10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (3532)

Fjárhagur ríkissjóðs 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að sér hefði orðið hugsað til þess, sem ég hefði sagt þegar þessi fjárlög fyrir 1953 voru afgreidd. Þá hefði ég varað sterklega við því að áætla tekjurnar hærra en gert var á fjárlögunum og talið, að það mætti með engu móti eigu sér stað. Nú hefði það hins vegar komið í ljós, að tekjurnar hefðu orðið miklu meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Mér heyrðist á hv. þm., að ég væri mjög ámælisverður fyrir þetta. Það mátti nærri því skilja, að ég hefði með þessu gefið þinginu rangar upplýsingar. Hv. þm. virðist hugsa þannig, að ég hljóti að sjá fram í tímann, vera forspár, sjá óorðna hluti og mér hefði láðst að segja þinginu í desembermánuði s.l. frá því, að það mundi verða svo gott ár á Íslandi 1953, að ríkistekjurnar mundu verða 500 millj. í staðinn fyrir 420 millj., sem þær voru 1952. Mér hafi hlotið að vera þetta kunnugt. Tónninn í ræðu hv. þm. var allur á þá lund, að ég væri stórlega ámælisverður fyrir að hafa „leynt“ þessu, en haldið hinu fram, að miða ætti tekjuáætlunina við reynsluna. En ég benti á það þá, að tekjur ársins 1952 voru samtals 420 millj. og að búið var að áætla tekjur ársins 1953 á fjárlagafrv. 418 millj., ekki að óbreyttum sköttum og tollum, heldur að þeim lækkuðum, því að kaffi- og sykurtollurinn var afnuminn. Ef við hefðum haft sams konar ár 1953 eins og 1952, þá hefðu tekjurnar orðið núna um 445 millj., eða 420 millj. plús þessar 25 millj., sem fengust í tekjur aukalega vegna vélainnflutningsins mikla. Var nokkur furða, þótt ég varaði við því að ganga lengra en gert var, að áætla tekjurnar jafnháar og þær höfðu reynzt árið áður? Það hefur víst aldrei átt sér stað í sögu Alþ., að slíkt hafi verið gert, og slíkt hefði heldur alls ekki verið gert, ef menn hefðu ekki átt von á þessum aukatekjum vegna vélainnflutningsins. Það kemur óvænt og gat enginn vitað fyrir fram, að árið 1953 reyndist svo gott tekjuár sem nú er raun á orðin. Og ég trúi því varla, að hv. þm. meini það í alvöru, að ég sé ámælisverður fyrir að hafa ekki séð þetta fyrir.

Það er svo önnur saga, að nú kemur í ljós, að þrátt fyrir þessar miklu tekjur leyfir ekkert af, að afkoma ríkissjóðs sé í góðu lagi. Það haugast á ríkissjóð slíkar feiknagreiðslur, ekki uppfundnar af ríkisstj., heldur vegna ráðstafana, sem Alþingi hefur gert, að hefði verið teflt á tæpt vað um afgreiðslu fjárlaganna, þá hefði enginn afgangur orðið, heldur halli. Þá hefðum við ekki getað mætt þeim greiðslum, sem á skullu á árinu. Þetta sést mjög vel, ef menn athuga sjálft yfirlitið, sem ég gaf áðan.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að honum hefði skilizt á mér, að fyrir góða fjármálastjórn hefðu tekjurnar farið fram úr áætlun. Ég veit ekkert, á hverju þessi hv. þm. byggir svona orðaskak. Mér er það alveg óskiljanlegt. Ég sagði það þvert á móti, að vegna óvenjulegs góðæris hefðu tekjurnar farið fram úr áætlun.

Hv. 4. þm. Reykv. deildi á mig og ríkisstj. fyrir, að við skyldum ekki leggja fram sérstakt frv. nú um ráðstöfun á greiðsluafganginum. Hv. þm. sagði, að maður skyldi halda, að Alþ. hefði átt að ráðstafa þessum 38 millj., sem afgangur var talinn. Út af þessu vil ég endurtaka, hvað af þessu fé hefur orðið, og biðja þm. að gera grein fyrir því, hvað af þessum fjárhæðum átti ekki að greiða.

Það er fyrst aukið rekstrarfé ríkisstofnana. Þrjár stofnanir fá að halda sínum tekjuafgangi. Átti að heimta af útvarpinu með harðri hendi þessar 2 millj. handa Alþ. til ráðstöfunar? Átti að heimta afganginn frá landssmiðjunni, þótt hún eigi í stórkostlegum erfiðleikum vegna rekstrarfjárskorts? Eða hagnað áburðar- og grænmetisverzlunar, þar sem nákvæmlega eins stendur á? Átti að koma í veg fyrir, að áfengis- og tóbakseinkasalan fengju að auka rekstrarfé sitt, sem þeim var þó óhjákvæmilegt vegna aukinna viðskipta? Ég spyr hv. þm.

Þá vil ég spyrja hv. þm.: Átti stjórnin að synja um fyrirframgreiðslu á 2.7 millj. vegna sementsverksmiðjunnar og stöðva þannig undirbúningsframkvæmdir?

Næsti liður er fyrirframgreitt atvinnuaukningarframlag fyrir árið 1954. Átti stjórnin að synja um að greiða þessa 1.6 millj. fyrir fram?

Þá er fjórði liðurinn: Lagt á sérstakan reikning til þess að koma í veg fyrir eigendaskipti á nokkrum togurum utan Reykjavíkur. Átti stjórnin að láta selja þessi skip, þó að Alþ. hefði í rauninni mælt svo fyrir, að koma skyldi í veg í fyrir eigendaskipti með því að leggja fram þessa fjármuni ? Ég spyr hv. þm.

Þá kemur fimmti liðurinn. Það eru útlagðar greiðslur af láni, sem tekið var af ríkissjóði í Englandi til greiðslu á 10 togurum, 6 millj. 874 þús. kr. Átti ríkissjóður að neita að greiða af þessu láni á réttum gjalddaga, þótt það væri hans skuld? Auðvitað var alveg óhjákvæmilega skylda að greiða af láninu. Ég spyr hv. þm.

Þá kemur að greiðslu á lausaskuldum. Fyrst er gömul skuld vegna fiskiðjuvers ríkisins. Þetta er löngu gjaldfallin skuld, eiginlega orðin skammarskuld, 1 millj. 227 þús. kr., lögleg skuldbinding ríkissjóðs samkv. lögum frá Alþ. Skuld strandferðanna við landhelgissjóðinn 2 millj. 114 þús. kr. Þetta er skuld við landhelgissjóðinn, gjaldkræf, hvenær sem landhelgissjóður gengur eftir skuldinni. Nú þurfti að greiða skuldina, til þess að landhelgissjóðurinn gæti byggt björgunarskip fyrir Norðurland samkv. ákvörðun Alþingis. Ég spyr hv. þm.: Átti að neita að greiða þessar skuldir?

Síðan kemur liður sem heitir: Lækkun lausaskulda í Landsbankanum 2 millj. 496 þús. Það er nú allt og sumt, sem höggvið hefur verið í þær umfram aukningu á öðrum lausaskuldaliðum. Hér er líka um löngu gjaldfallna skuld að ræða vegna fiskábyrgðanna o. fl. Ég spyr hv. þm.: Var goðgá að höggva í þessar skuldir?

Þá eru eftir aðeins þrjár fjárhæðir, og það er fé, sem geymt er til framkvæmda á árinu 1954, — framkvæmda, sem Alþingi hefur ákveðið. Fyrsta fjárhæðin er geymd af vitagjaldi til vitabygginga 587 þús. kr., önnur fjárhæðin, 1 millj. og 300 þús. kr., er geymd til þess, samkv. 22. gr. fjárlaga, að flugmálin fái að njóta betri afkomu í rekstri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Er greinilega tekið fram í sjálfum fjárlögunum, að þannig eigi þetta að vera. Loks er geymt upp í framlög til atvinnuaukningar samkvæmt heimild í fjárlögum fyrir 1954 3 millj. og 387 þús. Og ég spyr hv. þm.: Eru það þessar fjárhæðir, sem hv. þm. á við, þegar hann talar um, að stjórnin sé að ráðstafa greiðsluafgangi án samráðs við Alþ.?

Þau ummæli hv. þm., að gengið hafi verið á svig við þinglega málsmeðferð með því að leggja ekki fyrir þingið nú frv. til l. um ráðstöfun á greiðsluafgangi, eru algerlega út í bláinn, svo sem auðvelt er að sjá af þeim upplýsingum, sem ég nú hef gefið. Slíkt frv. var ekki mögulegt að leggja fram vegna þess, að við urðum að ráðstafa greiðsluafganginum, jafnóðum og hann féll til, greiðslur, sem Alþ. sjálft hefur settlög eða gefið á annan hátt fyrirmæli um að skuli inntar af höndum.

Eins og ég sagði áðan, þegar ég gaf skýrsluna, þá getur það verið álitamál, hvort sumar þessar fjárhæðir, eins og t. d. það, sem fest er vegna togarakaupanna, eiga að teljast með ráðstöfun á greiðsluafgangi eða hreint og beint færast á greiðslureikninginn sem útgjöld. Það er þó vitaskuld meira formsatriði en efnis. Hitt er aðalatriðið, að þessar greiðslur varð að inna af hendi, og í það fer greiðsluafgangurinn.