27.10.1953
Efri deild: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (3595)

Afgreiðsla mála úr nefndum

forseti (GíslJ):

Áður en gengið er til dagskrár, vildi ég mega beina þeirri fyrirspurn til hv. formanna nefndanna, hvort ekki sé von á að geta fengið eitthvað af þeim frv., sem hafði verið vísað til nefnda undanfarið, til þess að þessi mál þurfi ekki að koma öll í einni hrúgu. Sérstaklega vildi ég mega beina því til hv. form. allshn., hvort væntanlegt sé álit frá n. um 12. mál, sem var vísað til allshn. 7. okt., áfengislöggjöfina, einnig til hv. formanns menntmn., hvort væntanlegt sé álit um frv. um Háskóla Íslands, 17. mál, sem vísað var til menntmn. sama dag, og að síðustu til hv. formanns samgmn., hvort væntanlegt sé nál. um vegalagabreytingu, 32. mál, sem vísað var til samgmn. 8. okt. Ég vildi einnig biðja aðra hv. nefndarformenn að hraða álitum, eftir því sem mögulegt er.