10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (3534)

Fjárhagur ríkissjóðs 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru fáein orð út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sagði. Hann tók í sama streng og hv. 4. þm. Reykv. (HG), að stjórnin hefði átt, eins og hann kallaði, að hafa samráð við Alþ. um það, til hvers væri notaður sá afgangur, sem orðið hefði á árinu. Og hann sagði: Þessar greiðslur, sem greiddar hafa verið, eru meira og minna nauðsynlegar, en var ekki eitthvað annað, sem þurfti að greiða jafnvel fremur og átti að sitja í fyrirrúmi? Og hann spurði: Skuldar ekki ríkissjóður annað en það, sem nú hefur verið greitt af þessum afgangi, og átti þá ekki eitthvað af því að koma til greina? Hann spurði: Skuldar ekki ríkissjóður vegna skólabygginga, vegna hafnarframlaga og þess konar? Ég vil nú benda hv. þm. á það, sem honum er sjálfsagt ljóst, að ríkissjóður á að vísu að leggja fram til skólabygginga og hafnargerða, en það er tekið fram í þeirri löggjöf, sem um það fjallar, að ríkissjóður á að leggja fram til þessara mála eftir því, sem veitt er fé til þess á fjárlögum. Hann skuldar því aldrei annað en það, sem veitt hefur verið á fjárlögum í þessu skyni, ef svo mætti að orði komast. Ég veit, að hv. þm. skilur það, þegar bent er á það, ef við tökum t. d. greiðsluna af láninu fyrir togarana, sem er nærri 7 millj., að þá gátum við ekki sagt við lánardrottnana: Ríkissjóður Íslands getur ekki borgað af þessu láni, af því að það þarf að auka fjárframlög til skólabygginga. — Það verður að standa í skilum. Við gátum ekki heldur sagt við forráðamenn þeirra bæjarfélaga, sem áttu togara, sem þingið ályktaði að skyldi forða undan hamrinum: Við getum ekki lagt þetta fé fram, vegna þess að við þurfum að láta það í annað. — Alþ. vildi láta koma í veg fyrir, að það yrðu eigendaskipti á þessum togurum, og við urðum að útvega féð, og við urðum að taka það hjá ríkissjóði, þegar ekki var hægt að fá það að láni beint handa þessum fyrirtækjum. Hér var ekki um neitt annað að ræða.

Svona má halda áfram og taka greiðslurnar, því að hér var yfirleitt ekki um neitt svigrúm að ræða, einmitt vegna ráðstafana Alþ. Við getum tekið t. d. fyrirframgreiðsluna vegna sementsverksmiðjunnar. Við gátum ekki stöðvað allan þann undirbúning. Við urðum að halda áfram með hann, þó að við yrðum að taka af afganginum til þess að greiða fyrir fram. Og við gátum ekki heldur sagt forráðamönnum þeirra bæjar- og sveitarfélaga, sem sóttu sterkast á að fá atvinnuaukningarframlög sín nú strax í haust, en áttu að fá þau á árinu 1954: Við getum ekki gert það, vegna þess að við þurfum að láta féð í annað. — Þetta var það aðkallandi, knýjandi, að það var ekkert val. Og þetta var gert eftir heimild Alþ. Alveg eins er með greiðsluna á lausaskuldinni til landhelgissjóðs og eldgamalli vanskilaskuld vegna fiskiðjuversins. Það var ekkert val. Við urðum að greiða þetta. Við gátum ekki sagt forráðamönnum landhelgissjóðs og ekki heldur forráðamönnum björgunarskipsmálsins fyrir norðan, að það væri ekki hægt að borga þessa skuld, af því að féð yrði að fara í annað,

Þannig var þessum greiðsluafgangi blátt áfram ráðstafað fyrir fram, og það er ekki hægt að ráðstafa tvisvar sömu fjárhæðunum. (Gripið fram í.) Hv. 2. þm. Reykv. spyr, hverjum ríkissjóður hafi skuldað vegna fiskiðjuversins, í Landsbankanum. Ég sé, að hv. 2. þm. Reykv. brosir. Ég veit það er vegna þess, að hann lítur svo á, að það eigi aldrei að borga Landsbankanum neitt, og þess vegna finnst honum það léttvæg röksemd, þó að hér hafi verið vanskilaskuld í Landsbankanum. En þannig lítur hv. Alþ. ekki á, heldur lítur það þannig á, að það eigi að standa í skilum með skuldbindingar ríkisins, ekki síður þó að Landsbankinn eigi í hlut.

Ég vona, að hv. þingmenn átti sig á því, að þessi gagnrýni, að hér hafi verið farið fram hjá Alþ. og vanrækt að leggja fram sérstakt frv. um greiðsluafganginn, á ekki við nokkur rök að styðjast, af því að þessu fé var öllu ráðstafað í samræmi við yfirlýstan vilja Alþ. og á þann hátt, sem óumflýjanlegur var. Hitt er svo annað mál, en ljóst af þessu, að hefðu fjárl. verið óvarlegar afgreidd en þau voru, þá hefði okkur rekið upp á sker fjárhagslega.

Ég kann afar illa við það, þegar hv. 2. þm. Reykv. er að tala um, að það tíðkist meira og meira að fara fram hjá Alþ. við ráðstöfun fjár. Þetta er algerlega rangt, hrein staðleysa, og þarf ekkert annað en að fara í gegnum uppgjör síðari ára og bera þau saman við eldri uppgjör. Og á síðasta ári urðu nokkuð óvenjulegar umframtekjur, en samt hefur tiltölulega minna fé verið ráðstafað á því ári umfram það, sem beinar alþingissamþykktir lágu fyrir um, heldur en oftast áður. Þetta vildi ég sýna áðan með hinum mikla prósentureikningi, sem hv. 4. þm. Reykv. var að kvarta undan. Ég benti nefnilega á það í framsöguræðu minni hér áðan, af því að ég vissi svona hér um bil, við hvaða tón mundi kveðið, og það er kallað að setja fyrir fram undir lekann, að samkvæmt yfirlitinu hafa umframtekjurnar orðið 89 millj., það sem ég hef kallað greiðsluafgang, sem öllum er ráðstafað í nánu samræmi við fyrirmæli Alþ., 37 millj., og greiðslur samkvæmt sérstökum l. og heimildum frá Alþ., þál. og sérstöku samráði við fjvn. nema 23 millj., og eiginlegar umframgreiðslur væru þess vegna raunverulega um 29 millj., eða rétt 7%. Þá er það svo sem ekki eins og þessar umframgreiðslur, þessar 29 millj., séu eitthvað, sem stjórnin hefur fundið upp á að kasta út úr ríkissjóði, heldur er meginhlutinn af því lögboðnar greiðslur og með samþykki Alþ. Ég benti t. d. á það, að dýrtíðargreiðslur hafa farið fram úr áætlun um 10 millj. og 200 þús., og það vita allir, að niðurborgun innlendra vara var ákveðin með vilja Alþ., í sambandi við verkfallslausnina síðustu. Þá voru greiðslur eins og umframgreiðslur á jarðræktarlögum, það eru lögboðin útgjöld, og til sýsluvega og vegna fjárskiptanna, afborgun af föstum lánum, og þannig væri hægt að telja enn fleiri fjárhæðir en ég hef gert til þess að sýna það, hvað sáralítill hluti af umframgreiðslunum er raunverulega umframgreiðslur í þeim skilningi, að stjórnin hafi ákveðið þær umfram það, sem þingið hefur gert, — ekki nema sáralítið brot. Og sem betur fer, er það algerlega úr lausu lofti grípið, að það tíðkist meir og meir að fara fram hjá Alþ. í þessu tilliti, heldur hefur þróunin verið alveg í öfuga átt síðustu ár, einmitt í þá átt að fylgja betur fyrirmælum Alþingisfjármálum, og ef þessum hv. þm. er þetta ekki ljóst, þá ættu þeir að fara heim og læra betur.