27.10.1953
Neðri deild: 11. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (3561)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Þessi fyrirspurn hefði átt að koma fram í venjulegum fyrirspurnatíma. Það er því frekar undirbúningslítið hjá mér að svara henni. En ég get upplýst eftirfarandi:

Í sambandi við Túnis- og Marokkómálin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna voru íslenzku sendinefndinni hjá Sameinuðu þjóðunum gefnar til leiðbeiningar um afstöðu sína til þessara mála upplýsingar um samkomulag á síðasta utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna í Stokkhólmi, sem var á þá leið að vera ekki á móti því, að þessi mál yrðu rædd á allsherjarþinginu, og að fylgja almennum till., sem miðuðu að lausn þessara deilumála. Önnur nánari fyrirmæli um þessi mál hafa sendinefndinni ekki verið gefin. Utanríkisráðuneytinu hafa ekki enn þá borizt upplýsingar frá sendinefnd Íslands um atkvæði hennar í pólitísku nefndinni í Túnismálinu, en hins vegar get ég upplýst, að nefndin greiddi 19. þ. m. í pólitísku nefndinni atkvæði með till. Bólivíu, eins og henni hafði verið breytt með till. frá Indlandi, Indónesíu og Burma, um Marokkómálin, en hún var á þá leið, að sú von var látin í ljós, að frjálsari stjórnarhættir mættu þróast í Marokkó og að viðurkenndur verði réttur Marokkóbúa að ráða sínum málum sjálfir.