10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (3536)

Fjárhagur ríkissjóðs 1953

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. minntist á, að sér hefði nú ekki borið skylda til þess að taka tillit til þess, sem bæjarfélögin úti á landi hefðu þurft á að halda að fá í greiðslur upp í það, sem þau væru búin að leggja fram í hafnarbætur, skólabyggingar eða annað slíkt. Hæstv. fjmrh. getur ekkert sagt um það, ef lagafrv. hefði verið lagt fyrir Alþ. viðvíkjandi ráðstöfun á tekjuafgangi, nema Alþ. hefði viljað ráðstafa meiru en það hefur gert áður til greiðslu til bæjarfélaganna úti um land uppslíkar skuldir ríkisins. Hann veit ósköp vel, að þegar síðast var lagt fram frv. um ráðstöfun tekjuafgangs, þá var það einmitt knúið fram af alþm., að það væri þó nokkur upphæð, sem þar væri ráðstafað til þess að borga áfallnar skuldir ríkissjóðs.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að vesalings ríkisstj. hefði ekkert val átt, hún hefði staðið svona ógurlega að vígi, — og hæstv. forsrh. fór að hjálpa honum, — það hefði bókstaflega verið hengingarvíxill, sem ríkisstj. hefði verið í. Hún hefði ekkert val átt, hún hefði orðið að borga fyrir fiskiðjuverið — og ég gæti trúað að það hafi nú verið fleira — víxla til Landsbankans. Svo bættist það nú við, að þar að auki hefði ríkissjóður orðið að borga 7 millj. kr. afborgun af togaralánunum í Bretlandi. Nú vil ég segja hæstv. fjmrh., ef hann hefði lagt þetta mál hér fyrir Alþ., að þá hefur það a. m. k. komið fyrir hér á Alþ., að þingið hefur ákveðið að skylda Landsbankann til þess að leggja fram að láni ákveðnar háar upphæðir til þess að greiða fyrir togarakaup til landsins. Það var gert hér fyrir 8 árum, ákveðnar 100 millj. í þessu skyni, og það er ómögulegt að segja, og ég get þvert á móti trúað, að það hefði verið kannske meiri hluti fyrir því hér á Alþ. um þessar 7 millj. kr., sem núna eru allt í einu lagðar fram af greiðsluafgangi ríkissjóðs, að það hefði bara verið sagt við Landsbankann af húsbónda hans, Alþingi: Þessu bætið þið við úr stofnlánadeildinni. — Það er ekki til neins að segja okkur þingmönnum, að ríkisstj. eigi ekkert vaf í svona efnum. Alþ. er húsbóndi Landsbankans, sem getur ákveðið, hvernig þetta er gert. Alþ. veit, að Landsbankinn hefur á hverju ári á milli 30 og 40 millj. kr. í tekjuafgang. Alþ. getur ákveðið, ef það álítur það nauðsynlegt, t. d. vegna togaraútgerðar landsins, að það skuli bætt við 10 millj. kr. í stofnlánadeildina og að það skuli lána út með þeim vöxtum, sem þar er ákveðið, 2%, til þess að greiða togara. Það er ekki til neins að koma hér til okkar og segja okkur, að ríkisstj. hafi ekkert val. Hún hefur það val að segja við Alþ.: Á ég að fara að greiða upp 10–20 millj. til Landsbankans, eða á ég að láta Landsbankann lána þetta? — Landsbankinn er ekki einhver einkabanki nokkurra auðmanna, sem geta sett ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar, eins og Alþjóðabankinn er að reyna að gera viðvíkjandi sementsverksmiðjunni eða öðru slíku og Marshall er að reyna að gera stundum. (Gripið fram í: Og Unilever.) Þeir eru nú farnir að skipta sér lítið af því núna upp á síðkastið, þeir gerðu það einu sinni. En ég vil, fyrst það er komið til umr. hérna, leyfa mér að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, að fulltrúi Englands í Alþjóðabankanum var núna nýlega að mótmæla því, að Alþjóðabankinn væri að gera það að skilyrði, að fyrirtæki, sem Alþjóðabankinn lánaði til í ýmsum löndum, væru ekki ríkisfyrirtæki, heldur einkafyrirtæki, og fulltrúi Bretlands, eftir því sem ég skildi útvarpsfréttina, lýsti því yfir, að Alþjóðabankinn ætti ekki að vera að skipta sér af, hvers konar rekstrarfyrirkomulag væri í þeim ríkjum, sem Alþjóðabankinn lánaði til. Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á þetta til þess að reyna að gera hennar hrygg ofur lítið beinni, þegar hún færi að tala við Alþjóðabankann næst, eftir að hann er búinn að setja henni þessi skilyrði, að það verði að taka sementsverksmiðjuna úr ríkiseign, svo framarlega sem það eigi að veita lán. Fyrst hæstv. ríkisstj. var að skjóta þessu hérna inntil umr., þá vildi ég um leið gefa henni þessar leiðbeiningar. E. t. v. væri þá kannske líka óþarfi að vera að taka þessar 2 millj., sem voru teknar í sementsverksmiðjuna af greiðsluafganginum; það hefði kannske verið hægt að slá það út í viðbót þarna, ef ríkisstj. er sjálfri nægilega ljóst, að henni sé óhætt að vera nokkuð harðvítug í þessum efnum.

Svo vildi ég aðeins segja það við hæstv. fjmrh. út af því, að hann var að segja, að það hefði ekki verið rétt hjá mér, að það væri verið að fara meir og meir fram hjá Alþ., að það hefur aldrei nokkurn tíma tíðkazt, að það hafi verið farið eins mikið fram hjá Alþ. og nú þessi síðustu þrjú árin í sambandi við bátagjaldeyrisálagið, og það er ekki aðeins það, að farið hafi verið fram hjá Alþ. (Fjmrh.: Þetta er eins konar björgunarbátur fyrir þm., þetta bátagjaldeyrisálag.) Nei, það er ekki björgunarbátur. Það er alvarlegasta fjármálafyrirbrigði, sem gerzt hefur í íslenzkum stjórnmálum, að þvert á móti ákvæði stjórnarskrárinnar, þeim ákvæðum, sem eru grundvöllur að öllu því valdi, sem öll þing hafa verið að berjast fyrir gagnvart ríkisstjórnum, valdinu til þess að ráða ein álögunum á landsmenn, þá er lagt á landsmenn, lengst af án þess að nokkur lög heimili það, yfir 100 millj. kr. á ári, eða upp undir það, og innheimt án þess að ríkinu sé gerð nokkur grein fyrir því. Það er alvarlegt fyrirbrigði. Það er fyrirbrigði, sem minnir á aðalskúgun og einvalda hér á landi fyrrum, en ekki á neina þingræðisstjórn, og það er ekki fyrir hæstv. fjmrh. að gera neitt grín að þeim hlutum. Hins vegar er það máske eðlilegt, að ekki sízt hæstv. fjmrh., sem kinokar sér nú venjulega við að svara því, en er að reyna að taka úr ríkissjóði eign, sem ríkissjóður á, eins og áburðarverksmiðjuna, upp á 125 millj. kr., og afhenda hana einkaaðilum, að honum finnist það eðlileg aðferð að leggja án nokkurra laga um 100 millj. kr. á almenning í landinu og úthluta því til einstakra manna í landinu, án þess að það komi nokkurn tíma til þingsins kasta.

Ég held, að ég hafi haft fulla ástæðu til þess að kvarta yfir þessum aðferðum og að því miður geti hæstv. fjmrh. ekki borið af sér þá gagnrýni.