25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (3580)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það, sem hér hefur verið sagt, hefur verið sagt í dálítið alvarlegum tón. Hv. l. landsk. þm. (GÞG) hringdi til mín áðan og sagðist þurfa að gefa veigamiklar upplýsingar hér í Alþ. um það, að ég hafi farið með rangar staðreyndir. Ég benti honum á, að ég hefði nú lítinn tíma til þess að grennslast eftir því, hvort það væru rök, sem hann hefði að mæla. Vitanlega þætti mér mjög slæmt, ef það reyndist svo, að það væri ekki rétt, sem ég segði hér í þingi eða annars staðar. Ég fór þess vegna fram á það, að hann frestaði því til næsta miðvikudags að fara með þær fullyrðingar, sem hann viðhafði hér áðan, því að þá væri hægt að fá glöggar upplýsingar um það, hvort ég hefði farið með rangt mál eða hvort þær staðhæfingar, sem hann fór með hér áðan, væru að öllu leyti réttar.

Hv. þm. þarf ekki aðeins að vitna í Morgunblaðið, hann getur einnig vitnað í Alþýðublaðið um það, sem ég sagði hér á þingfundi s. l. miðvikudag, og það blað, sem ég las upp úr, og þær tölur, sem ég nefndi hér í þinginu, hafði hv. þm. fyrir framan sig, þegar hann var að skrifa þá grein, sem birtist í Alþýðublaðinu. Og hafi ég misskilið eitthvað, þá hefur hann einnig gert það. En tölurnar, sem ég nefndi hér s. l. miðvikudag, voru réttar, og þær eru óhagganlegar.

Ég vil upplýsa, að það, sem rætt er um heildarkostnað verðgæzlustjóra, sem var 1949 760802 kr., er rétt og óvefengjanlegt. Heildarkostnaður við skrifstofu verðgæzlustjóra 1952 var 592900, og er það einnig rétt og óhagganlegt. Heildarkostnaður við verðlagsskrifstofu fjárhagsráðs árið 1952 var 195050 kr.; það er einnig rétt. En hv. 1. landsk. þm. segir, að bæta eigi 195050 kr. við 592900 kr., þegar samanburðurinn er gerður á verðgæzlunni nú og 1949, vegna þess að verðgæzlan 1949 og verðlagsákvarðanir voru undir sama hatti, en nú er þetta aðskilið. Þetta er þó ekki nema að nokkru leyti rétt, eftir nýjustu eftirgrennslan. Það er vitanlegt, að 1949, þegar verðlagsstjóri fór með þessi mál, þá voru einnig menn í fjárhagsráði, sem unnu að nokkru leyti að verðlagsákvörðunum, og mun það hafa verið Hermann Jónsson, eins og nú, og tekið laun hjá fjárhagsráði. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Er þetta rangt? (Gripið fram í: Já.) Ja, þessu var nú skotið að mér áðan, en ef ég hefði nú haft einhvern tíma til þess að rannsaka þetta, þá hefðum við ekki þurft að standa hér hvor framan í öðrum og segja: Þetta er rangt — því að þá hefðum við getað haft tölurnar. Hitt er náttúrlega sjálfsagt að hafa það, sem sannara reynist. En það, sem ég undirstrika hér, er það, að þær tölur, sem ég fór með s. l. miðvikudag, eru réttar. En kostnaðurinn við verðlagsskrifstofu fjárhagsráðs var ekki lagður við kostnað verðgæzluskrifstofunnar, og í því liggur mismunurinn, ef endilega þarf að taka þessar báðar skrifstofur til samans, þegar samanburður er gerður við árið 1949.

Útkoman hjá hv. 1. landsk. er þá þessi, að það var ekki 100 þús. kr. lækkun á verðgæzlunni, heldur 37 eða 38 þús. kr. hækkun frá 1949. En það, sem þó hefur gerzt, er það, að í staðinn fyrir tólf menn, sem áður störfuðu við verðgæzluna, starfa nú átta menn. Og ef það er ekki lækkun, stafar það af því, að það hefur orðið kauphækkun frá 1949 til ársins 1952.

Annars er það dálítið einkennilegt, að hv. 1. landsk. og fleiri eru samtímis að fárast yfir því, hver kostnaður er við verðgæzluna, um leið og þeir eru að tala um það, að verðgæzlan sé of linlega framkvæmd. Það hefur ekki verið stefna okkar að draga úr verðgæzlunni, og ég tel, að það sé nauðsynlegt að hafa hana ekki slakari en verið hefur, alveg eins þótt hámarksákvæðin hafi verið afnumin.

Eins og ég sagði, þá er sjálfsagt að hafa það, sem réttara reynist í þessu. Ef það er réttara að leggja kostnaðinn við verðlagsskrifstofu fjárhagsráðs við skrifstofu verðgæzlustjóra, þegar samanburðurinn er gerður við kostnaðinn 1949, þá er sjálfsagt að hafa það svo, og hv. þm. hefur komið sinni athugasemd að. En ég tel, að það hefðu verið heppilegri vinnubrögð að gefa mér tíma til að rannsaka þetta mál alveg til hlítar, en ekki að koma með þessar fullyrðingar hér í deildinni alveg fyrirvaralaust.

Það, sem hv. 3. landsk. þm. (HV) var að tala hér um áðan, er olían, að smurningsolían og svarta olían muni ekki vera nú undir hámarksákvæðum. Þetta mun vera rétt hjá hv. þm. Ég sagði hér við umr., að olían væri undir hámarksákvæðum, og það er rétt, að sú olía, sem mest áhrif hefur á atvinnulífið, þ. e. benzín og öll önnur olía, — svartolían er aðeins lítill þáttur, mjög lítil notkun á henni og ekki hægt að nota hana, vegna þess að það þarf alveg sérstök tæki til þess. Smurningsolían mun hins vegar ekki nú vera undir hámarksákvæðum, en mér er ekki kunnugt um, að álagningin hafi verið hækkuð á smurningsolíunni, eftir að hámarksákvæðin voru afnumin, svo að út af fyrir sig, þótt olían sé ekki undir hámarksákvæðum, þessi liður hennar, en álagningin ekki hækkuð, þá sýnist mér, að það skipti ekki svo miklu máli. En það er rétt, sem ég sagði, aðalolían er undir hámarksákvæðum.