13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (3549)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar í byrjun þessa þings voru lögð fram frv. og till. varðandi varnarsáttmálann við Bandaríkin. Síðan eru nú liðnir fullir 6 mánuðir. Allan þann tíma mun hæstv. ríkisstj. hafa haft þetta mál til athugunar og meðferðar. Nýr utanrrh. tók við á s.l. hausti, og þetta mun hafa verið fyrsta vandamálið, sem féll í hans hendur að fara með. Alþ. hefur heyrt ýmsar yfirlýsingar frá ríkisstj. varðandi þetta mál, að samninga hafi verið leitað og að þeim unnið við Bandaríkin, og síðast áður en forsetinn fór utan fyrir nokkru, þá skýrði utanrrh. frá því, að hann mundi koma hér aftur heim þann 12. og gefa skýrslu um niðurstöðu samninganna, áður en þingstörfum lyki. Sú skýrsla er nú komin, og hún er á þann veg, að hann geti að svo stöddu ekki sagt neitt um þær samningagerðir. Við þessa samningagerð hygg ég að sá háttur hafi verið hafður á, að það hafi verið gengið með öllu fram hjá utanrmn. Hæstv. ráðh. lýsir því að vísu yfir hér, að hann hafi ástæðu til að ætla og telji sig mega treysta því, að við þeim óskum og kröfum, sem hæstv. ríkisstj. hefur borið fram í þessu máli, muni verða orðið, en Alþingi fær ekkert um það að vita enn í dag og ekki heldur utanrmn., að ég hygg, hverjar þessar óskir og kröfur hafa verið.

Ég verð að segja það, að mér finnst hæstv. ráðh. ekki vera öfundsverður af því, sem orðið hefur hans hlutskipti í þessu máli. Ég hef heyrt sagt, — geri ekki ráð fyrir að fá neinar upplýsingar um það, hvorki til né frá, hvorki á eina hlið né aðra, — að eitt af því, sem erfiðleikum hefur valdið í sambandi við þessa samninga, ekki kannske út á við, heldur máske ekki minna inn á við, hafi verið það, hverjir mundu verða arftakar Hamiltonfélagsins, ef það væri látið hætta framkvæmdum hér á landi. Ég get engar sönnur á þetta fært, því að allt er hulið þm. og almenningi í þessum efnum, en mér þykir rétt að láta þetta koma fram hér.

Að sumu leyti finnst mér þessi niðurstaða hjá hæstv. utanrrh. nokkuð sýna táknræna mynd af framkvæmdum hæstv. ríkisstj. á þessu þingi frá byrjun og sérstaklega síðustu vikurnar og dagana. Það er ekkert óvanalegt, að mikið annríki sé og næturfundir síðustu daga þingsins, en það er fullkomlega óvenjulegt, að jafnmikið af stórmálum skuli vera sett inn í þingið síðustu dagana og afgreidd með þeim hraða, að fyrir þingmenn, sem ekki hafa þekkt málin fyrir, er gersamlega ómögulegt að átta sig á þeim til fulls. Alla síðustu daga og nætur hefur verið hrúgað inn hér nýjum málum og skýrslum og það afgreidd með öllum þeim afbrigðum, sem hægt hefur verið að koma við hverju sinni til að flýta fyrir gangi þeirra, eftir að þingið er búið að sitja verklaust mánuðum saman áður og bíða eftir þessum málum. Skemmst er þess að minnast, þegar hæstv. fjmrh. fyrir skömmu gaf yfirlit yfir fjárhag ríkissjóðs og afkomu hans á árinu 1953. Hann upplýsti þá, að tekjurnar hefðu orðið nærfellt 90 millj. umfram það, sem áætlað var í fjárl., að greiðsluafgangur, þegar búið var að teygja fjárl., væri nærri 40 millj. kr., en að af þessum 40 millj. kr. væru aðeins 2 millj. kr. eftir til ráðstöfunar handa þinginu, eins og hann orðaði það. Öllum er í fersku minni, að í dag var kosin nefnd til þess að rannsaka hag togaraútgerðarinnar, sem hefur verið allt frá því a. m. k. í byrjun þessa árs stöðugt rannsóknarefni, sem stjórnin hefur verið að athuga og velta fyrir sér og loksins tekið það ráð að ýta vandanum af sér og á mþn., sem hv. Alþ. kaus nú fyrir örskömmu, — koma sér undan vanda og reyna að koma honum á mþn. til að taka þau óþægindi, sem því eru samfara, vitandi það, að togararnir eru þegar ýmsir stöðvaðir og aðrir að stöðvast. Ábyrgðarheimildir og lántökuheimildir, sem skipta hundruðum milljóna, hafa verið afgreiddar á örfáum klukkustundum. Meðferð mála eins og frv. um húsaleigu sýna nokkuð, hvernig vinnubrögðin eru á stjórnarheimilinu. Þetta mál er búið að vera í meðferð þingsins á löngum og ströngum fundum með miklum ræðuhöldum, svo er það einfaldlega lagt til hliðar í þinglokin. Svona mætti lengi telja. Nú liggur fyrir næsta mál á dagskrá hér, þáltill. um að ráðstafa úr ríkissjóði 3 millj. kr. í Skálholt og stjórnarráðsbyggingu. Önnur þáltill. er um það, að ríkissjóður skuli greiða, væntanlega af tekjuafgangi 1953 eða taka lán, það sem sveitar- og bæjarfélög eiga óinnheimt af framlagi ríkissjóðs til framkvæmda eins og skólabygginga, hafnargerða og annars þess háttar. Við það er komin fram brtt. einnig frá stjórnarliðinu um það, að ef kaupstaðir og kauptún fái þessi framlög greidd núna, þá þurfi Búnaðarbankinn líka að fá sitt, 5 millj. í Búnaðarbankann og 5 millj. í ræktunarsjóð, og þá rjúka til nokkrir úr stjórnarliðinu enn og vilja fá 15 millj. kr. í fiskveiðasjóð.

Mér finnst þetta ekki alls kostar óskýr mynd af vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. og þeirra flokka, sem hana styðja. Ef kaupstaðirnir eiga að fá framlög í hafnir og skóla og annað slíkt, þá þarf Búnaðarbankinn og bændurnir að fá sitt. Ef þú færð þetta, þá vil ég fá hitt. Það er staðfesting á því, sem ég hef leyft mér að benda hér á áður, að samvinna þessara flokka byggist á innbyrðis hrossakaupum. Mér þykir leitt að þurfa að segja það svona að nóttu til og í þinglokin, að mér finnst svipurinn á störfum þessa þings hafa mótazt of mjög af þessu viðhorfi hæstv. stjórnarflokka. Ég bið hæstv. forseta afsökunar, ef ég hef vikið þarna nokkuð út frá skýrslu hæstv. utanrrh., en það er af því, að mér finnst hans skýrsla — eða hans skýrsluleysi réttara sagt — nokkuð staðfesta það, sem ég hef nú verið að benda hér á og minna á þær staðreyndir, sem fyrir liggja í þessu efni.