13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. sagði, að ekkert blað hefði átt að fá þá ræðu, sem hæstv. utanrrh. flutti hér í kvöld, fyrr en ráðh. hefði hafið mál sitt. Ég hygg, að þetta sýni mjög mikinn ókunnugleika á því, sem venja er í blaða- og fréttaheimi. Það er nefnilega þannig, að ræður, sem stjórnmálamenn halda og ýmsir fleiri, eru ekki aðeins afhentar blöðum og fréttastofnunum snemma þann dag, sem þær eru haldnar, heldur kemur það iðulega fyrir, að þær eru afhentar dögum fyrr, og það er mjög algengt, að íslenzk blöð eigi kost á því að fá hápólitískar ræður, sem stjórnmálaleiðtogar stórþjóða halda, einum, tveimur eða jafnvel fleiri dögum áður en þær eru haldnar. En að sjálfsögðu felst í þessu sá trúnaður, sem stjórnmálamenn og aðrir, sem við blaðamenn skipta, verða að sýna þeirri stétt manna. Og að sjálfsögðu er þetta gert í því trausti, að þeim trúnaði verði ekki brugðizt, þannig að blaðamennirnir og fréttastofnanirnar birti ekki fréttirnar fyrr en þeim er sagt að þeir megi birta þær. Þetta eru svo mikil fríðindi fyrir blaðamenn og fréttastofnanir, að engum, ekki aðeins heiðarlegum blaðamanni, heldur engum manni, sem ann hagsmunum sinnar fréttastofnunar, dettur í hug að bregðast þessu trausti.

Það væri ákaflegt óhagræði fyrir blöð og fréttastofnanir, ef þessi háttur væri ekki einmitt hafður á. Það veit ég að hv. 3. landsk. þm. skilur vel. Ég veit, að það hefði ekki verið þægilegt fyrir hann að fá afhenta tveggja dálka ræðu til setningar í sitt blað eftir miðnætti. Það hefði verið honum mikið óhagræði. Og það er hæpið, að öll blöð, meira að segja hér í okkar landi, gætu birt ræður stjórnmálamanna eða annarra, sem þau gjarnan vilja birta, ef sá háttur væri á hafður, að þær væru þá fyrst afhentar þegar búið væri að halda þær eða í þann mund sem flutningur þeirra er hafinn. Ég álít þess vegna, að það verði að koma fram og ekki sízt tel ég, að okkur, sem störfum við blöð, beri skylda til þess að láta það koma fram, að hæstv. utanrrh. hefur einungis gert blöðunum greiða og það sjálfsagðan greiða, sem alls staðar tíðkast að sýndur sé blöðum og fréttastofnunum, með því að afhenda þeim sína ræðu hér fyrr í dag. Það er fjarri því, að hann verði með nokkrum skynsamlegum rökum víttur fyrir að hafa þann hátt á, sem hann hefur haft. Hann hefur þvert á móti, þegar hann hefur verið beðinn um ræðuna af öðrum blöðum en sínu flokksblaði, afhent hana fúslega, og ég hef ekki heyrt það vefengt af hv. 3. landsk., sem hóf þessar svo mjög órökstuddu umr., að hans blaði hafi verið synjað um það, þegar hann óskaði, að vísu eftir dúk og disk, afrits af þessari ræðu.

Ég vil láta það koma fram hér sem mína skoðun, að ég tel, að hæstv. utanrrh. hafi í öllu haft réttan hátt á í þessu efni og að það sé mjög ómaklegt, að maður úr blaðamannastétt skuli hafa notað þetta tækifæri til árása á hann.