10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (3537)

Fjárhagur ríkissjóðs 1953

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég mun verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að verða ekki mjög langorður.

Eins og hv. þm. hlýtur að vera ljóst, eru að sjálfsögðu engin tök á því að ræða ýtarlega þá skýrslu, sem hæstv. fjmrh. hefur hér lagt fyrir þingið án þess að þm. ættu annars kost en að hlýða á hana, en hefðu hana ekki prentaða fyrir sér.

Stjórnarandstaðan hefur brugðizt þannig við þessari skýrslu hæstv. fjmrh., — ég vil segja brugðizt svo drengilega við þessari skýrslu, að hún hefur talið sér skylt eða talið ástæðu til að þakka fyrir það, að hún skyldi hér fram lögð.

Ég vil taka undir þessi ummæli stjórnarandstöðunnar, til þess að það megi greinilega fram koma, að stjórnarandstaðan er það heiðarleg og kann það vel að meta það ástand, sem skapazt hefur í okkar landsmálum hin síðustu ár, að hún telur ástæðu til að þakka fyrir það, þegar hæstv. ríkisstj. innir skyldustörf sín af höndum.

Af ræðu hæstv. fjmrh. kom það greinilega í ljós, sem ég hef nokkrum sinnum haldið fram hér á hinu háa Alþ., að raunveruleg fjárlög eru engin til í þessu landi. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi, að tekjur ríkissjóðs hefðu á árinu 1953 farið 88 millj. kr. fram úr áætlun, eða um 21%, eins og hann orðaði það. Það þarf enga spekinga til að sjá, að áætlun, sem er röng um 21%, þ. e. a. s. rúmlega einn fimmta hluta, er engin áætlun, hún er vitleysa. Þannig hefur þetta til gengið nokkur undanfarin ár, að hv. þm. stjórnarflokkanna hefur verið skipað hér á hinu háa Alþ. að samþykkja vitlausar áætlanir, sem hæstv. fjmrh. hefur látið sér sæma að leggja fyrir þingið, vísvitandi rangar, eins og ég einu sinni orðaði það og gæti sannað hvenær sem er. Þeir, hv. þm. stjórnarflokkanna, hafa látið sér sæma að samþ. þetta ár eftir ár og bjóða þjóðinni upp á þetta sem fjárlög. Ég efast um, að dr. Schacht, sem var fjmrh. á Hitlerstímabilinu í Þýzkalandi, hafi nokkurn tíma haft jafnfullkomið einræði í fjármálum landsins og hæstv. ríkisstj. Íslands hefur haft undanfarin ár. Og síðan, þegar hæstv. fjmrh. kemur og segir frá, hvernig hans áætlanir hafi nú reynzt, þá er viðkvæðið: Það var óvenjulega gott tekjuár, — og: Ætluðust hv. þm. til, að ég væri svo forspár, að ég gæti sagt fyrir, hvernig hitt og þetta mundi fara, ári áður en það átti að gerast? — Nei, þm. ætluðust aldrei til þess, að hæstv. fjmrh. yrði forspár eða væri spámaður. Þeir vita það af langri reynslu, að hann er ekki spámannlega vaxinn. En þeir ætluðust til hins, að hann hefði aldrei tekið að sér embætti fjmrh. án þess að vera nokkurn veginn fær um að gegna því.

Ég lofaði hæstv. forseta því að vera stuttorður, og ég ætla að efna það. Ég ætla aðeins að nefna tvö atriði til viðbótar. Í ræðu sinni hér áðan, þegar hæstv. fjmrh. var að svara hv. 4. þm. Reykv., sagði hann m. a.: Átti ríkissjóður að neita að greiða af togaraláninu í. Englandi? Átti hann að neita að greiða af hinum og þessum lánum? Og hann bætti við: Hvernig átti hann að greiða þetta öðruvísi en hann gerði, þar sem hann hafði ekki annað upp á að hlaupa en umframtekjurnar? En með leyfi að spyrja: Hvað ætlaði ríkissjóður að gera, ef umframtekjurnar hefðu engar orðið? Ætlaði hann þá að neita að greiða togaralánin í Englandi? Ætlaði hann þá að neita að greiða til togaranna í bæjarfélögunum úti á landi o. s. frv.?

Þá vildi ég og benda á, að hæstv. fjmrh. gat þess hér, að nú væri geymt fé til eins og annars samkvæmt fyrirmælum Alþ., þ. e. a. s. samkvæmt heimild í fjárl. fyrir árið 1954. Hæstv. fjmrh. virðist hafa gleymt því, að þetta var samkvæmt heimild í fjárl. 1954, og Alþingi ætlaðist til þess, að þetta fé yrði útlagt á árinu 1954, af tekjum þess árs, en ekki af tekjum ársins 1953. þetta er aðeins lítið dæmi, en sýnir þó, hvernig hér er á málum haldið.

Varðandi upphæð eina, sem er þó nokkuð há, um greiðslur vegna ábyrgðar ríkissjóðs á togaraútgerð úti á landi, væri að vísu ástæða til að fara nokkrum orðum, því að það er grunur ýmissa manna, að þar hafi öðruvísi verið á haldið en skyldi og að í sumum tilfellum hafi þar verið fé ausið úr ríkissjóði beinlínis í sambandi við kosningar, — það hafi verið ausið fé úr ríkissjóði í togaraútgerðir, mjög vafasamar, til að gera við gamla togara fyrir einstök bæjarfélög eða kauptún, jafnvel þorp, síðan hafi þessum togurum verið skilað aftur að kosningum loknum og þeir liggi nú og bíði þess að vera teknir í brotajárn fyrir lítið fé, en fjármunir ríkissjóðs búnir að hafa sín áhrif í kosningunum. Eitt er ljóst og hefur raunar komið hér fram, og það er það, að hæstv. ríkisstj. hefur að sjálfsögðu enga heimild til að greiða eitt né neitt úr ríkissjóði, nema með samþykki Alþingis. — Ég mun láta þessi fáu orð nægja.