13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (3548)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru fáein orð í tilefni af þeirri skýrslu, sem Alþingi hefur nú beðið alllengi eftir frá hæstv. utanrrh. og hann hefur nú gefið, — skýrslu, sem þó því miður er þannig úr garði gerð, að á henni verða ekki byggðar miklar almennar umræður um þá samningagerð, sem fram hefur farið. Ég hefði kosið að geta nú í þinglok, nú á síðustu klukkustundum almennra umr. í þingi, þakkað hæstv. utanrrh. fyrir það, ef hann hefði gefið Alþ. glögga og greinargóða skýrslu um þá samningagerð, sem fram hefur farið varðandi framkvæmd varnarsamningsins svonefnda, en því er nú ekki að heilsa. Á skýrslunni er því miður ekkert að græða. Hún segir raunverulega ekki annað en það, að enn sé ekki tímabært að skýra frá efni þessarar samningagerðar.

Ég get ekki látið hjá liða að fara nokkrum orðum um þá málsmeðferð, sem höfð hefur verið í sambandi við þessa samninga. Sú málsmeðferð er á margan hátt furðuleg og vítaverð. Það er vitað — allir hv. alþm. vita — að hér hafa legið fyrir Alþ. frá því í þingbyrjun þáltill. og frv. varðandi herstöðvasamninginn, — frv. og till., sem gengið hafa misjafnlega langt, ýmist um uppsögn samningsins og algeran brottflutning alls herliðs af Íslandi eða um endurskoðun samningsins og allróttækar breyt. á honum. Þessi mál hafa ekki hlotið afgreiðslu á hv. Alþ., þar til að lokum frv. var fellt nú fyrir tiltölulega skömmu.

Það hefði mátt ætla, að þegar tekið var að gera samning um framkvæmd margvíslegra atriða varðandi herstöðvasamninginn, þegar teknar voru upp samningaumleitanir, þá hefði hæstv. ríkisstj. talið það fremur til bóta heldur en hitt að vita vilja Alþ. í þeim efnum, og það hefði verið henni nokkur styrkur, ef hún hefði getað sýnt viðsemjendum sínum fram á þær kröfur, sem Alþ. gerði í málinu. Hún kaus nú ekki að fara þessa leið, heldur þveröfuga leið, kaus að tefja þau mál og þær till., sem um þetta fjölluðu, svo að vilji Alþ. kæmi alls ekki í ljós.

Hæstv. utanrrh. sagði í þeim orðum, sem hann talaði hér áðan, að hann hefði ástæðu til að ætla, að þær óskir eða kröfur, sem fram voru bornar af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, nái fram að ganga. Ég held, að ég rangfæri ekki orð hans mjög. Hann mun hafa mælt eitthvað í þessa átt. Ég tel ástæðu til, að bæði hv. alþm. og aðrir minnist þessara orða, þegar að því kemur, sem trúlega verður nú bráðum, að skýrt verður frá þeim samningum, sem gerðir hafa verið, því að þá sést m. a., hversu röggsamlegar og róttækar þær kröfur eða þau tilmæli hafa verið, sem hæstv. ríkisstj. hefur borið fram við viðsemjendur sína, ef það má telja víst, að þær hafi sem sagt allar náð fram að ganga.

Ég vildi ekki láta þetta tækifæri með öllu ónotað til þess að deila á meðferð þessa máls, en af eðlilegum ástæðum er ekki hægt að ræða þessa samningagerð almennt, þar sem frá henni hefur ekki verið skýrt í einstökum atriðum.

Ég vil enda þessi orð mín með því að segja, að það er að vísu gott, ef tekizt hefur í einhverju verulegu atriði að semja okkur Íslendingum í vil, og ef það hefur þá verið gert fram yfir það, sem við gátum bókstaflega krafizt samkvæmt varnarsamningnum sjálfum og samkvæmt íslenzkum lögum, án þess að taka upp nokkra samninga, þá er það vitanlega gott. En þó er skylt að muna, að í þessu máli er allt kák nema það eitt að losna við hinn ameríska her af íslenzkri grund.