05.03.1954
Neðri deild: 58. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (3571)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar fundur hafði verið settur fyrir nokkrum mínútum, kvaddi ég mér hljóðs utan dagskrár og skýrði frá því, að ríkisútvarpið hefði nú í hádegisútvarpinu greint frá opinberum umr. í Danmörku um handritamál Íslendinga, — harmaði það, að málið væri komið til opinberrar umr. í Danmörku, áður en íslenzkir alþm. fengju neitt um nýtt viðhorf í málinu að vita. Ríkisútvarpið skýrði frá því, að blaðið Politiken hefði, að mér skildist í gær, sagt, að það væru komnar fram till. í handritamálinu, sem í aðalatriðum væru á þá leið, að löglegur eignarréttur handritanna skyldi skiptast á milli Dana og Íslendinga. Í öðru lagi, að komið yrði á fót vísindastofnun í Kaupmannahöfn og Reykjavík til rannsókna norrænna handrita. Í þriðja lagi, að nefnd vísindamanna yrði skipuð til þess að skipta handritunum milli þjóðanna. Og í fjórða lagi, að ljósprenta skyldi handritasafnið allt og ljósprentuð útgáfa vera til reiðu í hvorri vísindastofnuninni um sig. Þá var enn fremur skýrt frá því, að þetta mál hefði verið rætt við menntmrh. Íslands, þegar hann hefði verið í Kaupmannahöfn nú fyrir skömmu, og málið væri komið í hendur ríkisstj. íslenzku. Ég lét í ljós undrun mína á því, að slíkt nýtt viðhorf í málinu væri komið til umræðu meðal annarrar þjóðar, áður en alþm. á Íslandi fengju um málið að vita, og væri þó Alþingi sitjandi að störfum. Og ég spurðist fyrir um það í lok míns máls, hvort ekki mundi vera tilhlýðilegt, að málið yrði upplýst af hæstv. menntmrh., t. d. á lokuðum þingfundi á Alþingi Íslendinga, ef hann teldi, að það væri enn þess eðlis, hið nýja viðhorf, að ekki væri tímabært að ræða það opinberlega. Enn fremur fýsir mig nú að vita, hvort hæstv. ríkisstj. hafi t. d. áformað að bera fram ákveðnar till. um málið.