10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

Fjárhagur ríkissjóðs 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það voru aðeins tvær eða þrjár setningar. Hv. 8. landsk. þm. (BergS) er sífellt að fárast út af því, að áætlanir á tekjum fjárlaganna séu fyrir fram vísvitandi gerðar allt of lágar, og hefur í því sambandi mörg stór og óvægileg orð. Ég ætla ekki að fara langt út í þetta. Ég ætla aðeins að upplýsa, að reynslan sýnir, að þessar fjárlagaáætlanir á tekjum ríkissjóðs hafa yfirleitt ekki mátt óvarlegri vera. Reynslan sýnir það. Afkoma ríkissjóðs undanfarið hefur ekki mátt lakari vera en hún hefur orðið.

Hv. 4. þm. Reykv. (HG) sagðist neita að svara því, hvort átt hefði að greiða greiðslur þær, sem taldar voru ráðstafanir á greiðsluafgangi, eða ekki, því að hann hefði ekki getað kynnt sér málið. Ef þetta er rétt hjá hv. þm., þá finnst mér, að hann hefði ekki heldur átt að fella þá ákveðnu dóma um þetta, sem hann hefur upp kveðið.

Að lokum vil ég taka fram, að mér finnst ekki þægilegt að rökræða við menn, sem fyrst samþ. á Alþ., að leggja skuli fram fé í tilteknu skyni, ráðast síðan á ríkisstj. fyrir að inna þessar greiðslur af hendi og fullyrða í þokkabót, að með því sé gengið fram hjá Alþ.