25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (3579)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Á þeim þingfundi, er hæstv. viðskmrh. var spurður um olíumálið, upplýsti hann, að það hefði ekki þótt ástæða til að setja nein skilyrði um verðlag til notenda olíunnar í sambandi við hina hagstæðu samninga, sem hæstv. ríkisstj. hafði gert á olíuinnkaupunum, vegna þess að olíur heyrðu undir hámarksverðsákvæði fjárhagsráðs. Ég hef seinna fengið upplýsingar um það, sem ég tel öruggar, að þetta svar hæstv. ráðh. er að nokkru leyti rangt. Það mun vera staðreynd, að hvorki svartolíur né smurningsolíur, — og allir vita, að smurningsolíur eru dýr vara og munu þannig nema nokkuð miklu að krónutölu í hinum umrædda samningi, — heyra ekki undir hámarksverðsákvæði fjárhagsráðs, og þykir mér miður, að um svona veigamikið atriði og þarna er um að ræða skuli hafa verið mishermt hjá hæstv. ráðh., þegar hann hafði fengið tóm til að svara þessu, ekki undir hinum almennu umr. um frumvarpið um olíueinkasölu, heldur einmitt í spurningatíma, þegar ætla má, að hæstv. ráðh. hafi gefizt nægilegt tóm til að undirbyggja svör sín, svo að þau væru áreiðanleg.