25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (3584)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir það, að hann viðurkenndi, að það hefði verið ónákvæmni hjá sér, þegar olíumálaspurningarnar voru hér á dagskrá, að segja, að olíur væru undir hámarksákvæðum fjárhagsráðs um verðlag. Hann játaði nú, að sér hefði láðst um þau atriði, sem hann sagði að vísu að væru ekki þýðingarmikil, að svartolíur og benzín væru ekki undir verðlagsákvæðum. Það er sem sé það rétta í málinu.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, sem hér hefur verið rætt, vil ég aðeins segja það, að undarlegt þykir mér, ef hv. 3. þm. Reykv. telur ástæðulaust að gera veður út af því, hvort það hafi gleymzt að leggja tvær tölur saman. Ef það kæmi t. d. fyrir í bókhaldi hans eigin fyrirtækis, þá yrði röng niðurstaða bókhaldsins; það er gefinn hlutur. Og hér er um að ræða, hvað er rétt og hvað er rangt.

Í annan stað er það þetta. Það var upplýst hér af hæstv. ráðh., að það hefði lækkað tilkostnaður við verðgæzluna við það, að verðlagseftirlitið hefði verið lagt niður. Nú er upplýst með tölum, sem ekki hafa verið vefengdar af hæstv. ráðh., að tilkostnaðurinn í krónutali hefur hækkað þrátt fyrir það, þótt búið sér að leggja verðlagseftirlitið niður. Verðgæzlan kostar og þessar skrifstofur, sem þá voru reknar, nú meira að krónutölu, þegar ekkert verðlagseftirlit er, heldur en það kostaði meðan verðlagseftirlits var gætt, og það er hneyksli.