13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (3547)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Einar Olgeirsson:

Hæstv. utanrrh. hefur nú gefið sína skýrslu. Ég skil það vel, að honum þykir leitt að geta ekki gefið Alþ. betri skýrslu en þá, sem hér liggur fyrir okkur nú og raunverulega engin skýrsla er, en ég vildi leyfa mér að beina þeirri spurningu til hans og til hæstv. ríkisstj., hvort utanrmn. hefði verið látin fylgjast með í þeim samningum, sem fram hafa farið við fulltrúa Bandaríkjanna. Nú hefur Alþ. setið um nokkurn tíma. Utanrmn. er sérstaklega til þess kosin að fylgjast með þeim samningum, sem snerta utanríkismál, en mér er nær að halda, að utanrmn. hafi ekki fengið að fylgjast svo með þessum samningum sem skyldi.

Ég vil taka það fram, að það hefur tíðkazt hér á Alþ. hvað eftir annað í sambandi við veigamikil mál, að ríkisstjórnir hafa séð ástæðu til þess, ekki aðeins að láta utanrmn. fylgjast með þeim málum, sem eru að gerast, heldur líka að kveðja saman Alþ. og á lokaðan fund, ef um trúnaðarmál er að ræða. Það þótti sjálfsagt hér nýlega í sambandi við handritamálið að kalla saman lokaðan fund hér á Alþ., og þá urðu menn að vera ákaflega fljótir viðbragðs. En nú hafa staðið yfir frá því í október samningar við Bandaríkjastjórn viðvíkjandi framkvæmdum hér á Íslandi, sem skipta okkur ákaflega miklu máli. og það hefur aldrei verið haft fyrir því að kalla saman svo mikið sem einn einasta lokaðan fund á Alþ. til þess að skýra alþm. frá því, sem þarna er að gerast. Ég álít, að það geti ekki gengið, að svona haldi þetta áfram. Það verður að fara að meðhöndla þessi mál, sem snerta okkar utanríkismál við Bandaríkin, alveg eins og öll önnur utanríkismál. Ef hæstv. ríkisstj. álítur ástæðu til þess, eins og í sambandi við handritamálið, að kalla saman lokaða fundi hér á Alþingi, þá er ekki síður ástæða til þess í sambandi við þá samninga, sem standa yfir nú við Bandaríkin. Og ég vil minna menn á, að þó að deilt hafi verið harðlega um þá samninga, sem þegar hafa verið gerðir, þá mundi það að öllu leyti, svo framarlega sem ríkisstj. vill eitthvað fara að bæta úr þeim yfirsjónum, sem áður hafa verið gerðar í þessum málum, styrkja hana í slíkri viðleitni að hafa samráð við Alþ. um það, sem gert yrði á þessu sviði.

Ég hef nokkuð bent á það í sambandi við meðferð málsins á frv., sem nú er orðið að lögum, um lögreglustjóra í Keflavík, hvers konar aðferðir það væru, sem væri verið að innleiða í íslenzka löggjöf með þeirri ómynd, sem það frv. var. Það mál fékkst lítið rætt hér í þinginu. Mér. sýndist ríkisstj. standa allvarnarlaus uppi í því máli, og það virðist vera svo, að það eina, sem mönnum rennur nú virkilega til rifja, sé smánin af því að hafa þennan her suður á Keflavíkurflugvelli og sjá spillinguna, sem þessi her með sínum áhrifum veldur í okkar þjóðlífi. Þetta finnst mönnum að. En það hafa ekki komið fram nein ráð í neinum af þessum till., sem hæstv. utanrrh. lýsti hér áðan fyrir okkur, sem gætu komið í veg fyrir áframhald þeirrar spillingar og komið í veg fyrir, að sú smán haldi áfram að vera þar til. Það er aðeins eitt, sem getur komið í veg fyrir það, og það er uppsögn þessa samnings.

Ég hef bent á það áður, líka eftir að Framsfl. loksins fór að sannfærast um, að það væri nauðsynlegt að fá a. m. k. endurskoðun á samningnum, að til þess að standa sæmilega að vígi um að semja um endurskoðun fyrir þá, sem yfirleitt vildu gera samninginn aftur, þá væri eðlilegasta aðferðin að segja samningnum upp, þannig að Bandaríkin ættu þá undir okkur að sækja. Sannleikurinn er, að fyrir íslenzku ríkisstj. er ekki þörf á að semja við Bandaríkjastjórn eða slá af þeim kröfum, sem t. d. Framsfl. var að auglýsa í haust, þegar hann þóttist vilja gera mest í utanríkismálunum. Það er ekki þörf á að slá af þeim. Það er hægt að segja Bandaríkjastjórn: Þessa hluti viljum við láta gera, svona viljum við láta þetta vera á Íslandi, og svo framarlega sem ekki er fallizt á það, þá segjum við samningnum upp. — Þetta er hægt að gera, svo framarlega sem mönnum er full alvara um að knýja fram virkilega endurskoðun á samningnum. Þetta hefur hins vegar ekki verið gert, og ég er hræddur um, að þetta hafi frá upphafi skapað hæstv. utanrrh. og þeim af stjórnarliðinu, sem vilja einhverja endurbót á ástandinu þar syðra, alveg óviðunandi aðstöðu í þessum samningum. Að minnsta kosti er reynslan sú, að í 6 mánuði eða upp undir það eru þessir samningar búnir að standa. Að minnsta kosti eru orðnir 6 mánuðir síðan Alþingi kom saman og síðan verkum var skipt innan ríkisstj., og við erum enn litlu nær.

Við alþm. höfum aldrei góða reynslu af því, þegar sagt er við okkur, og ekki heldur þó að það sé sagt með fullkomlega góðum hug á síðasta degi þingsins: Við munum gefa skýrslu um þetta seinna meir, og við vonumst eftir því bezta. — Það hefur oft verið tekið dýpra í árinni við okkur, þegar menn hafa viljað losna við umr. um mál hér á Alþingi. Þess vegna þykir mér það mjög leitt, að við skulum nú ekki geta fengið að heyra nánar um þessi mál. Mér þykir leitt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki heldur hafa séð ástæðu til þess að ráðgast við utanrmn. sem heild um þetta, og mér þykir leitt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki heldur hafa séð ástæðu til þess að kalla saman lokaðan fund í Alþingi til þess að skýra alþm. frá, hvernig stæði eftir 6 mánaða samninga á þessu sviði. En ég veit, að svona verður Alþingi sent heim nú. Við vorum að ræða annað mál hér í dag, þá yfirvofandi stöðvun á togaraflotanum, það vandræðaástand, sem þar er að skapast. Ég benti á, hve óviðunandi það væri, að Alþingi væri sent heim án þess að finna lausnina og marka stefnuna í þessum málum. Nú á að senda Alþingi heim, án þess að búið sé að ljúka þessum samningum, sem svona lengi eru búnir að standa. Það er leitt, að Alþingi skuli hverfa þannig frá störfum, en eins og það er skipað, þá býst ég ekki við, að það fáist mikil bót á því.