25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (3589)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér finnst nú, að sumir hv. þm. hafi haft það mikið rúm í dagskrá hér á þinginu, að þeir þyrftu þess vegna ekki að eyða miklum tíma utan dagskrár, en fyrst byrjað er á þeim sið hér að leiðrétta utan dagskrár það, sem fram hefur komið við þinglegar umræður málanna, þá vildi ég leyfa mér að geta hér eftirfarandi atriðis, sem kannske hefur legið of lengi óleiðrétt.

Hv. 1. landsk. sagði hér í umr. um kosningabandalög, að þar væri að leita fordæma til Svíþjóðar um kosningabandalög með sama hætti og þeir leggja til, Alþfl.-menn, í sínu frv. Ég hef í höndunum bréf frá sendiherra Íslands í Osló, þar sem eru ummæli um kosningabandalögin í Noregi. Skal ég ekki sérstaklega víkja að því, þótt það væri kannske ástæða til. En um þetta atriði vil ég segja þetta, til þess að leiðrétta það, sem fram hefur komið um þetta mál í ummælum hv. 1. landsk. Sendiherrann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki varð ég þess var, þegar kosningalögin voru hér tekin til endurskoðunar s. l. vetur, að till. væru uppi um að innleiða þessa skipan aftur (þ. e. a. s. kosningabandalög). Hins vegar komu fram till. um að innleiða hér svokallað innra listasamband, sem gildir í sænsku kosningalögunum, en það er í því fólgið, að sama flokki er heimilað að hafa tvo lista innan sama kjördæmis og slá saman atkvæðunum, er þingsætum er úthlutað.“ Sama flokknum! — Í framhaldi af þessu segir svo: „En þessi till. var felld hér með miklum atkvæðamun. Eina kosningasambandið, sem nú er í lögum hér, er á þann veg, að tveir eða fleiri flokkar geta sameinazt um einn lista, og fer þá kosning þingmanna af þeim lista eftir atkvæðamagni hans og röðin á listanum á venjulegan hátt.“

Vegna þess að hv. 1. landsk. þótti ástæða til að fara að leiðrétta hér hluti, sem fram hafa komið í fyrri umræðum, þá taldi ég ekki ástæðu til að draga lengur að leiðrétta þetta, þar sem ég hafði þessar upplýsingar hér á milli handa.