10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (3535)

Fjárhagur ríkissjóðs 1953

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, það hefur sjálfsagt enga þýðingu. En ég má til með að leiðrétta það, sem ég hygg að hafi byggzt á misskilningi hjá hæstv. ráðh., að ég hafi veitt honum sérstök ámæli fyrir það, að hann sá ekki fullkomlega fyrir, hvernig útkoma ársins 1953 mundi verða. Ekki var það nú ætlun mín beinlínis. Ég skil vel, að hæstv. ráðh., eins og þm. vita, vill gera sínar áætlanir varlega og heldur láta skakka á þann veginn, að tekjurnar verði meiri, en ég leyfði mér að skopast að spádómsgáfu hæstv. ráðh., því að víst er það, að hann hafði í frammi spádóma um það, hver útkoman mundi verða á árinu 1953, en reynslan hefur orðið mjög fjarri því, sem hann þá spáði. Þó verð ég að segja, að það er ekki nema eðlilegt og ætti að vera réttmætt, að alþm. yfirleitt geri ráð fyrir því, að fjmrh. hafi gleggri yfirsýn yfir viðskiptaatriði og fjárhagslíf ákveðinn tíma, hafi um það fyllri skýrslur og gögn og upplýsingar heldur en þm. almennt og eigi því að standa betur að vígi en þeir að meta horfurnar, þegar fjárl. eru samin. Við afgreiðslu fjárl. kom það fram, að spádómar hæstv. ráðh. í þessu efni voru nokkrir aðrir en mikils hluta þingsins, en reynslan hefur sýnt, að spádómar þeirra, sem töldu fært að áætla tekjurnar meiri, hafa orðið nær því rétta heldur en spádómar hæstv. ráðh. Því leyfði ég mér að spaugast dálítið að hans miklu spádómsgáfu, sem hann bauð hér í þinginu.

Það er ekki heldur rétt, að ég hafi sagt, að hæstv. ráðh. væri að eigna sjálfum sér og góðri fjármálastjórn, hvað tekjurnar fóru mikið fram úr áætlun. Ég sagði, að hann væri svo alkunnur að hæversku og laus við raupsemi, að hann hefði nú ekki gert þetta, að hæla sér sjálfum af því, — hvað hann kann að hafa hugsað sjálfur, það sagði ég ekkert um, en ég er nú ekki frá því kannske, að hann hafi hugsað, að það væri nú ekki víst, að útkoman hefði orðið jafngóð, ef einhver annar en hann hefði setið í ráðherrastólnum. En ég leyfði mér ekki að segja neitt um það áðan. En sem sagt, hugleiðingar hæstv. ráðh. í þessu efni vil ég ekki sverja fyrir að hafi hnigið í þessa átt.

Það, sem ég deildi á ráðh. fyrir og taldi hann ámælisverðan fyrir, var að ráðstafa öllum þessum miklu umframtekjum án þess að leita til þess samþykkis þingsins, og mér virðist á þeim stuttorðu andsvörum, sem hæstv. ráðh. gaf mér, að hann hafi sjálfur áréttað þessi ummæli mín mjög kröftuglega. Hann taldi upp hér eina tíu útgjaldaliði og spurði mig og væntanlega þingheim um leið: Átti ég að neita þessu, átti ég að synja þessu o. s. frv.? Ég neita að svara slíkum spurningum. Mér er alls ókunnugt um þessi mál, nema eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf hér, og þær voru það stuttorðar og gáfu það litlar upplýsingar, að ég hygg, að enginn þingmaður hafi treyst sér eftir þeim upplýsingum til að meta, hvort það átti að láta þessar greiðslur ganga fyrir einhverjum öðrum greiðslum, sem var alveg jafnréttmætt að tekið væri tillit til, ef fénu var ráðstafað á annað borð á þennan hátt. (Gripið fram í.) Ég er alveg sammála því. Því segi ég, að um þetta átti að leggja fram fyrir Alþ. frv. til þess að kveða á um, hvernig afganginum skyldi varið.

Hæstv. ráðh. segir, að hann hafi orðið að borga ýmsar skuldir. Ég vil ekki rengja þetta. Ég veit ekki, hvað það hefur verið aðkallandi, hann upplýsti það ekki. En ég vil minna hann á það, að í fjárlfrv. fyrir árið 1953 er ákveðin upphæð ætluð til skuldaafborgana, og sú upphæð er venjulega tekin eftir till. hæstv. ráðh. í frv., nema alveg sérstakar viðbótarupplýsingar komi. Hæstv. ráðh. hlýtur að vera allra manna kunnugast um það, þegar hann semur sitt fjárlfrv., hvaða skuldir fellur á ríkissjóð að greiða á fjárlagaárinu, og sé nokkuð meint með því að vera að semja fjárlfrv. og ákveða þennan lið, þá er ætlunin, að á hann sé tekið í frv. það, sem ráðh. veit að kemur til greiðslu, og að því sé fylgt og sérstakrar heimildar aflað til að greiða það, sem síðar kynni að koma í ljós að þyrfti að greiða. Svona mætti segja um hvern einstakan lið.

Ég verð að fullyrða, að með því að ráðstafa fénu eins og hér hefur verið gert, þá hefur ráðh. tekið í sínar hendur eða ríkisstj. vald til þess að meta það, hverjar greiðslur skuli inntar af hendi og. hverjum skuli ýtt til hliðar, en það er á valdi Alþ. eins, að réttu framferði, að ákveða um þetta.

Hæstv. ráðh. nefndi togaralánin í Englandi, sem við höfum orðið að greiða. Vítaskuld varð að greiða þau. En ætlar hæstv. ráðh. að reyna að telja mér trú um það eða þingheimi, að hann hefði ekki getað flutt þessa skuld inn í innlendan banka á sama ári sem hann hefur lækkað lausaskuldir til bankanna — ég man ekki um hvað margar millj. umfram það, sem fellur undir afborganaliðinn í fjárl. Ég læt mér ekki detta í hug, að ekki hefði verið hægt að semja um það við bankana að flytja skuldina hingað að öllu eða einhverju leyti, þangað til Alþ. væri búið að kveða á um það, hvort og hvenær féð skyldi greitt úr ríkissjóði.

Svona mætti taka upp hvern einstakan lið af þeim, sem ráðh. hefur talið upp, og segja: Það er matsatriði, hvort heldur skyldi gert þetta, leyst málið á þennan veg eða hinn. — Það á ekki að vera matsatriði hæstv. ríkisstj.; það á að vera matsatriði Alþ. Til þess er verið að setja fjárlög. Ef fylgja ætti kenningum hæstv. ráðh., þá mætti í raun og veru álíta, að í sjálfu sér væri nokkurn veginn óþarft að vera að setja fjárlög. Það eru lög til þess að skipa fyrir um ýmsar greiðslur, samkvæmt þeim er greitt. Hitt yrði svo stjórnin að meta á hverjum tíma, nauðsyn og gagnsemi. Mér dettur ekki í hug, að hæstv. ráðh. vilji halda því fram, að svona ætti það að vera, en afleiðingin er líka sú, að það er alveg óeðlilegt og gagnstætt réttum þingræðisháttum, að fimmta hluta af tekjum ríkisins sé ráðstafað eftir geðþótta stjórnarinnar, án þess að Alþ. sé kvatt til þess að segja þar til um.