17.12.1953
Efri deild: 40. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (3660)

Þingfrestun og setning þings að nýju

forseti (GíslJ):

Hv. alþingismenn. Störfum þessarar hv. deildar er nú að verða lokið á þessu ári. Síðasta verk deildarinnar var að samþ. frumvarp á þskj: 325, 90. mál, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, er nú er orðið að lögum, en samkv. þessum lögum er nú mögulegt að hefjast þegar handa um byggingu heimilis fyrir þá menn, sem harðast hafa orðið úti í lífsbaráttunni. Þetta var mannúðleg, vegleg og kærleiksrík jólagjöf til smælingjanna. Fyrir hana ber að þakka öllum hv. þingmönnum.

Þeim hv. þingmönnum, sem nú halda heim í jólafríinu, óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu, þeim, er sjúkir eru, óska ég skjóts og góðs bata, að þeir megi sem allra fyrst koma hingað aftur til starfa heilir og hraustir. Yður öllum, fjölskyldum yðar og starfsliði þingsins óska ég gleðilegra jóla. Megi hinn helgi jólafriður og hin einlæga, sanna jólagleði verða hlutskipti yðar allra á komandi jólum. Öllum óska ég árs og friðar á komandi ári, um leið og ég þakka samstarf, samhug og samveru á því ári, sem nú er að líða.

Að síðustu óska ég þess, að við öll megum hittast hér aftur heil til áframhaldandi starfa á næsta ári. — Gleðileg jól.