19.10.1953
Sameinað þing: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (3619)

Minning látinna manna

forseti (JörB):

Í gær barst hingað fregn um, að Bergur Jónsson hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður væri látinn, en hann fór fyrir skömmu til Noregs til þess að leita sér þar heilsubótar. Áður en fundarstörf hefjast, vil ég minnast þessa þjóðkunna manns nokkrum orðum.

Bergur Jónsson fæddist í Reykjavík 24. sept. 1898 og var því ekki nema 55 ára, þegar hann féll frá. Foreldrar hans voru Jón yfirdómari Jensson rektors Sigurðssonar og kona hans, Sigríður Hjaltadóttir bónda Ytri-Ey á Skagaströnd Ólafssonar Thorbergs. Hann brautskráðist úr menntaskólanum í Reykjavík 1919 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands fjórum árum síðar, 1923, varð þá um haustið fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík og gegndi því starfi um fjögurra ára skeið eða þar til hann var haustið 1927 settur sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Fyrir því embætti fékk hann veitingu vorið eftir, 1928, og gegndi því til 1935, en þá var hann skipaður sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Hafnarfirði og hafði það embætti á hendi í rúm 10 ár, til vorsins 1945. Þá var honum veitt sakadómaraembættið í Reykjavik, en var veitt lausn frá því 1947, eftir tæplega tveggja ára þjónustu, sakir vanheilsu. Eftir það varð hann héraðsdómslögmaður í Hafnarfirði og Reykjavík og síðast hæstaréttarlögmaður. Barðstrendingar kusu hann á þing 1931, og átti hann hér sæti til 1942; sat alls á 16 þingum. Áður hafði hann verið þingsveinn og síðar þingskrifari. Þess má og geta hér, sem er allfátítt, að bæði faðir hans, Jón yfirdómari Jensson, og föðurfaðir, Jens rektor Sigurðsson, höfðu verið alþingismenn og einnig tveir afabræður hans, Jón Sigurðsson forseti og Bergur Thorberg landshöfðingi.

Bergur Jónsson þótti hinn mesti efnismaður og til forustu fallinn, skarpskyggn lögfræðingur og harðskeyttur baráttumaður á hinum fyrri þingárum sínum, enda voru honum falin ýmis mikilvæg trúnaðarstörf. Hann var m. a. formaður í mþn. í kjördæmaskipunarmálinu 1931, formaður lögfræðinganefndar um réttarfarslöggjöf 1934, átti sæti í mþn. um hag og rekstur togaraútgerðar 1938 og var um alllangt skeið í miðstjórn Framsóknarfloksins. Í landskjörstjórn var hann kjörinn af Alþingi 1943 og jafnan síðan. En heilsubrestur olli því, þegar fram í sótti, að hann naut sín ekki eins og efni og vonir stóðu til. Hin síðari árin mun hann aldrei hafa gengið heill til skógar.

Ég vil biðja þingheim að minnast þessa vinsæla og vel gefna manns, sem nú er fallinn frá fyrir aldur fram, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]