13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (3546)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Áður en ég fór utan í fylgd forseta Íslands á dögunum, lét ég þess getið hér á hv. Alþingi, að ég gerði ráð fyrir að koma aftur 12. þ. m. og að ég mundi þá geta skýrt frá niðurstöðum samkomulags milli Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd varnarmálanna, sem unnið hefur verið að síðan í byrjun febrúar. Hafði ég fulla ástæðu til að líta svo á, að þá yrði endanlega frá öllu gengið. Af ástæðum, sem íslenzkum stjórnarvöldum eru með öllu óviðráðanlegar, hefur þetta á hinn bóginn farið svo, að ekki er enn þá endanlega búið að staðfesta samkomulagið, og því get ég ekki gefið hv. Alþingi skýrslu á þann hátt að greina frá einstökum atriðum málsins.

Samkomulagið er að vísu tilbúið af hendi hinna íslenzku og bandarísku fulltrúa, sem að því hafa unnið af hálfu ríkisstjórnanna, en staðfestingu vantar á nokkrum atriðum af hálfu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Það er nóg til þess, að mér er með engu móti fært að gera grein fyrir málinu efnislega. Þykir mér það miður, og hef ég gert allt, sem í mínu valdi stendur til þess að hraða svo málinu, að ég geti gefið hv. Alþingi efnislega skýrslu, áður en það lýkur störfum. Á hinn bóginn veit ég, að allir skilja það, að ég hef ekki viljað vinna það fyrir aukinn hraða á málinu að fá í nokkru atriði lakari niðurstöðu en ella.

Ég tel rétt í þessu sambandi að greina nokkuð frá aðdraganda og meðferð málsins.

Með orðsendingu, sem ég afhenti sendiherra Bandaríkjanna í Rvík 4. des. 1953, var farið fram á það af hálfu Íslands, að teknar yrðu upp viðræður milli ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bandaríkjanna um nokkur tiltekin atriði varðandi herverndarsáttmálann frá 5. maí 1951 og framkvæmd hans. Var þessi upptaka málsins í samræmi við yfirlýsingu, er ég flutti á Alþingi 19. okt. s. l. Í orðsendingunni var sérstaklega óskað viðræðna um brottflutning erlendra verkamanna, færslu framkvæmda fyrir varnarmálin yfir á íslenzkar hendur, aðgreiningu dvalarsvæða varnarliðsins og dvalarsvæða Íslendinga, sem vinna á samningssvæðunum, takmörkun í samskiptum varnarliðsmanna og Íslendinga, aðstöðu íslenzkra ríkisstofnana til starfsemi á Keflavíkurflugvelli og ný vandamál í sambandi við hinar fyrirhuguðu radarstöðvar. Orðsendingunni fylgdi ýtarleg skrifleg grg. um framkvæmd sáttmálans árin 1951–53 og íslenzk sjónarmið í því máli.

Hinn 21. des. s. l. tjáði Bandaríkjastjórn íslenzku ríkisstj., að Bandaríkin hefðu fallizt á að hefja viðræður og að viðræðurnar færu fram hér á landi. Fulltrúar Bandaríkjanna komu hingað um mánaðamótin jan.-febr., en viðræðurnar milli fulltrúa íslenzku ríkisstj. og Bandaríkjastjórnar hófust í Rvík 2. febr. Fulltrúar Íslands í viðræðunum auk mín voru tilnefndir alþm. Hermann Jónasson og Björn Ólafsson, Ólafur Jóhannesson próf., Magnús V. Magnússon skrifstofustjóri í utanrrn., Tómas Árnason fulltrúi í varnarmáladeild utanrrn. og Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur. Af hálfu Bandaríkjanna áttu þátt í samningaviðræðunum sendiherra þeirra hér á landi. Edward B. Lawson, ásamt fulltrúum frá utanrrn. og hermálaráðuneyti Bandaríkjanna. Eftir að líklegt þótti, að samkomulag mundi nást í meginatriðum, hef ég og sendiherra Bandaríkjanna aðallega unnið að því, ásamt starfsmönnum okkar, að ganga frá samkomulaginu í einstökum atriðum. Leitað hefur verið álits íslenzkra sérfræðinga og stofnana um ýmis atriði, eftir því sem nauðsyn þótti til bera.

Eins og ég gat um áðan, hef ég í útvarpsræðu á Alþingi gert grein fyrir höfuðatriðum þeim, sem af hálfu íslenzkra stjórnarvalda yrði lögð áherzla á í viðræðum um framkvæmd varnarmálanna. Hafa umræður af okkar hendi verið byggðar algerlega á þeim grundvelli.

Ég vil gjarnan við þetta tækifæri endurtaka það, sem ég sagði áður en ég fór í utanlandsförina nú um daginn, að ég hef fulla ástæðu til að vona og tel mig raunar geta treyst því, að kröfur þær, sem gerðar hafa verið af okkar hendi, nái í aðalatriðum fram að ganga og viðunandi samningar náist.

Að lokum vil ég taka það skýrt fram, að ég mun skýra landsmönnum frá niðurstöðum samkomulagsins jafnskjótt og það hefur verið endanlega staðfest.