30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (3613)

Fjarvistir þingmanna

forseti (GíslJ):

Hv. þm. Str. hefur ekki séð sér fært að mæta hér í deildinni í dag eða á mörgum undanfarandi fundum, og með því að ég hef óskað mjög eftir því sem forseti, að þm. mættu hér, nema þeir hefðu gildar ástæður, þá mun ég óska eftir því, að skrifstofan tilkynni hv. þm. Str., að það sé hans þingskylda eins og annarra þingmanna að mæta hér á fundum, og vænti, að hann þá bregði venju sinni og sæki betur fundi en hann hefur gert.

Ég vil einnig nota tækifærið til þess að þakka þeim hv. þingmönnum, sem hafa tekið til greina athugasemdir mínar um þessi mál áður og sótt miklu betur fundi en áður var, þar sem það tefur að sjálfsögðu fyrir fundarstörfum, ef menn mæta ekki hér á réttum tíma.

Er 31. fundur í Nd., 30. nóv., var settur, mælti forseti (HÁ): Það eru komnar fimm mínútur fram yfir þann tíma, er fundur átti að hefjast, og þessi töf stafar af því, hvað hv. þdm. mæta illa. Mér finnst það vera lágmarkskrafa, að þdm. mæti stundvíslega og séu til staðar við atkvgr. Ég mun ekki hafa nafnakall að þessu sinni til þess að rannsaka, hverja vantar, en það verður gert fljótlega, ef tilefni gefst til.