13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (3559)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér þykir aðeins eitt leitt í sambandi við þessa umr., og það er, að það skyldi koma í ljós, að hæstv. utanrrh. var vikinn af fundi og ekki í þinghúsinu, þegar umr. fór fram, en því hafði ég alls ekki veitt athygli og ekki látið mér detta í hug, að hann víki af fundi fyrr en fundinum lyki. Það þykir mér leitt, að umr. skyldi fara fram án þess, að hann væri hér viðstaddur. Hins vegar er það nú bót í máli, að þrír hæstv. ráðh. hafa rætt þetta mál út frá sínum sjónarmiðum og þar með sjálfsagt haldið á málstað stjórnarinnar svo sem hann er. En það, sem ég gerði mér vonir um í sambandi við þessar umr., var, að hæstv. ríkisstj. Íslands fengist til þess að viðurkenna, að á því hefði óneitanlega farið hefur, að öll dagblöðin í Reykjavík hefðu fengið samtímis sams konar tilkynningu um þau tíðindi, sem í utanríkismálaræðunni fælust. Það hefur hæstv. ríkisstj. ekki getað játað að færi hefur á að væri rétt. Og þá hefur maður bara þá vitneskju. Hæstv. ríkisstj. heldur því líka fram, að það hafi verið sjálfsagður hlutur að láta handritið í té áður en alþm. fengu vitneskju um innihald ræðunnar. Og hæstv. fjmrh. undirstrikar sérstaklega, að aðrar reglur gildi um það að gera kunnugt efni fjárlagaræðu hér á landi heldur en í Bretlandi og hann hafi iðulega afhent handrit að fjárlagaræðu nokkru áður en hann hafi flutt hana hér. Það virðist þess vegna svo, að það þyki sjálfsagt, að hér gildi allt aðrar reglur um þetta en í Bretlandi, og er bókstaflega viðurkennt af hæstv. fjmrh.

Ég hef svo engu við þetta að bæta. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum um það, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess að játa, að það hafi farið neitt miður en skyldi um það að afhenda einu blaði handrit ræðunnar löngu á undan öðrum blöðum og sé heldur ekkert aðfinnsluvert, að aðrir fái vitneskju um boðskap, sem ráðh. hefur lofað að flytja Alþ., löngu áður en þingið fær þann boðskap. Mín skoðun er allt önnur, og ég hef túlkað hana, og það verður víst ekki brúað bilið þar á milli.