13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (3557)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það tekur því varla að bæta nokkru við það, sem sagt hefur verið. Hv. 3. landsk. þm. (HV) reynir að sitja við sinn keip. Það er tvennt, sem hann finnur að.

Annað, að ráðh. skuli láta sér detta í hug að láta flokksblað sitt fá fyrst afrit af ræðu, sem hann ætlar að flytja. Þetta telur hv. 3. landsk. þm. hreinasta hneyksli og manni skilst alveg óvenjulega málsmeðferð. Ég held því fram, að þetta sé alsiða, þetta geri yfirleitt allir íslendingar, sem við opinber mál fást. Þeir láta sín flokksblöð fá fyrst og fremst þær ræður, sem þeir ætla að flytja, og það er ekki nema alveg sérstaklega standi á, sem þeir láta öðrum blöðum slíkt í té einnig, og þá frekast eftir beiðni. Þetta er sú almenna venja, sem ég hef aldrei heyrt að fundið.

Hitt atriðið er, að ráðh. hefði ekki átt að láta ræðuna af hendi við nokkurn fyrr en hann var búinn að flytja hana eða fyrr en um leið og hann hóf flutninginn. Þetta er jafnvel enn meiri fjarstæða, eins og hér hefur verið rækilega upplýst, þar sem það er almenn venja orðin alls staðar, að menn láti slíkar ræður af hendi fyrir fram til þess að greiða fyrir almennri fréttaþjónustu. Um þetta ætti ekki að þurfa að fara fleiri orðum.

Það er til marks um, hvernig þetta geigar allt hjá hv. þm. í málflutningnum, að hann var farinn að tala um það hér áðan og ávíta utanrrh. fyrir að hafa viljað halda vitneskju leyndri fyrir öðrum en sinu eigin flokksblaði. Þó hefur þessi hv. þm. upplýst það sjálfur í þessum athugasemdum sínum, að hæstv. utanrrh. hafi látið honum í té upplýsingar um ræðuna fyrir hans blað undireins og farið var fram á það. Ég skil þá ekki, hvað eftir er af þessu, sem hv. þm. fór á stúfana með.

Þá er það brezka þingið og fjárlagaræðan brezka. Ég stend í þeirri meiningu, að sú mikla leynd, sem hvílir yfir þeirri ræðu, sé vegna þess, að í henni er tilkynnt skattaprósenta sú, sem á að gilda fyrir fjárlagaárið. Það er árlega ákveðin skattaprósenta, sem svo er kölluð í Bretlandi, og er hún tilkynnt í fjárlagaræðunni. Það er geysilega þýðingarmikið atriði fyrir alla fjárhagsstarfsemi, hver skattaprósentan verður, og því er svona mikil áherzla lögð á, að enginn hafi neina aðstöðu til að vita um hana fyrr en annar. Við höfum enga hliðstæða ákvörðun hér í sambandi við fjárlagameðferðina, og þess vegna er sú venja hér, að fjmrh. afhendi ræðuhandrit sitt til flokksblaða sinna fyrir fram. Það hefur aldrei verið að því fundið og hefur víst alla tíð verið gert, síðan farið var að leggja fram fjárlög hér á hv. Alþ. Á þessu sjáum við, að það batnar ekkert hagur hv. þm. (HV) í þessu sambandi, þótt um Bretland sé rætt og fjárlagaræður.