05.10.1953
Neðri deild: 2. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

Kosning fastanefnda

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar Framsóknarflokkurinn kemur með það sem rök hér í þinginu, að það geti ekki gert neinum rangt til, að kosning fari fram aftur. Ég veit ekki betur en hæstv. Framsfl. og hans ráðherrar sitji nú í ríkisstjórn vegna þess, að þeir eru hræddir við, að kosning fari fram aftur. Ég held þess vegna, að það ætti ekki að vera að beita því sem rökum hérna í sambandi við þetta.

Það var rætt allmikið um kosningar, um atkvæðaseðlana og annað slíkt, þegar kjörbréf voru tekin gild nú. Og það þótti ekki fært, og því var lýst yfir af sjálfum hæstv. dómsmrh., að það þætti ekki fært að láta kosningu fara fram aftur, jafnvel þótt bæði formaður Alþfl. og ég flyttum mörg rök fram um það, að ýmislegt viðvíkjandi kosningaseðlunum hefði verið mjög varhugavert. Mönnum kom saman um það, að það væri engin ástæða til þess að láta kosningu fara fram aftur. — Og Framsfl. var svo eindreginn í því, að það bæri undir engum kringumstæðum að láta kosningu fara fram aftur, að hann settist í ríkisstj. upp á mjög slæm kjör til þess að láta ekki kosningu fara fram aftur. Ég held þess vegna, að hæstv. fjmrh. ætti alls ekki að vera að beita þessum rökum hérna.

Það er búið að kjósa, og það hefur enginn fundið neitt að þessum atkvæðaseðlum. Það er alveg rangt, sem hæstv. forsrh. talar um, að það hafi nú kannske verið skrifað svo illa eða eitthvað slíkt. Ég held; að það sé ómögulegt að finna þennan fræga seðil, sem var skrifaður þannig, að það var alveg jafnt hægt að lesa á honum A og D, ef ég man rétt, og þurfti sannarlega list til, en svona var nú sá seðill. Það hefur enginn fundið neitt að þessum seðlum, heldur hafa þeir þótt alveg réttir. — Svo kom hæstv. forsrh. með þá röksemd, að menn hefðu verið orðnir svo vanir að kjósa A, B, C, D, E, að þess vegna væri vel hugsanlegt, að einhverjum hefði nú fatazt. En ég vil bara benda hæstv. forsrh. á, að seinasta n., sem kosin var í Sþ., áður en þessi kosning hófst í Nd., var þingfararkaupsnefnd. Þar stóð allt Atlantshafsbandalagið saman. Það voru bara tveir listar, A og B. Menn voru alveg búnir að fá æfinguna um að hlýða, svo að það er engin afsökun til fyrir því. Ég held þess vegna, að það nái ekki nokkurri átt að láta þessa kosningu fara fram aftur. Það er þá aðeins ofríki ríkisstj., sem því ræður.

Hvað snertir hvort mér þyki, af því að það var nú ég, sem stillt var í fjhn., eitthvað lakara að sitja í fjhn. af slysni, þá verð ég að segja, að mér er nokkurn veginn alveg sama, hvernig ég sit í fjhn., hvort það væri hlutkesti um það eða hvort einhver af fylgjendum stjórnarinnar eða fylgjendum Alþfl. kysi mig til þess að fá mig inn í hana. Ég kann því mjög vel að hafa fengið þannig fylgi utan míns flokks. Ég er engan veginn viss um, að það hafi verið nein slysni. Hitt þekki ég, að ef það á að fara að kjósa upp aftur og aftur, af því að það sé slysni, svo framarlega sem einhver úr Atlantshafsbandalaginu ekki hlýðir, þá er hægt að halda fólki hér alllengi í þingsölunum, ef á að píska menn þannig til hlýðni. Ég man nú eftir því, að það hefur stundum gerzt, að það hafa jafnvel verið kallaðir saman flokksfundir í miðjum slíkum kosningum til þess að reyna að koma öllum á rétta línu. — Og ég skal að síðustu segja þetta: Ég veit ekkert, hvort það er eins eftirsóknarvert fyrir hæstv. ríkisstj. og hún leggur nú áherzlu á að hafa okkur utan við nefndirnar. Ég ætla a.m.k. að minna ríkisstj. á, að hún skal muna það, hvað hart hún hefur sótt það að útiloka sósíalista frá nefndum.