14.04.1954
Sameinað þing: 52. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (3678)

Starfslok deilda

forseti (JörB):

Eins og sjá má af þessu yfirliti, hefur Alþingi haft mörg mál til meðferðar að þessu sinni. Allmörg þeirra frv., er afgreiðslu hafa hlotið og að lögum orðið, eru þýðingarmikil og merkileg og taka til hagsmuna fjölda þegna þjóðarinnar, nú þegar sum þeirra, en önnur marka stefnu í framtíðinni,er stuðla mun að bættum og betri þjóðarhag.

Vil ég nú stuttlega víkja lítið eitt að störfum þingsins:

Sett hafa verið lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Er með þessari löggjöf loks komið á nýrri og fastari skipan um þessi mál heldur en verið hefur til þessa.

Sett voru ný lög um brúargerðir. Sú lagasmíð ber glöggt vitni þess, að Alþingi hefur hug á að greiða fyrir því, eftir því sem unnt er, að brúa vatnsföll landsins.

Samþykkt voru lög um að auka við fé veðdeildar Búnaðarbanka Íslands rúmlega einni milljón króna.

Hæstv. ríkisstj. gaf fyrirheit um það m. a., er hún tók við völdum, að hún mundi beita sér fyrir því á næsta þingi — þingi því, sem nú er að ljúka — að sett yrðu ný skattalög og með þeirri lagasetningu linað á skattheimtu til ríkisins, einnig, að verulegum fjármunum yrði varið til smáíbúðabygginga fyrir tilstuðlan hins opinbera og að á næstu árum yrði varið miklu fé til raforkuframkvæmda og dreifingar raforkunnar út um byggðir landsins. Löggjöf um þessi efni hefur nú verið sett á þessu þingi. Samkvæmt ákvæðum hinna nýju skattalaga er gert ráð fyrir, að tekjuskatturinn á einstaklingum lækki að jafnaði um 29% og á félögum um 20%.

Þá var og gerð allmikil breyting á tollskránni. Hafa verið lækkaðir verulega tollar frá því, er áður var, á þeim vörum, er iðnaðinn varða miklu. Í fyrra var lækkaður kaffi- og -sykurtollur. Slík almenn lækkun skatta og tolla hefur aldrei átt sér stað fyrr.

Þingið samþykkti lög um heimild handa ríkisstj. til að taka allt að 20 millj. kr. lán til smá íbúðabygginga. Húsnæðisvandamálið er eitt af þeim erfiðustu vandamálum þjóðarinnar, er leysa þarf, og þó að þessi fjárhæð sé minni en þing og stjórn hefði kosið að geta veitt í þessu skyni, þá er þess að vænta, að nokkur hjálp geti að þessu orðið ýmsum þeim, — er erfitt eiga með að afla sér húsaskjóls.

Samþykkt voru lög um viðauka við raforkulögin frá 1946. Samkvæmt þessum lögum er ákveðið að verja á árunum 1954–1963 250 millj. kr. til raforkuframkvæmda frá hinu opinbera, auk framlags frá hlutaðeigandi héruðum. Fjárframlög ríkissjóðs til þessara framkvæmda hefur ríkisstj. tryggt. — Þá voru sett lög um orkuver á Vestfjörðum. Samkvæmt þeim er ríkisstjórninni heimilt að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs eða ábyrgjast lán allt að 60 milljónum króna til þeirra framkvæmda.

Enn fremur voru samþykkt lög um breyting á lögum frá 1952, um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins, um heimild til að virkja Lagarfoss á Fljótsdalshéraði og leiða orkuna til notkunar í sveitum þar og til kauptúna á Austfjörðum. Með þessum lögum er og heimilað að virkja Haukadalsá í Dalasýslu fyrir fimm syðstu hreppa sýslunnar. Enn fremur er heimild til þess að virkja Múlaá í Geiradalshreppi handa nálægum hreppum. Til ofantalinna framkvæmda eru heimildir til fjárframlaga hækkaðar samtals um 33 millj. kr. frá því, sem áður var ákveðið.

Loks voru sett lög um viðauka við lögin frá 1946 um virkjun Sogsins. Er með þessum lögum stjórn Sogsvirkjunarinnar heimilt að taka lán til virkjunar Efra-Sogsins, allt að,100 millj. kr., með samþykki ríkisstjórnarinnar.

Eins og sjá má af þessu stutta yfirliti um fyrirhugaðar raforkuframkvæmdir, er til þess ætlazt, að varið verði miklu fé á okkar mælikvarða á næstu árum til þeirra. Mun það greiða fyrir margháttuðum framförum í ýmiss konar störfum og bæta aðbúð og afkomu fjölda þegna þjóðarinnar. Er vel farið og ber að fagna því, að markvisst er unnið að stórfelldum framkvæmdum í þessum málum, svo fljótt sem kostur er á.

Íslenzka þjóðin hefur öldum saman átt í harðri baráttu við myrkur og kulda. Ég vona, að óhætt sé að fullyrða, að hún geti nú litið björtum augum til framtíðarinnar, að innan ekki langs tíma verði sigur unninn á því böli, sem skortur á ljósi og yl hefur löngum bakað þjóðinni.

Mér sýnist sem starf háttvirts Alþingis, þótt stuttlega hafi nú aðeins verið að því vikið, hafi mótazt af stórhug og bjartsýni á þjóðina og framtíð hennar.

Ég vil vona og óska, að allir þegnar íslenzku þjóðarinnar leggi sig fram um það að vinna sem ötullegast að frama og heiðri þjóðarinnar á komandi tímum. Megi allar hollar vættir styðja og styrkja íslenzku þjóðina og vernda ættjörð vora.

Um leið og ég kveð hv. þm. að þessu sinni og þakka þeim innilega fyrir ágæta samvinnu, góðgirni og umburðarlyndi í minn garð, óska ég þeim alls hins bezta og utanbæjarþingmönnum fararheilla og góðrar heimkomu: Hittumst, allir heilir á næsta þingi. Starfsmönnum þingsins vil ég einnig þakka fyrir vel unnin störf.