27.10.1953
Neðri deild: 11. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (3560)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í fréttum dagsins er þess getið, að á þingi Sameinuðu þjóðanna hafi í stjórnmálanefnd þingsins verið borin fram till. um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Túnisbúa og hafi hún verið samþ. í nefndinni með ekki miklum meiri hluta, en hins vegar vafasamt, að hún verði samþ. á sjálfu allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þegar hún kemur þar til atkvæða. Tekið er fram í fréttinni, að fulltrúar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar hafi greitt till. atkvæði ásamt fjölmörgum fulltrúum Asíuþjóða og Arabaríkja og ýmissa smáþjóða, en gegn henni hafi greitt atkvæði stórveldin og þó fyrst og fremst nýlenduveldin. Þess var ekki getið í fréttinni, hvernig atkvæði Íslands hafi fallið. Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. utanrrh.: Veit hæstv. ráðh., hvernig atkvæði Íslands féll í allsherjarnefnd Sameinuðu þjóðanna við þessa atkvæðagreiðslu? Enn fremur langar mig til þess að spyrja hann: Hvaða reglur gilda almennt um það, hvernig fulltrúar Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna greiða atkvæði? Hafa þeir samráð um það við ríkisstj. sína hverju sinni, hverja afstöðu þeir skuli taka til mála, eða er það einkamál sendinefndarinnar, hvernig atkvæði falla? Nýlega var haldinn fundur utanrrh. Norðurlanda til þess að ræða um sameiginlega afstöðu Norðurlandanna allra á þingi Sameinuðu þjóðanna. Var þar rætt um þetta mál, og ef svo er, hvaða afstaða var þá þar tekin?

Það skiptir ekki litlu máli, hvernig fulltrúar Íslendinga á þingi Sameinuðu þjóðanna greiða atkvæði og þá t. d. í slíkum málum sem þessu. Íslenzka þjóðin mun áreiðanlega ætlast til þess, að fulltrúar hennar stuðli að því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að nýlenduþjóðir öðlist sjálfstæði sem fyrst. Þá væri skörin farin að færast upp í bekkinn, ef Íslendingar, sem lutu erlendu valdi í sjö aldir og eru svo að segja nýbúnir að öðlast sjálfstæði sitt, væru búnir að gleyma svo sögu sinni, að þeir hefðu nú engan skilning lengur á sjálfstæðisbaráttu annarra smáþjóða og vildu ekki leggja henni lið. Ég vona, að atkvæði Íslands hafi á þessum vettvangi fallið þannig, að það sé í samræmi við þær frelsishugsjónir, sem Íslendingar hafa aðhyllzt, síðan þeir urðu þjóð, og efldust og styrktust með þjóðinni í aldalangri sjálfstæðisbaráttu hennar.