafa verið almennt gerð athugasemd við þetta, fyrr en komið var nokkuð nærri kjördegi. Þannig var það t.d. í mínu kjördæmi, þ.e. þessa varð vart eða athugasemd gerð við það opinberlega tveim dögum fyrir kjördag og þá þegar gert aðvart bæjarfógetanum á Ísafirði, sem viðurkenndi, að þarna væru mistök, sem að vísu væri ekki hægt að leiðrétta, því að það að búa út ný kjörgögn og að fá þeim dreift út um landið á ný tæki langan tíma.

Við horfumst þá í augu við það, að þær 10 eða 12 þúsundir manna, sem hafa neytt atkvæðisréttar síns utan kjörstaða við alþingiskosningarnar síðustu, hafa fengið til þess ólögleg kjörgögn, sem hægt er að sjá í gegnum, og leyndinni af kosningu þeirra hefur verið svipt í burtu, því að það er staðreynd, að þeir menn, sem eiga að starfa sem vottar við atkvæðagreiðsluna, geta ekki komizt hjá því að sjá í samanbrotnum og afturlímdum kjörseðlinum, hvernig kosið hefur verið. Starfsmenn í kjördeildum, þegar þeir áttu að bera saman númer á stofni og umslagi og gera sína skyldu við að bóka atkvæðin, og sendisveinar í kjördeildum gátu heldur ekki komizt hjá því að sjá, meðan var verið að vinna að þessum kjörgögnum, hvernig hafði verið kosið. Og kjörstjórnir hafa talað um, að það hafi verið óþarft að rifa kantana utan af hinum lokaða kjörseðli til þess að sjá, hvernig kjósandinn hefði kosið, því að það sáu allir, sem um fjölluðu, án þess að opna kjörseðilinn.

Ég grennslaðist eftir því hjá Hagstofu Íslands í dag, hvort búið væri að reikna út alþingiskosningarnar í sumar og hvort hægt væri þar að sjá, hvort áberandi meiri notkun utankjörstaðakjörgagna hefði verið við þessa kosningu heldur en t.d. við alþingiskosningarnar 1949, en Hagstofa Íslands er því miður ekki búin að vinna úr þessum gögnum enn þá. Það er því ekki hægt að fá samanburð á því í dag, þegar þetta mál er til umr. á Alþingi, hvort áberandi miklu meira hefur verið notað af utankjörstaðakjörgögnum og áberandi fleiri hafa kosið utan kjörstaða heldur en við aðrar alþingiskosningar, en ef svo væri og ef svo skyldi reynast, að það bæri sérstaklega á því í þeim kjördæmum, þar sem kosningin var hörðust, þá væri það bending í þá átt, að misnotkun kynni að hafa átt sér stað. En um það verður hægt að upplýsa síðar, og er bezt að gera það með gögnum frá hagstofunni sjálfri. Hins vegar yrði aldrei hægt að sanna í einstökum atriðum um misnotkun. En það er auðsætt mál, að það er auðvelt, þegar búið er að svipta leyndinni af kosningarréttinum, að misnota slíkt og má gerast með mörgum hætti, enda ekki grunlaust um það sums staðar, að það hafi gerzt, sem og varla er hugsanlegt annað, þegar menn hafa það fyrir sér, hvernig menn kjósa. Vissulega eru öll hin ströngu ákvæði kosningalaga um það að tryggja fullkomna leynd ekki út í bláinn sett og gerð. Það er til þess að fyrirbyggja misnotkun, þ.e.a.s. til þess að tryggja fullkomið frelsi kjósandans í kjörklefanum.

Hvað er hægt að gera í þessu máli? Það virðist ekki vera hægt annað að gera heldur en það að horfast í augu við, að þarna hafi mistök átt sér stað. Allir viðurkenna þessi mistök. Hæstv. dómsmrh., sem átti sæti í þeirri sömu kjördeild og ég, viðurkenndi það núna rétt áðan, að mistökin hefðu átt sér stað, pappírinn væri þannig, að það sæist í gegnum hann. Og það þarf ekki einu sinni að bera hann upp við birtu. Hérna á borðinu liggur kjörseðillinn, ég get lesið nafnið af honum núna lokuðum án þess að bera hann neitt upp að birtu. Auðvelt er það hverjum manni, ef hvítt er á bak við kjörseðilinn, að lesa atkvæðið liggjandi á borði. Ég hygg meira að segja, að hv. deildarmenn geti lesið í gegnum kjörseðilinn núna, þegar hann ber hér á milli þeirra og gluggans. Það þurfa sumir að setja upp gleraugu, og það er ekki nema von. Það er fjarlægðin, sem gerir það, en ekki þykkt pappírsins, og hár aldur sömuleiðis, sem kynni að eiga þar einhverja hlutdeild í. En margir voru þeir þó, sem ekki þurftu að grípa til gleraugnanna.

En það, sem verður að gerast í sambandi við þetta mál að minni hyggju, er að benda á þetta á Alþingi og óska þess, krefjast þess, að slík mistök eigi sér ekki stað aftur. Pappírinn hefði þurft að vera dekkri á litinn, hann hefði þurft að vera þykkari, hann hefði auðvitað orðið undir öllum kringumstæðum að fullnægja ákvæðum laganna. Menn segja: Það eru vandkvæði á því að fá þykkan og góðan pappír, einkanlega núna eftir stríð. Það víssu allir, að alþingiskosningar fóru í hönd, dómsmrn. vissi, að það átti að sjá fyrir slíkum pappír með þessum lögákveðnu eiginleikum, og ef hann væri ekki fáanlegur, þá segja tæknilega menntaðir menn í prentaraiðninni, að sú leið hefði verið fær að setja prentsvertu á bakflöt kjörseðilsins og gera hann þannig, að ekki sæist skrift í gegnum hann með neinu móti. Þetta var ekki gert, þess vegna horfumst við nú í augu við þessi alvarlegu mistök. 10–12 þúsundir manna hafa greitt atkvæði við þessar síðustu kosningar á þann veg, að leyndinni var svipt af atkvæðagreiðslu þeirra. Ég harma þessi mistök, ég sé enga leið til þess að bæta úr þeim, — það er ekki hægt að ógilda kosninguna alla í landinu.

Þau mál, sem snerta mistök í sambandi við kosningar, eru alltaf hin leiðinlegustu mál, og skal ég ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég taldi mér skylt, með þau sönnunargögn, sem ég er með hér í höndunum og margir fleiri hafa vafalaust fjallað um, að vekja athygli á þessu og bera fram þá eindregnu ósk, að dómsmálastjórnin sjái um, að þetta komi ekki fyrir aftur.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, þá hreyfði hann þessu máli í kjördeildinni, þar sem við vorum báðir saman, og við vorum allir sammála um það, sem þar vorum, að pappírinn er ekki eins góður og skyldi.

Það er rétt að segja frá því, að undirbúningur kosninganna að þessu leyti var með alveg sama hætti og venja er til. Um hann fjölluðu sömu aðilar, og pappírinn er í eðli sínu mjög svipaður — og sízt lakari að gerð — eins og hann hefur verið við nokkrar síðustu kosningar, þ.e.a.s., eftir að þær birgðir þrutu, sem voru til af betri pappír og höfðu verið keyptar fyrir stríðið. Hins vegar er það rétt, að liturinn á þessum pappír sýnist vera eitthvað gegnsærri, þegar hann er borinn upp að birtu, heldur en litur hefur stundum verið áður. En pappír hefur stundum verið notaður áður, sem er jafnljós og virðist mundu vera jafngegnsær, ef hann liggur á borði, eins og þessi pappír. Það er samt mjög mikið áhorfsmál og álitamál fullkomið, hvort þessi pappír sé lakari eða betri heldur en sá pappír, sem notaður hefur verið nú um alllangt skeið og fram að þessu hefur ekki verið fundið að.

Hinu væri fráleitt að neita, að þessi pappír fullnægir ekki ákvæðum laganna, og ég tel, að í hverju sem það liggur, þá verði að játa, að þarna hafi átt sér stað mistök, sem sjálfsagt sé að koma í veg fyrir að verði endurtekin. Ég skal ekki rekja frekar, af hverju þau eru. Það er nóg, að þau eru fyrir hendi, og úr þessu þarf að bæta.

Ég ræddi þetta þegar í sumar við dómsmrn. og síðast í gær við forstjóra ríkisprentsmiðjunnar, sem hefur að mestu leyti annazt þessi mál fyrir hönd dómsmrn., og hann hefur látið sér til hugar koma það úrræði, sem ég gat um inni á fundinum áðan og hv. síðasti ræðumaður drap á, að sverta bakhluta pappírsins, þannig að útilokað yrði, að sæist í gegn. Það er hugsanleg leið. Önnur hugsanleg leið er að reyna að fá betri pappír. Raunar segir prentsmiðjustjórinn, að það sé ekki hægt að fá pappír, nema þá hreinan „earton“, sem alveg sé öruggt um að ekki sjáist í gegn, þannig að það ákvæði laganna sé óframkvæmanlegt. Um það skal ég nú ekki dæma. En hann hefur samt nú þegar til athugunar, hvaða leiðir séu til þess að bæta úr þessu.

Sérstaklega vil ég vekja athygli á því, að samkv. sveitarstjórnarlögunum á að nota þá atkvæðaseðla, sem afgangs verða við næstu þingkosningar á undan, við utankjörstaðaatkvæðagreiðsluna. Þess vegna er það svo, að ef ekki verða sérstakar ráðstafanir gerðar, þá er það eftir bókstaf laganna, að í vetur verða enn notuð þessi sömu kjörgögn. Ég tel það vera óheppilegt og hef þess vegna hugsað mér, nú strax og nefnd:r verða kosnar, að eiga tal við allshn. beggja deilda um það, hvaða úrræði skuli hafa, hvort menn vilja heldur reyna að láta afla alveg nýrrar pappírsgerðar, sem sumir telja vandkvæði á, eða sverta einhvern þann pappír, sem til er. En hvort tveggja mundi leiða til þess, að ekki yrði fullnægt að bókstafnum því ákvæði, að notaðar yrðu leifarnar frá í sumar, heldur yrði að senda út nýjan pappír. Um þetta vildi ég því hafa samráð við nefndirnar.

Varðandi það, að þetta hafi leitt til beinnar misnotkunar, þá hef ég ekki heyrt nein dæmi þess. Ég tel, að það liggi alveg ljóst fyrir, að þarna hafi mistök átt sér stað. Hins vegar hygg ég, að það sé ekki hægt að sýna fram á, að atkvæðahlutföll séu svo ólík í utankjörstaðaatkvgr. í einn einasta kjördæmi við það, sem er í atkvgr, á kjördag, að það gefi nokkurt tilefni til þess að ætla, að þetta hafi leitt til misnotkunar á þann veg, að fölsuð hafi verið atkvæði eða höfð ólögleg áhrif á kjósendur. Slíkt hygg ég að fé fjarri sanni. En þarna er atriði, sem úr þarf að bæta, og ráðstafanir hafa þegar verið undirbúnar til þess, að svo verði gert.