06.11.1953
Efri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

17. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til umsagnar þetta frv. til l. um breyt. á og viðauka við l. um laun háskólakennara, 17. mál, þar sem farið er fram á, að prófessorum í laga- og hagfræðideild fjölgi um einn, þ.e., að prófessorarnir verði fjórir í stað þriggja, sem þeir hafa verið frá upphafi. Grg. sú, er með frv. fylgir, skýrir glögglega frá, hvernig nemendafjöldi og kennsluhættir hafa breytzt frá fyrstu tíð, og skyldi engum koma á óvart, miðað við aðra þróun, sem orðið hefur á öllum sviðum frá þeim tíma, enda hefur ósk um aukningu kennara komið fram oft áður og síðast á þinginu 1952. Var sams konar frv. og nú liggur fyrir lagt fram í Nd. Þáverandi menntmrh. fylgdi frv. úr hlaði á 3. fundi í Nd., 3. okt., og lagði til, að það yrði samþykkt. Síðan var það tekið fyrir til 2. umr. í Nd., og mælti þá 7. þm. Reykv. (GTh) eindregið með því, að það yrði samþ., en minni hl. menntmn. mælti með því, að því yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Var sú rökstudda dagskrá samþ. með eins atkv. meirihlutamun, og þar með var frv. úr sögunni og fór ekki lengra.

Menntmn. er einhuga um það, að það sé ekki æskilegt að fjölga embættum við Háskóla Íslands eða annars staðar, nema brýna nauðsyn beri til. N. hefur haldið 3 fundi um þetta mál, og m.a. hefur háskólarektor mætt á fundi n. og gefið henni mikilvægar upplýsingar til viðbótar því, sem grg. lætur í té. Prófessorar lagadeildar kenna 17 greinar lögfræðinnar og þurfa að sjálfsögðu að eyða mjög löngum tíma vegna prófa hjá svo mörgum nemendum sem nú eru í lagadeild, og er því ekki undarlegt, þó að nauðsyn sé á því að bæta við kennslukröftum. — Einn nm. hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, með þeim forsendum, að það sé ekki siður æskilegt að fjölga prófessorum í læknadeild, og eru nm. yfirleitt, að ég hygg, sammála um það. En það er ekkert frv., sem liggur fyrir um þetta í bili. Það lá fyrir á síðasta þingi, en hefur ekki komið fram enn, en mér er ekki grunlaust um, að það sé von á því í annarri hvorri deildinni.

Fleira hef ég ekki að segja um þetta.